Hagnaður Landsbankans meira en tvöfaldast

Samspil ljóss og skugga í nýja Landsbankahúsinu.
Samspil ljóss og skugga í nýja Landsbankahúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsbankinn hagnaðist um 7,8 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins, en það er um 140% aukning frá sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn var 3,2 milljarðar.

Rekstrartekjur bankans jukust um 44% milli ára og voru 17,3 milljarðar á tímabilinu samanborið við 12 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2022. Rekstrargjöld jukust einnig og námu 7 milljörðum samanborið við 6,7 milljarða í fyrra. Þar af jukust laun og launatengd gjöld um 360 milljónir, eða um 9,7% frá fyrra ári.

Nam því hagnaður bankans fyrir skatta 10,3 milljörðum samanborið við 5,3 milljarða á sama tímabili í fyrra.

Hreinar vaxtatekjur aukast um 3 milljarða

Vaxtatekjur bankans aukast verulega, eða úr 21,1 milljarði í 34,6 milljarða. Nemur það 64% aukningu, en á móti jukust vaxtagjöld bankans um tæplega 11 milljarða, eða um 98%. Voru hreinar vaxtatekjur bankans 13,1 milljarður samanborið við 10,3 milljarða á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins kemur fram að arðsemi eiginfjár bankans á ársfjórðungnum hafi verið 11,1%. Þar segir jafnframt að vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna hafi numið 2,8% á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við 2,4% hlutfall á sama tíma í fyrra, en vaxtamunur allt síðasta ár var 2,7%.

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlán aukist um 160 milljarða

„Sterkt uppgjör Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi er til marks um öflugan rekstur og góðan árangur á öllum sviðum. Útlán bankans hafa aukist um 160 milljarða króna á síðustu 12 mánuðum sem skilar meiri vaxtatekjum. Samsetning efnahags bankans er hagkvæmari en áður og vaxtastig hefur hækkað, sem skilar meðal annars betri ávöxtun af lausafé bankans. Fjölgun viðskiptavina, nýir þjónustuþættir og aukin verkefni, til að mynda hjá Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans, skila auknum þjónustutekjum og færsluhirðing bankans, sem var kynnt á fyrsta fjórðungi, hefur fengið afar góðar viðtökur,“ er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans í tilkynningunni.

Beinir hún næst orðum sínum að verðbólgunni og vaxtastiginu. „Aukin verðbólga og hátt vaxtastig halda áfram að vera áskorun þótt vanskil séu samt sem áður enn mjög lítil. Útlánavöxtur er enn nokkuð kröftugur og skiptir þar mestu að útflutningsgreinarnar standa vel en einnig skapar ör fólksfjölgun eftirspurn eftir húsnæði. Bankinn fjármagnar nú um 4.500 íbúðir á mismunandi byggingarstigum en fasteignalán hafa ekki aukist að sama skapi þar sem kaupendur sækja frekar í verðtryggð lán utan bankakerfisins.“

Landsbankinn stendur um þessar mundir í flutningum úr Kvosinni yfir í nýtt hús við Reykjastræti 6. Segir Lilja að þeim muni ljúka síðar í mánuðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK