c

Pistlar:

6. apríl 2024 kl. 17:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Latir Íslendingar

Stundum geta stuttar fréttir sagt mikla sögu, jafnvel um breytingar á samfélaginu sem ekki blasa við og þarf þá ekki endilega að byggja á einhverskonar vísindalegri aðferðafræði. Í Morgunblaðinu í gær mátti lesa frétt um að Íslendingar séu hættir að nenna að vinna erfiða líkamlega vinnu. Þetta er haft eftir fulltrúa dekkjaverkstæðis og ályktun sína byggir hann á því að fyrir skömmu hafi fyrirtækið auglýst laus störf í aðdraganda þeirrar vertíðar sem er framundan þegar vetrardekkin víkja. Alls hafi 60 umsóknir borist og þar af um helmingur frá Íslendingum.dekkja

„Hér um bil helmingurinn sem sótti um var Íslendingar. Svo þegar þeir koma á staðinn eru þeir ekki tilbúnir að vinna vinnuna. Málið er bara að Íslendingar eru almennt orðnir latir til vinnu. Ég ætla bara að segja það hreint út. Þetta er erfiðisvinna og þeir eru yfirleitt ekki tilbúnir að gera neitt sem er erfitt. Pólverjarnir og flestir aðrir eru yfirleitt komnir til að vinna og eru tilbúnir að gera hvað sem er,“ sagði maðurinn á dekkjaverkstæðinu sem vildi ekki koma fram undir nafni. Pistlaskrifari getur staðfest að fyrir nokkrum árum fór hann að taka eftir því að enginn Íslendingur starfar við dekkjaskiptin sem fela í sér talsvert líkamlegt erfiði. Þeir stjórna þó enn verkstæðunum.

Vinnugleði landans horfin

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að blaðið hafði fengið ábendingu um málið og að góðar tekjur væru á vertíðinni. „Það er fullt af fólki sem sækir um sem á ekkert erindi í þessa vinnu. Við fáum jafnvel umsóknir frá erlendum ríkisborgurum sem búa jafnvel erlendis og eru ekki komnir með íslenska kennitölu. Þeir sækja um allt,“ sagði maðurinn á verkstæðinu við blaðamann Morgunblaðsins og bætir við: „Þegar Íslendingarnir eru búnir að prófa vinnuna þá fara þeir jafnvel í burtu. Gefast upp. Hverfa. Íslendingar eru ekki jafn vinnuglaðir og þeir voru. Það er á tæru. Það sem skiptir þá mestu máli í dag er hvað þeir fá mikil fríðindi og svoleiðis en ekki hvort þeir þurfa að vinna.“

Blaðamaður Morgunblaðsins hélt áfram rannsókn sinni og ræddi við verktaka sem hafði sömu sögu að segja. Hann væri með um 150 manns í vinnu við líkamleg störf en í þeim hópi væri ekki einn einasti Íslendingur! Verktakinn skóf ekki utan af því: „Ég þoli ekki þetta aumingjauppeldi sem er í dag. Menn láta sig hverfa í veikindaleyfi og kalla það kulnun. Það er því orðið erfitt að fá fólk í vinnu. Ég er með marga útlendinga því að það er ekkert væl þar,“ sagði verktakinn.byggingar

Vinnuharka fyrri kynslóða

Auðvitað er þetta ekki vísindaleg rannsókn en þetta gæti komið sem áfall fyrir þjóð sem trúir á eigin vinnusemi en með Vökulögunum á sínum tíma var mönnum tryggð 4 tíma hvíld á sólarhring! Það er ekki langt síðan pistlaskrifari las ævisögu Theódórs Friðrikssonar, Í verum, þar sem lýst er gríðarlegri vinnuhörku. Auðvitað var það ekki til eftirbreytni en undan því var ekki komist í fátækt þeirra tíma. Lengst af síðustu öld gengu ungir sem aldnir til starfa sumar sem vetur. Skólafólk fór nánast beint í vinnu og þegar komið var í menntaskóla og háskóla voru flestir að vinna fyrir náminu. Þannig var það og auðvitað til bóta að námslán komu til sögunar og gerðu efnaminna fólki kleyft að stunda nám. Þegar ævisögur fólks frá síðustu öld eru lesnar sést að fólk varð að leggja gríðarlega mikið á sig til að koma undir sig fótunum.

Þar má nefna ævisögu Óskars Jóhannssonar kaupmanns sem kom úr sárri fátækt að vestan eins og var rakið í bernskuminningabók hans (Bernskudagar, sem kom út 2013) og náði með ótrúlegum dugnaði og elju að koma undir sig fótunum eins og fjallað var um hér á sínum tíma. Gunnar Birgisson, verkfræðingur, alþingismaður og bæjarstjóri, bjó einnig við kröpp kjör öfugt við til dæmis Jóhönnu Sigurðardóttur og Jón Baldvin Hannibalsson sem komu af efnuðum heimilum. Gunnar ólst upp við lítil efni og var hálfgerður einstæðingur; átti fjölda hálfsystkina og uppeldissystkina en var meira og minna á eigin vegum frá unglingsaldri. Auðmaðurinn Birkir Baldvinsson ólst upp við mikla fátækt og Jón Gunnarsson stórforstjóri ólst upp við kröpp kjör, meðal bændafólks í Húnavatnssýslu. Ævisaga flugrekstrarmannsins Jóhannesar Einarssonar sýnir að ekki var mulið undir hann frekar en flesta hans samtímamenn. Já, Guðjón Helgi Helgason (faðir HKL) var hin mesti atorkumaður, maður sem gerir allt úr engu og kom þó úr engu. Hann fær vinnu við vegagerð en nýtir um leið öll tækifæri sem gefast til að mennta sig þó honum sé ófært að ganga hina viðurkenndu menntabraut sem á þeim tíma bjó fyrst og fremst til embættismenn landsins. Allir þessir menn sýndu félagslegan hreyfanleika í verki og mikilli vinnu sem skilaði sér til að bæta líf afkomenda þeirra.

Stytting vinnuviku hverra?

En augljóslega hafa orðið miklar breytingar síðustu áratugi og hægt er að nefna margt sem mótar vinnumarkaðinn í dag. Nú er stytting vinnuvikunnar komin til framkvæmda og óskir um að stytta hana enn frekar, jafnvel niður í fjóra daga í viku. Stundum virðist sem styttingin nýtist fyrst og fremst opinberum starfsmönnum, enn heyrir maður af mikilli vinnu fólks í einkafyrirtækjum.

Með miklum innflutningi erlendra starfsmanna hafa þeir tekið yfir talsvert af erfiðari og óþrifalegri störfum. Það er staðreynd sem allir hafa orðið varir við. Þegar Íslendingar vakna um helgar og labba út í bakarí heyrast hamarshögg úr nærliggjandi byggingu. Það eru ekki Íslendingar sem eru að vinna um helgar og á kvöldin, mestar líkur eru á að það séu pólskir verka- og iðnaðarmenn. Íslendingar eru búnir að koma verstu störfunum af sér, margir eru inni í hlýjunni og sitja við samfélagsmiðlana og kvarta.