Áfram reynt að leysa úr vanda fyrirtækja

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar hjá Íslandsbanka.
Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar hjá Íslandsbanka.

Hálft ár er liðið frá því að íslenskar lánastofnanir veittu fyrirtækjum í ferðaþjónustu hálfs árs greiðslufrest vegna kórónuveirufaraldursins. Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar hjá Íslandsbanka, segir að þó að fresturinn sé formlega liðinn hafi það ekki í för með sér meiriháttar breytingar á högum fyrirtækja.

Það stefnir með öðrum orðum ekki nauðsynlega í fjöldagjaldþrot í þessum mánuði, alltént ekki af þeirri sök einni að þessi frestur sé runninn út. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði þó nýverið að það yrði að teljast óeðlilegt ef hið minnsta 20% ferðaþjónustufyrirtækja hættu ekki rekstri eða færu í gjaldþrot á næstunni.

Ástandið verður erfiðara því lengur sem það varir

Að umræddur frestur sé liðinn hefur ekki meiriháttar þýðingu, segir Björn. Áfram verði fyrst og fremst litið til þess hvaða fyrirtæki séu talin munu vera rekstrarhæf og lífvænleg eftir Covid-19. Þó að umrætt úrræði sé að renna sitt skeið er ekki þar með sagt að frekari fyrirgreiðsla og úrræði standi ekki til boða.

Ljóst er þó að mörg fyrirtæki hafi orðið fyrir algjöru tekjufalli vegna faraldursins. „Ég myndi ekki segja að það séu einhverjar stórar breytingar að verða en auðvitað er það þannig að því lengur sem þetta ástand varir því erfiðara verður það. Það sem er þá verið að skoða er það hvernig rekstur fyrirtækjanna lítur út þegar tekjurnar fara að skila sér að nýju,“ segir Björn.

Allra hagur að hér séu fyrirtæki

Björn segir Íslandsbanka færan um að fara í gegnum það erfiða tímabil sem er framundan. „Þetta er það sem bankinn er að einbeita sér að núna, að þjónusta sína viðskiptavini í gegnum þetta tímabil. Það er allra hagur að hér hafi fyrirtæki rekstrarhæfi og séu í stakk búin til að geta spyrnt sér upp af botninum þegar hlutirnir komast í lag.“

Í viðtali við mbl.is sagði Jóhannes Þór að það ylti á fjármálastofnunum hver örlög sumra fyrirtækja yrðu. „Núna er komið að þessu og það verður að bíða og sjá hvað fjár­mála­stofn­an­irn­ar ætla að gera með sín­um kúnn­um,“ sagði hann.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK