Jack Ma lét sjá sig

Jack Ma.
Jack Ma. AFP

Kínverski auðkýfingurinn Jack Ma kom í fyrsta skipti fram opinberlega í dag eftir að hafa horfið af sjónarsviðinu í tvo mánuði. Ma kom fram í myndskeiði á netinu en vikum saman hafa verið uppi vangaveltur um hvarf hans.

Ma, sem er einn ríkasti maður Kína, hvarf af opinberum vettvangi snemma í nóvember á sama tíma og hann þurfti að standa fyrir máli sínu fyrir eftirlitsstofnunum vegna ræðu sem hann flutti í október. Í ræðunni gagnrýndi hann harðlega fjármálakerfi Kína. 

Eignir Ma eru metnar á um 58 milljarða bandaríkjadala en hann stofnaði vefverslunina Ali­baba á sínum tíma. Skömmu fyrir eldræðuna höfðu kínverskar eftirlitsstofnanir stöðvað fyrirhugað hluta­fjárút­boð Ant Group, sem m.a. rek­ur greiðslumiðlun­ina Alipay. Um var að ræða eitt stærsta hlutafjárútboð sögunnar en til stóð að safna hlutafé fyrir 37 milljarða dala. 

Myndskeiðið með Ma var sýnt þar sem kennarar á afskekktum stöðum voru hvattir til dáða og þakkað fyrir vel unninn störf. Um er að ræða athöfn sem er skipulögð af góðgerðarfyrirtæki í eigu Ma. Myndskeiðið var birt á samfélagsmiðlum og á kínverskum fréttavefjum. Ma var kennari áður en hann færði sig yfir í viðskiptalífið. 

Hlutabréf í Alibaba hækkuðu um 7% í verði í kauphöllinni í Hong Kong í kjölfarið.

Frá því hlutafjárútboð Ant var stöðvað hefur samkeppniseftirlit Kína hafið rannsókn á Alibaba og er rannsakað hvort brotin hafi verið samkeppnislög með einokun á markaði.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK