Davíð fimleikaþjálfari bjó til æfingamyndbönd fyrir börnin

Davíð Már Sigurðsson íþróttafræðingur og þjálfari í Ármanni lætur samkomubann ekki stoppa þjálfun barna og ungmenna og hefur nú sett saman æfingamyndbönd sem öll fjölskyldan getur gert saman. Hann segir að hugmyndin hafi kviknað til að fá börnin til að hreyfa sig meira og leyfa foreldrunum að fá meiri innsýn inn í líf þeirra. 

„Hugmyndin af þeim kom bara upp hjá mér þegar ég sá fram á að krakkarnir myndu missa úr æfingar. Mig langaði til að gefa þeim dæmi um æfingar sem þau geta fylgt markvisst eftir meðan á samgöngubanninu stendur,“ segir Davíð Már og bætir við: 

„Æfingarnar eru settar saman með því markmiði að það þarf lítið pláss til að framkvæma þær svo þær geta verið framkvæmdar hvar sem er með engum búnaði eða tækjum. Það er alltaf ein fótaæfinga þó kviðurinn sé aðalfókus í þessum pakka. Ég tók upp myndböndin á Gopro og klippti þau heima,“ segir hann. 

Þótt æfingarnar séu sérsniðnar fyrir þá sem stunda fimleika þá ættu allir að geta gert þær heima hjá sér. 

„Æfingarnar eru brotabrot eru margvíslegar útfærslur á hreyfingum og stöðum sem parkour og fimleikamenn framkvæma við þjálfun sína. Ég vildi hafa nokkuð fjölbreytt úrval af æfingum sem vinna með stöðugleika og hjálpa þar af leiðandi við kraftmyndun í ýmsum stökkum og hreyfingum sem krakkarnir framkvæma.“

Hvaða áhrif hefur það á börnin að mæta ekki á fyrirhugaðar æfingar?

„Það hefur auðvitað aðallega áhrif á rútinuna sem börnin eru vön að fylgja þar sem bæði íþrótta og skólastarf raskast umtalsvert. Hinsvegar finnst mér alltaf betra að líta á björtu hliðarnar og ég held til að mynda að þetta gefi foreldrunum færi á að æfa heima með börnunum og hafa gaman. Það er líka spennandi fyrir mömmu og pabba að þekkja æfingarnar sem krakkarnar eru að gera. Einnig felst ákveðið frelsi í því að sjá sjálfur um að æfa sig sem ég held að krakkarnir hafi gaman af.“

Þessar æfingar eru ekki fyrir börn heldur alla fjölskylduna. Felst ekki ákveðið tækifæri í því að æfa saman heima í stofu?

„Jú tvímælalaust, ég held að áhuginn hjá krökkunum tvöfaldist um leið og þau sjá að fjölskyldan er með þeim í hreyfingunni. Það er líka gaman fyrir börnin að spjalla við foreldrana um æfingarnar og þau vita hvað átt er við þegar þau nefna hugtök eins og kuðungur og vinkill. Einnig held ég að þetta styrki fjölskylduböndin þar sem að sameiginleg æfing með fjölskyldunni getur verið skemmtileg gæðastund og getur t.d.  komið í stað skjátíma,“ segir Davíð Már. 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert