Tífalda afköst til föngunar og förgunar

Tölvuteiknuð mynd sem sýnir hvernig verið muni líta út.
Tölvuteiknuð mynd sem sýnir hvernig verið muni líta út. Ljósmynd/Climeworks

Nýtt lofthreinsiver Climeworks á Hellisheiði, í samstarfi við Carbfix og Orku náttúrunnar, mun tífalda núverandi afköst föngunar og förgunar á koldíoxíði (CO2) úr andrúmslofti á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá CarbFix. 

Á svæðinu er fyrir Orca, lofthreinsiver Climeworks, sem tók til starfa síðastliðið haust og var hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum.

„Með nýja lofthreinsiverinu, sem kallast Mammoth, fara afköst föngunar á Hellisheiði úr fjórum þúsundum tonna af CO2 á ári í alls 40 þúsund tonn en því er síðan fargað neðanjarðar með Carbfix tækninni, þar sem það hvarfast við berggrunninn og myndar steindir. Framkvæmdir við Mammoth eru hafnar og gert er ráð fyrir að nýja stöðin taki til starfa eftir 18-24 mánuði,“ segir í tilkynningunni. 

Lofthreinsiverið verður staðsett í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði.
Lofthreinsiverið verður staðsett í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði. Ljósmynd/Climeworks

Mikilvægt skref, að sögn Eddu

Þar er haft eftir Eddu Sif Pind Aradóttur, framkvæmdastýru Carbfix: 

„Þetta verkefni er mikilvægt skref í þróun og skölun tækni sem fangar CO2 beint úr andrúmslofti og það nýtur góðs af tíu ára reynslu Carbfix af því að steinrenna CO2 á öruggan hátt,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, en aðferð fyrirtækisins felst í að leysa CO2 í vatni og dæla því niður í berggrunninn þar sem það steinrennur með náttúrulegum ferlum á innan við tveimur árum.“

Mammoth er  átjánda verkefni Climeworks en það verður annað lofthreinsiver fyrirtækisins sem starfrækt er í beinum tengslum við förgun koldíoxíðs á staðnum. Í umræddri tilkynningu segir að tækninni megi beita þar sem saman fara endurnýjanleg orka og möguleikar á förgun CO2. Vinnur Climeworks nú að tilraunaverkefnum á nokkrum stöðum í heiminum.

Orka náttúrunnar útvegar lofthreinsiverinu rafmagn, skiljuvatn og kalt vatn, en það verður staðsett í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði, eins og Orca sem þar er fyrir.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK