Fyrsta Evrópuflugið eftir kyrrsetningu

Boeing 737 MAX-vélarnar eru nú notaðar til að flytja fólk …
Boeing 737 MAX-vélarnar eru nú notaðar til að flytja fólk á milli áfangastaða í Evrópu á nýjan leik. AFP

Fyrsta áætlunarflugið með Boeing 737 MAX-þotu síðan kyrrsetning véla af þessari tegund var aflétt í Evrópu, fór fram í dag þegar flugvél flugfélagsins TUI tók af stað frá flugvelli í Brussel og lenti um tveimur klukkustundum síðar í Malaga á Spáni. 

Þrjár vikur eru síðan flugöryggismálastofnun Evrópusambandsins (EASA) aflétti kyrrsetningu MAX-vélanna en þær voru kyrrsettar í Evrópu og víðar eftir mannskætt flugslys í Eþíópíu í mars árið 2019. Nokkrum mánuðum áður, í október 2018, fórust 189 manns þegar MAX-flugvél Lion Air hrapaði í sjóinn við strönd Indónesíu. Alls fórust 346 í flugslysunum. Independent greinir frá.

Slysin voru rakin til galla í stýrikerfi vélanna. Hugbúnaður og skynjarar áttu að koma í veg fyrir ofris vélanna í ákveðnum aðstæðum en gallinn gerði það að verkum að sjálfstýringin greip inn í án þess að tilefni væri til og stýrði vélunum í átt að jörðu.

Stýri­kerfi MAX-vél­anna hef­ur verið end­ur­hannað og aðrar ráðstaf­an­ir gerðar. Nokkuð er liðið síðan flug­mála­yf­ir­völd í Banda­ríkj­un­um gáfu Boeing MAX græna ljósið og í ferðum að und­an­förnu hef­ur allt gengið vel og ekk­ert óvænt komið upp.

Búist er við að Icelandair taki MAX-vélar sínar aftur í rekstur á vormánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK