Hlutabréf í Deutsche Bank hríðfalla

Christian Sewing, forstjóri Deutsche Bank.
Christian Sewing, forstjóri Deutsche Bank. AFP/Michael Probst

Hlutabréf í Deutsche Bank hríðféllu í dag, föstudag, vegna hækkandi kostnaðar sem bankinn hefur tekið á sig vegna vanskilatrygginga. Fall hlutabréfa í bankanum vekur spurningar og endurvekur ótta manna um vaxandi vanda í bankakerfinu.

Gengi bréfa í þessum stærsta lánveitanda Þýskalands lækkuðu um rösklega 14 prósentustig í kauphöllinni í Frankfurt en höfðu rétt nokkuð úr kútnum eftir hádegið, þó þannig að gengið var við lokun markaða tæpum 10 prósentum lægra en í gær.

Áhyggjur fjárfesta

Kostnaður við að tryggja skuldir bankans gegn hættu á vanskilum hefur aukist vegna áhyggja fjárfesta af bankageiranum.

Fall þriggja bandarískra banka og þvinguð yfirtaka UBS í Sviss á Credit Suisse hefur valdið talsverðum óróa á markaði.

Gengi bréfa í Commerzbank, helsta keppinauti Deutsche Bank, hafði lækkað um 8,5 prósentustig í morgun áður en þau réttu úr kútnum þó þannig að gengið var rúmum 5 prósentustigum lægra en í gær.

Gengi bréfa í fleiri bönkum víðs vegar um Evrópu tók dýfu í dag þó þýsku bankarnir hafi lækkað sínu mest. Þar má nefna Societe Generale og BNP Paribas í París og nokkra banka í London.

Fall hlutabréfa í lánastofnunum dró markaði niður um alla Evrópu í dag en ástæðuna má rekja til þess að seðlabankar hafa víða hækkað stýrivexti þrátt fyrir að vandræði í bankageiranum hafi tengst fyrri vaxtahækkunum.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands. AFP/Ludovic Marin

„Áhyggjur eru óþarfar“

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, gerði tilraun til að róa fólk í ræðu eftir leiðtogafund leiðtoga ESB í Brussel.

„Bankinn hefur farið í gegnum nútímavæðingu og endurskipulagningu. Bankinn er mjög arðbær og allar áhyggjur eru óþarfar,“ sagði Scholz.

Þá sagði hann að evrópska bankakerfið væri stöðugt og með ströngum reglum og reglugerðum.

Bankinn lenti í ýmsum vandamálum sem tengdust tilraunum hans, fyrir alþjóðlegu bankakreppuna árið 2008, til að keppa við fjárfestingarbankarisana á Wall Street.

Síðan hefur bankinn farið í gegnum endurskipulagningu sem fól í sér fækkun starfa um þúsundir. Lögð hefur verið meiri áherslu á Evrópu og nýlega tilkynnti bankinn um  mesta hagnaðinn af rekstri síðan árið 2007.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK