Vilja að borgarráð fjalli um starfsemi Ljósleiðarans

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. mbl.is/Árni

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR), þeir Kjartan Magnússon og Eyþór Arnalds, lögðu til á stjórnarfundi OR í gær að ákvörðun um afléttingu fyrirvara á lánasamningi OR, sem snúa að fjármögnun Ljósleiðarans, verði vísað til borgarráðs. Stjórnar­fundi OR var frestað í gær og verður haldið áfram í dag.

Eins og ViðskiptaMogginn hefur fjallað um þarf að létta fyrirvörum á lánasamningi OR við Evrópska fjárfestingabankann til að rýmka fyrir frekari skuldsetningu Ljósleiðarans – sem á morgun, fimmtudag, mun kaupa grunnnet Sýnar fyrir um þrjá milljarða króna. Ekki fæst uppgefið hvernig þau kaup verða fjármögnuð en heimildir ViðskiptaMoggans herma að um sé að ræða dýrt skammtímalán.

Kjartan segir í samtali við ViðskiptaMoggann að ekki liggi fyrir hvernig langtímafjármögnun Ljósleiðarans verði háttað og enn sé með öllu óljóst hvort heimilt verði að auka hlutafé félagsins. Því hafi hann talið rétt að borgarráð fjallaði um málið, enda væri ljóst að Reykjavíkurborg bæri að lokum ábyrgð á skuldum OR og félaga innan samstæðunnar.

„Sú ákvörðun Ljósleiðarans að útvíkka starfsemi félagsins út um allt land, í stað þess að starfa á suðvesturhorni landsins í samræmi við eigendastefnu Orkuveitunnar, vekur líka upp margar spurningar. Það er rétt að borgarráð fjalli um það með málefnalegum hætti,“ segir Kjartan.

Kjartan Magnússon.
Kjartan Magnússon. mbl.is/Ágúst Óliver Erlingsson

ViðskiptaMogginn hefur greint frá því að sérstakur rýni­hópur borgarráðs hafi verið skipaður til að fjalla um fyrirhugaða hlutafjáraukningu Ljósleiðarans, en stefnt er að því að hlutafjáraukningin fari fram með þátttöku utanaðkomandi aðila. Rýnihópurinn hefur ekki lokið störfum og því liggur ekki fyrir hvort, hvenær eða hvernig hlutafjáraukningin fer fram.

ViðskiptaMogginn ítrekaði í gær spurningar til Brynhildar Davíðs­dóttur, prófessors við Háskóla Íslands og stjórnarformanns OR, sem aftur neitaði að tjá sig um málið.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK