Hagnaður Sjóvár 1.266 milljónir

Hermann Björnsson er forstjóri Sjóvár.
Hermann Björnsson er forstjóri Sjóvár. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Tryggingafélagið Sjóvá hagnaðist um 1.266 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi. Er það nærri þrefalt betri afkoma en á sama fjórðungi í fyrra.

Hagnaður af vátryggingastarfsemi nam 988 milljónum (865 milljónir 3F 2019) og hagnaður af fjárfestingastarfsemi nam 572 milljónum króna (-224 milljónir 3F 2019).

Ávöxtun eigin fjár á ársgrundvelli reyndist 29,2% og hækkar úr 11,9% frá því fyrir ári.

Samsett hlutfall var 83,2% en var 86,5% á sama fjórðungi í fyrra.

Felldu niður bifreiðaiðgjöldin í maí

Í fréttatilkynningu frá Sjóvá er haft eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra félagsins, að niðurstaða fjórðungsins endurspegli sterkan rekstur Sjóvár.

„Hagnaður var góður af bæði vátryggingastarfsemi og fjárfestingastarfsemi en afkoma af vátryggingastarfsemi stendur á bak við tvo þriðju hluta af afkomu þriðja ársfjórðungs og um helming afkomunnar ef litið er til fyrstu níu mánaða ársins. Það verður að teljast gríðarlega sterkt þegar haft er í huga að Sjóvá, eitt tryggingafélaga, felldi í heild sinni niður bifreiðaiðgjöld einstaklinga í maí á þessu ári. Nam sú niðurfelling 650 m.kr.“

Þá bendir hann á að afkoma af fjárfestingarstarfsemi félagsins hafi verið yfir væntingum á fjórðungnum.

„Ávöxtun eignasafnsins var 1,7% og jákvæð afkoma af öllum eignaflokkum og skilaði hlutabréfasafni félagsins 3,3% ávöxtun. Vegna góðrar afkomu og þess að félagið hefur ekki greitt arð á árinu hafa eignir í stýringu vaxið og námu 40,2 milljörðum króna í lok fjórðungsins.“

Stafrænar lausnir í mikilli sókn

Hermann bendir einnig á að kórónuveirufaraldurinn hafi leitt til þess að notkun á stafrænum lausnum félagsins hafi aukist stórum.

„Vinna við þróun frekari lausna miðar vel áfram og mun afrakstur þeirrar vinnu styðja enn betur við þær áherslur okkar að vera þjónustufyrirtæki í fremstu röð.“

Sé litið til afkomu fyrstu 9 mánaða ársins nemur hagnaður félagsins 2.338 milljónum króna (3.044 milljónir 9M 2019). Hagnaður af vátryggingastarfsemi er þar af 1.387 milljónir (2.105 milljónir 9M 2019) og hagnaður af fjárfestingastarfsemi var 1.486 milljónir (1.478 milljónir 9M 2019).

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK