Slökkva á götuhleðslum Orku náttúrunnar

Straumur verður rofinn af öllum hleðslum ON í Reykjavík frá …
Straumur verður rofinn af öllum hleðslum ON í Reykjavík frá og með mánudeginum 28. júní n.k. Ljósmynd/mbl.is

Orka náttúrunnar sér sig knúið til þess að taka strauminn af þeim 156 götuhleðslum sem fyrirtækið hefur sett upp víðsvegar í Reykjavík. Straumur verður því rofinn af öllum hleðslum ON í Reykjavík frá og með mánudeginum 28. júní n.k.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

ON segir, að ákvörðunin hafi verið tekin í kjöfar kvartana frá Ísorku varðandi það að hleðslurnar séu opnar öllum gjaldfrjálst. Þá segir að óvíst sé hvenær hægt verður að hleypa straumi á þær að nýju en að hraðhleðslur verði enn opnar sem og götuhleðslur í Garðabæ.

Uppfært kl. 15:59

Eftirfarandi athugasemd hefur borist frá framkvæmdastjóra Ísorku:

Ísorka hefur aldrei lagt fram kvörtun um að þær séu opnar. Úrskurður Kærunefndar tekur á þessu og er það ekki á höndum okkar eða ON enda málinu beint gegn útboði RVK. RVK og ON eru einfaldlega að fylgja úrskurði Kærunefndarinnar. Ísorka hefur ekkert með það að gera að stöðvunum hafi verið lokað.

 Reykjavíkurborg bauð út uppsetningu og rekstur götuhleðsla og tók tilboði frá ON sem bauð lægst í verkefnið. Úrskurðarnefnd útboðsmála komst síðan að þeirri niðurstöðu eftir kæru Ísorku að Reykjavíkurborg hefði átt að bjóða verkið út á evrópska efnahagssvæðinu. Ekki var tekið undir önnur sjónarmið Ísorku sem þó voru fjölmörg.

Ein af rafhleðslustöðvum ON í Reykjavík.
Ein af rafhleðslustöðvum ON í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Ekki heimilt að rukka fyrir afnot

Samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar er ON hvorki heimilt að taka gjald fyrir afnot af götuhleðslunum né að sérmerkja bílastæðin sem þær standa við. Í stað þess að slökkva á hleðslunum og þannig gera rafbílaeigendum sem treysta á umræddar hleðslur erfitt fyrir ákvað ON að hætta að rukka og taka niður merkingar við stæðin.

Hleðslur yrðu þá aðgengilegar öllum á meðan næstu skref væru metin. Þannig hlítti ON niðurstöðunni en styddi áfram það mikilvæga verkefni sem orkuskiptin í samgöngum er.

Ísorka hefur nú aftur sent kvörtun til kærunefndarinnar, nú vegna þess hvernig ON hefur brugðist við þeirri niðurstöðu hennar að Reykjavíkurborg hefði átt að bjóða út á evrópska efnahagssvæðinu.

Í bréfi sem barst ON frá Reykjavíkurborg í morgun segir að vegna athugasemda Ísorku telji borgin nauðsynlegt að óska eftir því að ON rjúfi straum til umræddra hleðslustöðva. Þá segir einnig að Reykjavíkurborg hafi farið þess á leit við kærunefnd útboðsmála að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON.
Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON. Ljósmynd/Aðsend

Segir stöðuna ömurlega fyrir rafbílaeigendur

Í fréttatilkynningunni kemur ON fram að fyrirtækið hafi ekki markaðsráðandi stöðu og telur sig því ekki skylt að rukka fyrir götuhleðslurnar. Þá bendir fyrirtækið einnig á að bæði Ísorka og Orkusalan séu með hleðslustaura víða um borgina þar sem rafmagn er gefið.

„Þetta er auðvitað ömurleg staða bæði fyrir okkur sem byggt höfum upp þessar götuhleðslur og efnt allar okkar skuldbindingar en ekki síður fyrir rafbílaeigendur,“ er haft eftir Berglindi Rán Ólafsdóttur, framkvæmdastýru ON, í fréttatilkynningu.

„Þetta er fyrst og fremst að koma niður á þeim fjölmörgu rafbílaeigendum sem geta ekki haft eigin bílastæði við heimili sín til að setja upp heimahleðslur eða hafa einfaldlega ekki efni á því. Það er einlæg ósk mín að aðilar deilu Reykjavíkurborgar og Ísorku komi málum svo skjótt sem unnt er í farveg sem tryggir að deilan tefji ekki það mikilvæga verkefni sem orkuskiptin í samgöngum er.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK