Madonna ósátt við barnsföður sinn

Madonna og Guy Ritchie eiga saman tvö börn.
Madonna og Guy Ritchie eiga saman tvö börn. REUTERS

Madonna og fyrrverandi eiginmaður hennar, leikstjórinn Guy Ritchie, deildu um hvort sonur þeirra færi með móður sinni í ferðalag til þess að fagna nýju ári. Er það þó ekki eina ósættið á milli hjónanna fyrrverandi þessa dagana að því er fram kemur á vef The Sun. 

Á Madonna að hafa skipað 19 ára gömlum syni sínum sem hefur búið hjá föður sínum að pakka í ferðatöskur. Madonna er á Maldíveyjum og þrátt fyrir að fæstir myndu slá hendinni á móti fríi á Maldíveyjum er sonur þeirra á öðru máli. Á faðir hans að hafa sagt syni sínum að hann þyrfti ekki að fara frekar en hann vildi. 

Í forræðisdeilu Madonnu og Ritchie árið 2016 sagðist Rocco frekar vilja dvelja hjá föður sínum. Heimildarmaður The Sun segir að deilurnar milli Madonnu og Ritchie hafi róast með árunum en með þessari ferð hafi allt byrjað aftur. 

„Hún setti niður fótinn og ákvað að Rocco ætti að fara með henni og systkinum sínum. Það virðast hins vegar ekki allir vera á sama máli.“ 

Saman eiga þau Ritchie og Madonna Rocco og hinn 14 ára gamla David Banda sem þau ættleiddu saman. Eru hjónin fyrrverandi nú sögð vera ósátt með forræðið á David. Er Ritchie sagður hafa leitað til dómara í New York rétt fyrir jól sem mun skoða málið eftir áramót. 

mbl.is