Matur sem börnin hafa gaman af

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir er gift og á tvær stúlkur. Sú eldri heitir Ingibjörg Rósa og er fjögurra ára og sú yngri heitir Kristín Rannveig og er eins árs. Eva Laufey starfar við dagskrágerð hjá Stöð 2, er matreiðslubókahöfundur, eigandi www.evalaufeykjaran.is og er á lokaári í viðskiptafræði. Hún segir að gullna reglan hennar gagnvart börnunum sé: Allt er gott í hófi. Að börn elski epli jafn mikið og súkkulaði. Þó að hún sé spenntari fyrir því síðarnefnda sjálf. 

„Ég elska að borða góðan mat helst í góðum félagsskap með vinum og svo finnst mér æðislegt að fara út að hlaupa,“ segir Eva Laufey.

Hvað finnst þér skipta mestu máli þegar kemur að börnum og hollustu?

„Það sem skiptir mig mestu máli er að stelpurnar mínar fái fjölbreytta og góða fæðu, en með því ættu þær að fá góða næringu og öll þau vítamín sem þær þurfa. Ég vil að þær borði mat sem nærir þær frekar en að draga úr orkunni. Ég reyni eftir fremsta megni að elda á kvöldin en auðvitað eru sumir dagar þannig að við kaupum tilbúinn mat eða þá að ég bjóði upp á skyr og léttmeti. Heimatilbúinn matur er að ég held lykillinn að góðu jafnvægi. Þegar við eldum sjálf vitum við nákvæmlega hvað fer í matinn og getum stjórnað því hvað fólkið okkar er að borða.“

Búa til broskarl úr matnum

Hvernig býrðu til mat þannig að börnin borði hann?

„Það er hægt að gera margt skemmtilegt við matinn, hvort sem það er að raða á diskinn og móta broskarl eða einhverja fígúru sem börn hafa gaman af eða þá að móta matinn þannig að hann sé skemmtilegur fyrir krakka.“

Eva Lafuey segir að eldri dóttir hennar hafi sterkar skoðanir á hvað hana langar að borða hverju sinni. „Það sem hefur reynst mér best er að leyfa Ingibjörgu Rósu að elda með mér og aðstoða mig í eldhúsinu. Krakkar eru svo snjallir. Þau geta svo margt og þeim finnst miklu, og þá meina ég miklu skemmtilegra, að borða matinn sem þau hafa tekið þátt í að útbúa,“ segir Eva Laufey og brosir.

Lumar þú á góðum uppskriftum að barnanesti?

„Smátt skornir ávextir, smátt skorið grænmeti og grísk jógúrt með heimalöguðu múslí. Egg og aftur egg, þau eru stútfull af hollustu. Bananaklattar með smjöri og osti er líka frábært ásamt hrökkbrauði með allskyns áleggi. Það er skemmtilegt að hafa gott úrval. Sitt lítið af hverju!“

Skipta yfir í grófara brauð

Hvað getum við notað í staðinn fyrir brauð sem nesti?

„Ef maður vill skipta út brauði þá er ekki galið í fyrstu atrennu að byrja á því að skipta fínna brauði út fyrir dekkra og grófara brauð, flatkökur og annað slíkt. Því grófara því hollara er brauðið. Auðvitað þarf ekki endilega að vera brauð en ég hef gert bananaklatta og í þá uppskrift nota ég eingöngu banana, egg og örlítið haframjöl. Frábær uppskrift og áferðin er eins og brauð. Hrökkbrauð er gott í stað þess að nota brauð. Það er hægt að fá óteljandi tegundir nú til dags en auðvitað er líka skemmtilegt að þróa sína eigin uppskrift sem allir í fjölskyldunni elska.“

Hvað kom þér á óvart varðandi móðurhlutverkið?

„Það sem kom mér á óvart var hvað þetta er virkilega skemmtilegt og gefandi. Að sjálfsögðu er þetta krefjandi á sama tíma en ég myndi ekki vilja hafa hlutina öðruvísi. Stelpurnar mínar eru númer eitt og ég skipulegg mig í kringum þær. Næturbrölt og annað slíkt kom mér aðeins á óvart,“ segir Eva Laufey og brosir. „En ég minni þær á þetta þegar þær verða unglingar og vek þær með tilheyrandi fjöri um sex til sjö á morgnana um helgar,“ segir hún og hlær. „Tíminn hefur aldrei liðið hraðar og ég reyni að muna að njóta hvers einasta augnabliks.“

Hvað myndir þú gera aftur ef þú værir að byrja upp á nýtt, tengt börnunum?

„Að láta þær smakka allt og leyfa þeim að taka þátt í sem mestu sem við gerum hér heima við. Sérstaklega í eldhúsinu en minni konu þykir ekkert skemmtilegra og ég nýt þess að eiga með henni þessar stundir og skapa minningar. Ég man einmitt eftir mér í eldhúsinu með mömmu og ömmu og mér þykir afar vænt um það!“

Sérstakar barnauppskriftir

Hverju myndir þú sleppa?

„Ég myndi sjálfsagt ekki breyta neinu. Ég hef alla tíð lagt upp með að gefa stelpunum mínum fjölbreytta fæðu og hef ekki otað að þeim „óhollustu“. Vissulega smökkuðu þær ís og annað slíkt, en fyrir mitt leyti þá var það afar lítið og enginn vani þannig það er bara lífsins gangur að mínu mati að þau smakki slíkt fyrr en síðar. Það er auðvitað hægt að bæta sig í þessu eins og öðru, en ég hef lagt upp með að þær smakki ekki gos. Eldri stelpan mín sem er fjögurra ára hefur enn ekki smakkað gos og finnst það lítið spennandi. Hún fær nóg af öðru sætu og það þykir mér nóg. Svo lengi sem hún er ekki að biðja um neitt finnst mér óþarfi að hún smakki. Aðalatriðið er að börn fái fjölbreytta og góða fæðu. Að venja sig á að allt sé gott í hófi og svo er auðveldlega hægt að breyta og aðlaga uppskriftir sem eru sætari að börnum. Til dæmis með því að útbúa heimatilbúinn ís sem er gerður úr frosnum ávöxtum og annað sambærilegt sem þau taka ekki eftir að sé ólíkt venjulegum ís sem þau hafa ef til vill smakkað.“

Börnin jafnglöð með epli

Hvernig fáum við börnin til að borða hollt, ef við höfum óvart dottið í að gefa þeim eitthvað annað?

„Auðvitað smakka krakkar sætindi og annað slíkt, það væri mjög erfitt að komast hjá því og það er ekkert óeðlilegt að á einhverjum tímapunkti fái þau gotterí. Börnin fara væntanlega af og til í pössun til ömmu og afa? Það getur verið stórhættulegt!“ segir Eva Laufey og hlær. „Svo lengi sem það er í hófi og það sé ekki neinn vani þá er það bara eðlilegt, rétt eins og með okkur fullorðna fólkið. Við getum vanið okkur á ýmislegt og það sama gildir um börnin. Mín regla er: Allt er gott í hófi. Börn eru yfirleitt ekki að biðja um sætindi, það er algengara að við fullorðna fólkið séum að bjóða þeim að fyrra bragði. Ég get ekki séð mun þegar ég býð stelpunni minni stóra eplabita eða súkkulaðibita. Þau eru bara sátt með það sem þau eru vön og eru ekki komin í þann gír að fá sér eitthvað gott til þess að hafa það „huggó“ eins og við dettum oft í,“ segir Eva Laufey og útskýrir að nú tali hún fyrir sig. „Ég elska súkkulaði!“