Verðmeta Amaroq rúmlega helmingi hærra en markaðurinn

Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals
Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals

Íslenska auðlindafyrirtækið Amaroq Minerals á mikið inni samkvæmt nýju verðmati frá breska fjárfestingabankanum Panmure Gorden.

Fjárfestingabankinn verðmetur félagið í heild á tæplega 239 milljónir dollara, en þar af er Nalunaq náman verðmetin á 110 milljónir dollara. Bréf félagsins eru því verðmetin á 0,91 dollara á hlut, eða 128,95 krónur íslenskar. Bréf félagsins sem skráð eru á First North markað kauphallarinnar voru við lok markaða í gær 80 kr. Verðmatið gefur því til kynna að bréf félagsins séu undirverðlögð um ríflega þriðjung.

Nokkrir óvissuþættir

Panmure bendir á nokkra óvissuþætti sem bæði eru til þess fallnir að hafa neikvæð og jákvæð áhrif á framgang félags. Hve vankannað rannsóknarsvæðið er, er metið félaginu til happs. En þættir á borð andstöðu við námagröft í Grænlandi og hve háð félagið er sveiflum í heimsmarkaðsverði á gulli teljast til neikvæðra óvissuþátta.

Amaroq Minerals var stofnað árið 2017 með það að meginmarkmiði að finna gull og aðra verðmæta málma á Suður-Grænlandi. Fyrirtækið er með leitar- og vinnsluleyfi á tæplega 8.000 ferkílómetra svæði, sem nær yfir tvö þekkt gullbelti á svæðinu. Panmure bendir á að tækifærin leynist ekki aðeins í því að grafa upp gullið heldur geti hlutfallsleg sala námuréttinda einnig reynst arðbær.

Nýskráð á markað

Amaroq Minerals var skráð á First North markað kauphallarinnar þann 1. nóvember síðastliðinn og var gengi fyrsta dags viðskipta 63,5 krónur á hlut. Bréf félagsins ruku svo upp um miðjan nóvember eftir tilkynningu um stóra málmæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK