Sjávarútvegur gæti gert enn betur

Birna hefur meðal annars áhyggjur af notkun vetnisflúorskolefnis í kælikerfum ...
Birna hefur meðal annars áhyggjur af notkun vetnisflúorskolefnis í kælikerfum skipa og í fiskeldi. Aðrar lausnir eru í boði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Undanfarna tvo áratugi hefur gengið vel að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi. Að sögn Birnu Sigrúnar Hallsdóttur þarf samt að gera enn betur og ætti greinin að láta sig málið miklu varða.

Birna er umhverfisverkfræðingur hjá ráðgjafarfyrirtækinu Environice og hélt hún erindi um kolefnisspor sjávarútvegsins á ársfundi SFS fyrr í mánuðinum. Hún bendir á að þegar einstakar atvinnugreinar eru skoðaðar skeri sjávarútvegurinn sig úr fyrir það að hafa dregið talsvert úr losun. „Fyrr í mánuðinum voru birtar nýjar tölur sem sýna að heildarlosun Íslands hefur aukist um 32% frá árinu 1990, á sama tíma hafa sjávarútvegsfyrirtæki minnkað losun gróðurhúsalofttegunda um 21%.“

Útreikningar á losun sjávarútvegsins gefa mismunandi niðurstöður eftir því hvaða þættir eru teknir með í reikninginn. Þannig segir Birna að oft sé talað um að heildarlosun íslensks sjávarútvegs hafi minnkað um u.þ.b. 40% undanfarna þrjá áratugi. „Þá er verið að undanskilja þætti á borð við notkun kælimiðla á sjó og í landi, en í dag eru vetnisflúorkolefni notuð í talsverðum mæli í kælikerfum skipa og fiskeldisfyrirtækja skv. tölum frá Umhverfisstofnun. Vetnisflúorkolefni eru mjög virkar gróðurhúsalofttegundir og hlýnunarmáttur þeirra margfaldur á við koldíoxíð.“

Rafvæðing og sparneytni

Að sögn Birnu skýrist árangur sjávarútvegsins af fjölda jákvæðra breytinga. „Af stærstu áhrifavöldunum má nefna rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja, sparneytnari skip og hagræðingu í greininni,“ segir hún og bætir við að minnkandi losun hafi haldist í hendur við lækkandi rekstrarkostnað útgerða enda hafi þær getað dregið úr kaupum á olíu.

En hvaða breytingar á veiðum, vinnslu og flutningum ætti að ráðast í til að gera enn betur? Birna segir m.a. hægt að líta til aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum frá síðasta hausti þar sem m.a. er kveðið á um að ryðja úr vegi síðustu hindrununum í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja, og að skipta yfir í kælimiðla sem ekki valda gróðurhúsaáhrifum. „Ástæðan fyrir því að ekki er búið að rafvæða alla fiskimjölsframleiðslu er að það hefur reynst tæknilega erfitt að skaffa nægilega raforku á nokkrum stöðum,“ útskýrir hún. „Hvað kælimiðlana snertir þá eru aðilar í kæliiðnaði að mestu búnir að leysa úr tæknilegum áskorunum sem felast m.a. í því að þeir kælimiðlar sem koma í stað HFC-kælimiðla geti verið eitraðir og/eða eldfimir og eins getur pláss um borð í skipum verið takmarkandi þáttur.“

Birna Sigrún Hallsdóttir
Birna Sigrún Hallsdóttir

Í framtíðinni mætti draga úr olíunotkun með því að knýja fiskveiðiskip að hluta eða öllu leyti með rafmagni, metanóli eða vetni en Birna segir þróunina þar komna frekar skammt á veg. „Engu að síður er mögulegt að draga úr losun með því að stefna að rafvæðingu hafna, auka íblöndun eldsneytis úr endurnýjanlegu hráefni og hækka kolefnisgjald til að hvetja til enn betri orkunýtingar, rétt eins og kveðið er á um í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Eins munu ný og betri skip halda áfram að skila bættri orkunýtingu.“

Breytingar sem borga sig

Sumir gætu spurt hvort ekki hafi náðst nægur árangur, og hvort ekki sé varasamt fyrir sjávarútveginn að ráðast í kostnaðarsama fjárfestingu til að minnka kolefnisspor greinarinnar enn frekar. Birna segir að margar aðgerðir af þessu tagi borgi sig til langframa og líklegt að stjórnvöld muni í auknum mæli beita hagrænum hvötum til að stýra þróun í þessa átt. Þá sé ávinningurinn meiri því fyrr sem gripið er til aðgerða, og ljóst að neytendur gera æ ríkari kröfu um að þau matvæli sem þeir kaupa séu framleidd með sem minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. „Það er brýnt að ráðast strax í aðgerðir til að minnka losun því sumar breytingar munu taka langan tíma.“

Birna bendir á að skoða þurfi kolefnisspor sjávarútvegsins enn betur og þannig sé t.d. eftir að kortleggja og mæla áhrif af flutningum og vali á umbúðum. „Með betri yfirsýn yfir alla virðis- og aðfangakeðjuna geta fyrirtæki farið að leita leiða til að minnka sporið, s.s. með því að skipta um umbúðir eða gera auknar kröfur til flutningsaðila um að lágmarka losun.“

Segir Birna að eftir því sem kolefnisspor íslensks sjávarfangs minnki skapist betri tækifæri til að markaðssetja vöruna sem umhverfisvæn og heilnæm matvæli. En alveg óháð því þurfi sjávarútvegurinn að setja umhverfis- og loftslagsmál á oddinn: „Engin önnur atvinnugrein á Íslandi á meira undir því að koltvísýringslosun fari ekki úr böndunum enda hafa loftslagsbreytingar mikil áhrif á höfin sem bæði súrna og hlýna með tilheyrandi áhrifum á fiskstofna og lífríki sjávar.“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 21.5.19 304,95 kr/kg
Þorskur, slægður 21.5.19 360,29 kr/kg
Ýsa, óslægð 21.5.19 262,55 kr/kg
Ýsa, slægð 21.5.19 278,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 21.5.19 105,44 kr/kg
Ufsi, slægður 21.5.19 164,30 kr/kg
Djúpkarfi 15.5.19 117,00 kr/kg
Gullkarfi 21.5.19 188,51 kr/kg
Litli karfi 15.5.19 0,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 21.5.19 295,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.5.19 Elli Jóns ÍS-083 Handfæri
Þorskur 299 kg
Ufsi 37 kg
Samtals 336 kg
21.5.19 Anna Karín SH-316 Grásleppunet
Grásleppa 586 kg
Samtals 586 kg
21.5.19 Hrefna ÍS-267 Landbeitt lína
Steinbítur 1.283 kg
Þorskur 1.030 kg
Skarkoli 300 kg
Ýsa 133 kg
Samtals 2.746 kg
21.5.19 Vala HF-005 Grásleppunet
Grásleppa 1.087 kg
Rauðmagi 19 kg
Þorskur 4 kg
Samtals 1.110 kg

Skoða allar landanir »