Heiðar Guðjóns: Ekki til neitt sem heitir óspillt náttúra

Heiðar Guðjónsson.
Heiðar Guðjónsson. mbl.is/RAX

„Það er ekki til neitt sem heitir óspillt náttúra. Við erum hluti af náttúrunni og náttúran er hluti af okkur.“

Þetta segir Heiðar Guðjónsson fjárfestir í nýjum þætti af hlaðvarpi Þjóðmála. Í þættinum er meðal annars rætt um sjálfbærni og það hvernig stjórnmálamenn, sem ítrekað fjalla um sjálfbærni, hafa lítinn áhuga á því að reka ríkissjóð með sjálfbærum hætti, enda safni Ísland líkt og mörg önnur ríki, nú skuldum sem koma til með að bitna á framtíðarkynslóðum.

Í þættinum er vikið stuttlega að nýrri skýrslu bresku samtakanna Oxfam þar sem fram kemur að fækka þurfi milljarðamæringum í heiminum. Heiðar segir Oxfam þó einnig vilja fækka fólki almennt, þannig að erfitt sé að kalla samtökin mannúðarsamtök.

Meiri háttar öryggisbrestur

Þá segir hann sömu viðhorf ríkja hjá Landvernd og rifjar upp í því samhengi rafmagnsleysið sem varð á Suðurnesjum í síðustu viku. Andstaðan við svonefnda Suðurnesjalínu 2, sem myndi styrkja dreifikerfi rafmagns á Suðurnesjum, hefur að mestu komið frá Landvernd.

„Þarna verður meiri háttar öryggisbrestur hjá 30.000 manns, fyrirtækjum, stofnunum og alþjóðaflugvelli sem eru á Suðurnesjum. Landvernd heitir Landvernd en ekki mannvernd,“ segir Heiðar og bætir við að ástæða sé fyrir því.

„Þessir aðilar, í einhverri ofsafenginni villutrú, eru tilbúnir að fórna fólki til þess að verja eitthvað sem ég átta mig ekki á hvað er. Óspillt náttúra? Það er ekki til neitt sem heitir óspillt náttúra. Við erum hluti af náttúrunni og náttúran er hluti af okkur. Allt sem við erum að gera hérna er mjög náttúrulegt. Við lifum bara með náttúrunni og reynum að lifa í eins mikilli sátt og við getum.“

Ísland verði aðhlátursefni

Síðar í þættinum er fjallað um fyrirhugað bann við olíu- og gasleit hér á landi, en Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku – og loftslagsráðherra, hefur kynnt frumvarp þess efnis. Rétt er að taka fram að engin virk olíuleit hefur átt sér stað í lögsögu Íslands frá því að leyfi Eykon Energy til olíuleitar á Drekasvæðinu var afturkallað af Orkustofnun í mars 2018. Heiðar var sem kunnugt er stjórnarformaður Eykons, og þekkir málið því vel, en félagið hefur nú hætt starfsemi.

Þegar rætt er um þetta í hlaðvarpsþættinum bendir Heiðar á að yfirvofandi orkukreppa í Evrópu sé að mestu heimatilbúin. Þannig hafi olíu- og gasvinnslu hafi verið hætt á hagkvæmum stöðum og þess í stað hafi ríki í Evrópu snúið sér að vind- og sólarorkuframleiðslu. Þó sé ljóst að vindurinn blási ekki alltaf og sólin skíni ekki alltaf og því hafi ríkin byrjað að flytja inn gas frá Rússlandi. Að sögn Heiðar hefur legið fyrir, allt frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014, að um væri að ræða ósjálfbær orkuskipti.

Miklu hreinni orkugjafi

„Nú er verið að opna á ný kolanámur í Bretlandi og Þýskalandi og kveikja aftur á kolaorkuverum, sem menga tvöfalt á við gasorkuver,“ segir Heiðar.

„Þá dettur einhverjum í hug, þó það sé fyrirsjáanleg orkukrísa, að banna alla olíu- og gasleit við Ísland.“

Heiðar segir að það sé ljóst að það þjóni hvorki hagsmunum Íslands né norðurslóða að setja slíkt bann á. Hann rifjar upp að rannsóknir á Drekasvæðinu hafi bent til þess að þar væri hægt að framleiða um 10 milljarða tunna af olíu.

„Ef við sláum tölu á verðmæti þess þá eru það um 5-600 milljarðar bandaríkjadala eftir framleiðslukostnað. Ríkið fengi alltaf rúmlega helming í skattgreiðslur, þannig að það væru um 250-300 milljarðar dala fyrir íslenska ríkið,“ segir Heiðar.

„Þarna værum við líka að framleiða miklu hreinni orkugjafa en menn eru farnir að grípa til í Evrópu í dag. Þá væri einnig verið að minnka völd Rússlands í Evrópu því þarna væri kominn aukinn aðgangur að þeirri hrávöru sem Evrópu vantar mest frá Rússlandi.“

Þá bendir Heiðar á að 250-300 milljarðar bandaríkjadala, sem yrðu hreinar skatttekjur ríkisins, samsvaraði íslenskri þjóðarframleiðslu í 10-15 ár. 

„Því spyr maður, hverjum finnst það góð hugmynd að banna olíu- og gasleit við Ísland?“ segir Heiðar. 

„Einhverjir eru svo vitlausir að segja að við verðum fyrirmynd með því að banna þetta. ég segi á móti að við verðum algjört aðhlátursefni alþjóðlega. Þetta er svo vitlaust að þetta fer í sögubækurnar.“

Í þættinum, sem er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum, er jafnframt rætt um hvaða áhrif – og afleiðingar – það hefur þegar ríkisvaldið verður of stórt og ósjálfbært, hvort Ísland stefni í þá átt, hvernig hagkerfi heimsins koma til með að breytast á næstu áratugum í samanburði við liðin ár, fortíðarþrá vinstri manna og hringrásarhagkerfi vondra hugmynda. Þá ræðir hann einnig um það hvað gerist þegar stjórnmál og viðskipti rugla reytum og fyrirtæki huga meira að pólitískum rétttrúnaði frekar en því að skapa verðmæti.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK