Allt of snemmt að fagna sigri

Konráð S. Guðjóns­son, hag­fræðing­ur Ari­on banka, á von á því …
Konráð S. Guðjóns­son, hag­fræðing­ur Ari­on banka, á von á því að Seðlabankinn hækki stýrivexti í næsta mánuði, þrátt fyrir lækkun verðbólgu niður í 7,6%. Samsett mynd

Konráð S. Guðjóns­son, hag­fræðing­ur Ari­on banka, segir lækkun verðbólgu niður í 7,6% vera góðar fréttir. Hins vegar sé enn of snemmt að fagna sigri og á hann enn von á því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki stýrivexti að nýju í næsta mánuði.

„Þetta eru jákvæð tíðindi. Það hefur ekki oft verið raunin síðastliðin tvö ár að verðbólgan er minni en var spáð. Það má rekja að mestu leyti til húsnæðishliðar en aðrir liðir hjálpa líka til,“ segir Konráð í samtali við mbl.is.

„Enn virðist vera töluverður undirliggjandi verðbólguþrýstingur en hann er aðeins minni og það er jákvætt, en ég held að það sé allt of snemmt að fagna strax.“

Hann segist ekki búast við því að Arion banki bregðist við lækkuninni að neinu leyti. Það sé enn of snemmt að segja til um hvaða áhrif þetta muni hafa á lántöku, enda stýrivaxtahækkanir sem stýra vöxtum á lánum en ekki verðbólgan sjálf.

„Sagnfræði yfir seinustu tólf mánuði“

„Verðbólgan sem við erum að horfa á er í raun sagnfræði yfir seinustu tólf mánuði. Við erum með stóra verðbólgumánuði sem munu fylgja okkur fram á næsta vor,“ segir Konráð. „Við sjáum fram á næstu mánuði að frekar litlir mælingamánuðir eru að detta úr árstaktinum næstu tvö til þrjú skipti.“

Þeir mánuðir sem koma til með að detta úr vísitölumælingunum næst eru ágúst og september 2022, þar sem mánaðarbreyting vístitölu neysluverðs var í þeim fyrri 0,29% og 0,09% í þeim seinni.

„Þar að auki eru alltaf að koma inn hækkanir sem eru ekkert endilega í samræmi við 2,5% verðbólgumarkmið. Þó að þetta sé að fara í rétta átt þurfum við skýrari merki í tölunum um að verðbólga stefni einhvers staðar nálægt verðbólgumarkmiði.“

Von á að stýrivextir hækki

Pen­inga­stefnu­nefnd tek­ur næstu vaxta­ákvörðun 23. ág­úst. Konráð segir að rök séu fyrir því að hækka stýrivexti eitthvað meira. Enn sé mikill gangur í hagkerfinu.

„Þó að vísbendingar bendi til að það sé að hægja á einkaneyslu er mikil þensla og verðbólgan er enn þá mjög há. Það er enn langt í land og það eru rök fyrir því að hækka vexti eitthvað meira.“

Segist hann búast við því að peningastefnunefnd ákveði að hækka stýrivexti að minnsta kosti einu sinni enn, þó svo að það væri ekki nema smávægileg hækkun. Seðlabankinn hafi einnig gefið skýr skilaboð um að hann myndi hækka vexti á ný.

„En ef þetta eru tölurnar sem við munum sjá, ekki síst ef verðbólgan lækkar meira, þá erum við að tala um litla, ef einhverja, hækkun í viðbót,“ segir Konráð.

„Síðustu skilaboð sem við fengum frá peningastefnunefnd í maí voru einfaldlega mjög skýr um það að þau myndu í raun og veru hækka stýrivexti aftur í ágúst. Þessar tölur eru tiltölulega í samræmi við nýjustu spá seðlabankans. Þannig að ég á von á því að vextir hækki aftur í ágúst.“

Annað hljóð úr Landsbankanum

Greint var frá því í gær að Hag­fræðing­ar Lands­bank­ans telji vaxta­hækk­an­ir pen­inga­stefnu­nefnd­ar Seðlabanka Íslands farn­ar að hafa skýr áhrif. Þess vegna væri hugs­an­legt að minni þörf sé á frek­ari vaxta­hækk­un­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK