Brunnur II fjárfest í fjórum sprotafyrirtækjum

Fjárfestingastjórar Brunns Ventures. Frá vinstri: Kjartan Örn Ólafsson, Árni Blöndal, …
Fjárfestingastjórar Brunns Ventures. Frá vinstri: Kjartan Örn Ólafsson, Árni Blöndal, Sigurður Arnljótsson og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Vísisjóðurinn Brunnur II fjárfesti nýverið í Standby Deposits, stofnað af Agli Almari Ágústssyni sem hefur búið og starfað í Bandaríkjunum. Þar með hefur sjóðurinn frá því í mars fjárfest í fjórum sprotafyrirtækjum, þar af tveimur á hugmyndastigi og tveimur á klakstigi.

Fram kemur í tilkynningu að Egill hafi komið auga á tækifæri á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum. Fyrirtækið þróar nú fjártækniafurð fyrir Bandaríkjamarkað sem nýtir bankaábyrgðir til að koma í staðinn fyrir öryggistryggingar (e. Security deposit) við leigu á húsnæði. Lausnin er þróuð í samstarfi við fasteignafélag á Miami, Flórída.

Brunnur hefur áður fjárfest í tónlistarforritinu Overtune sem er hannað fyrir snjallsíma og gerir notendum kleift að skapa tónlist án þess að hafa tónlistarlegan bakgrunn og einfaldar ferlið við að dreifa tónlistinni á öðrum samfélagsmiðlum eins og TikTok og Instagram Reels. Fjármögnunin kom einnig frá stofnanda tölvuleikjarins vinsæla Guitar Hero.

Myndin sýnir tröppugang í vegferð fjármögnunar sprotafyrirtækja.
Myndin sýnir tröppugang í vegferð fjármögnunar sprotafyrirtækja. Ljósmynd/Aðsend

Einnig hefur Brunnur fjárfest í Kosmi, sem er vettvangur á netinu þar sem vinir geta hist og upplifað ýmiss konar afþreyingu sameiginlega á einfaldan hátt.

Sömuleiðis hefur Brunnur fjárfest í The One Company sem þróar og rekur stefnumótasmáforritið Smitten Dating.  Fram kemur að Smitten hafi slegið í gegn á Íslandi undanfarið ár en fyrir nokkru hóf Smitten markaðssókn á sinn fyrsta erlenda markað, í Danmörku.

Fjárfesta snemma

„Brunnur hefur þá stefnu að leiða fjárfestingar á klak- og vísistigi (e. Seed Stage, Early Stage) og hefur náð góðum árangri í að fá til liðs fjárfesta á seinni stigum. Aðkoma erlendra sérhæfðra sjóða á viðkomandi sérsviði skiptir máli upp á að fá tengingar, þekkingu og fjármagn fyrir félagið. Þegar lagt var upp með Brunn vaxtarsjóð árið 2015 höfðum við metnað fyrir því að fjárfesta snemma í fyrirtækjum og laða svo sérhæfða erlenda vísisjóði að fyrirtækjunum í eignasafninu á seinni stigum. Þessar áætlanir hafa gengið eftir hjá fjölda fyrirtækja í eignasafninu okkar, t.d. fengu Avo, Grid, DTE, Oculis og EpiEndo erlent fjármagn á árunum 2020-21,“ segir Árni Blöndal, fjárfestingastjóri og annar stofnenda Brunns Ventures, í tilkynningunni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK