Áætlað markaðsvirði Íslandsbanka 150 milljarðar

Selja á rúmlega 636 milljónir hluta í Íslandsbanka í útboði á hlutafé ríkissjóðs í Íslandsbanka. Útboðshlutirnir, og valréttarhlutirnir, nema að hámarki 35% af heildarhlutafé bankans.
Leiðbeinandi verð er á bilinu 71 til 79 krónur á útboðshlut. Áætlað markaðsvirði Íslandsbanka í kjölfar útboðsins er 150 milljarðar króna. Þetta kemur fram á vef Íslandsbanka vegna fyrirhugaðs útboðs sem hefst í dag. 

  • Útboðið mun ná til allt að 636.363.630 af útgefnu og útistandandi hlutafé bankans

  • Til að mæta umframeftirspurn í útboðinu, hefur seljandi veitt söluráðgjöfum rétt til að kaupa 63.636.363 hluti, sem eru ígildi 10% af útboðshlutunum („valréttarhlutir“).

  • Útboðshlutirnir, og valréttarhlutirnir, nema að hámarki 35% af heildarhlutafé bankans.

  • Leiðbeinandi verð er á bilinu 71 til 79 krónur á útboðshlut.

  • Áætlað markaðsvirði Íslandsbanka í kjölfar útboðsins er 150 milljarðar króna, að því gefnu að verð á útboðshlut verði miðpunktur leiðbeinandi verðbils í útboðinu.

  • Útboðið fer fram annars vegar með almennu útboði á hlutabréfum til fagfjárfesta og almennra fjárfesta á Íslandi og hins vegar lokuðu útboði til tiltekinna fagfjárfesta í ýmsum öðrum lögsögum.

  • Sjóðir í stýringu hjá Capital World Investors, RWC Asset Management LLP, Gildi-lífeyrissjóði og Lífeyrissjóði verzlunarmanna, sem hornsteinsfjárfestar, hafa hver um sig skuldbundið sig til að kaupa 76.923.077, 30.769.231, 46.153.846 og 46.153.846 hluti á endanlegu útboðsgengi (og á sérhverju gengi sem er innan leiðbeinandi verðbils).

  • Útboðið stendur yfir frá kl. 9:00, mánudaginn 7. júní 2021 og er áformað að því ljúki kl. 12:00 þriðjudaginn 15. júní 2021.

  • Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur samþykkt lýsingu vegna útboðsins.

  • Stjórn bankans mun óska eftir því að allt hlutafé bankans verði tekið til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.

  • Allt söluandvirðið úr útboðinu mun renna til seljanda.

  • Sem stendur fer Ríkissjóður Íslands, beint og óbeint, með 100% af útgefnu og útistandandi hlutafé bankans og má ætla að í lok útboðsins verði hlutur seljanda í bankanum að lágmarki 65% af heildarhlutafé.

  • Seljandi skuldbindur sig til að selja ekki frekari hluti í bankanum í 180 daga eftir fyrsta viðskiptadag hlutabréfanna á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland, með fyrirvara um ákveðnar undantekningar sem eru í samræmi við viðteknar venjur á markaði.

  • Citigroup Global Markets Europe AG, Íslandsbanki hf. og J.P. Morgan AG hafa sameiginlega umsjón með útboðinu og eru leiðandi söluráðgjafar ásamt Barclays Bank Ireland PLC, HSBC Continental Europe, Fossum mörkuðum hf. og Landsbankanum hf. Arion banki hf. og Kvika banki hf. eru leiðandi söluaðilar ásamt Arctica Finance hf., Íslenskum fjárfestum hf. og Íslenskum verðbréfum hf.

„Það er ánægjulegt að sjá hlutafjárútboð Íslandsbanka hefjast eftir mikla og vandaða vinnu síðustu mánuði. Það hefur lengi staðið til að draga úr umfangsmiklu eignarhaldi ríkisins á fjármálamarkaði og koma hér á fyrirkomulagi í líkingu við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Útboðið er fyrsta skref í þá átt. Með skráningunni verður íslenskur hlutabréfamarkaður stærri og fjölbreyttari, og það er jákvætt að fjárfestingarkostum almennings og fagfjárfesta fer sífellt fjölgandi,“ er haft eftir fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssyni, á vef Íslandsbanka.

„Það er mér mikil ánægja að sjá upphaf hlutafjárútboðs Íslandsbanka verða að veruleika og mikilvægt augnablik fyrir Bankasýslu ríkisins. Við teljum að markaðsaðstæður séu ásættanlegar og útboðið til samræmis við ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra. Sölumeðferðin hefur gengið samkvæmt áætlun, sem má þakka miklu og góðu framlagi allra þeirra sem komið hafa að henni. Við erum þess fullviss að Íslandsbanki eigi sér trausta framtíð sem skráð félag á markaði,“ segir Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, á vef Íslandsbanka.

„Ég hlakka til að kynna Íslandsbanka fyrir væntanlegum fjárfestum á komandi kynningarfundum og um leið stefnu okkar um þróun á starfsemi bankans. Frá því ég tók við starfi bankastjóra árið 2008 hefur Íslandsbanki lagt grunn að sterku og farsælu viðskiptalíkani sem hefur sannað gildi sitt og stuðlað að auknu virði fyrir eigendur bankans, bæði í formi virðisaukningar og arðgreiðslna. Þetta líkan hefur staðist þær áskoranir sem komið hafa upp vegna heimsfaraldursins og bankinn er því í stakk búinn að njóta góðs af endurreisn íslenska hagkerfisins. Ég tek því fagnandi að eiga þess kost að koma bankanum á ný í eigu einkaaðila,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, enn fremur í kynningu á útboðinu á vef Íslandsbanka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK