Sidekick tryggir sér 2,8 milljarða

Sæmundur Oddsson og Tryggvi Þorgeisson, stofnendur Sidekick Health.
Sæmundur Oddsson og Tryggvi Þorgeisson, stofnendur Sidekick Health. Ljósmynd/Aðsend

Heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health hefur tryggt sér nýtt fjármagn að fjárhæð 20 milljónir dollara. Er fjármagninu ætlað að styðja við vöxt fyrirtækisins í Evrópu og Bandaríkjunum.

Sidekick þróar heilbrigðismeðferðir til að bæta heilsu fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma. Þannig er meðferð þess miðlað í gegnum fjarheilbrigðiskerfi fyrirtækisins sem er skráð sem CE-merkt lækningatæki. Sidekick á í samstarfi við alþjóðleg lyfjafyrirtæki sem miðar að því að samþætta lyfjameðferðir. Þá vinnur fyrirtækið einnig með veitendum sjúkratrygginga.

Sérþekking á sviðinu

Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri fyrirtækisins, segir það stóran áfanga fyrir fyrirtækið að fá erlenda fjárfestingasjóði að Sidekick Health sem hafi sérþekkingu á því sviði sem fyrirtækið starfar á.

„Þetta er enn ein staðfestingin á því að þessi nálgun - að nýta tæknina til að miðla gagnreyndri heilbrigðismeðferð - er óðum að verða órjúfanlegur hluti af nútímaheilbrigðiskerfi,“ segir Tryggvi í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Novator í hluthafahópnum

Meðal núverandi hluthafa Sidekick Health eru Novator og Frumtak Ventures og tóku þeir einnig þátt í þessari fjármögnunarlotu fyrirtækisins. Fjármögnunin er hins vegar leidd af vísissjóðunum Wellington Partners og Asabys Partners. Fyrrnefndi sjóðurinn er einn sá stærsti sinnar tegundar í Evrópu með um milljarð evra í stýringu. Sá síðarnefndi sérhæfir sig í fjárfestingum í líftækni- og heilbrigðistæknifyrirtækjum.

Fjármagnið sem nú hefur safnast verður nýtt til að styðja við vöxt Sidekick sem verið hefur mikill á undanförnum misserum. Felst það m.a. í því að opna sölu- og markaðsskrifstofur í Evrópu og Bandaríkjunum. Er markmiðið að fjórfalda starfsmannafjölda fyrirtækisins á komandi misserum en í dag starfa um 30 manns hjá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK