Náðu sátt eftir stormasama forræðisdeilu

Blac Chyna og Rob Kardashian eiga dóttur saman.
Blac Chyna og Rob Kardashian eiga dóttur saman.

Raunveruleikaþáttastjarnan Rob Kardashian og fyrirsætan Blac Chyna eiga saman hina fjögurra ára gömlu Dream. Foreldrarnir hafa verið ósáttir hvort við annað lengi en náðu sáttum í lok árs eftir að árið 2020 byrjaði með látum. 

Kardashian, sem krafðist fulls forræðis yfir dóttur sinni fyrir ári, er sagður setja dóttur sína í fyrsta sætið.

„Velferð Dream hefur alltaf verið og verður alltaf efst á forgangslista Robs,“ sagði heimildarmaður ET. „Rob er ótrúlegur faðir og gerir allt fyrir litlu stelpuna sína.“ 

Kardashian-bróðirinn og fyrirsætan náðu saman rétt fyrir jól en samskipti þeirra hafa ekki alltaf verð góð. Þau eru nú með sameiginlegt forræði en þau komust að því samkomulagi án aðkomu dómara. Þau fá einnig jafnmikinn tíma með dóttur sinni í fríum og á hátíðisdögum. Einnig skrifuðu þau undir að þau mættu ekki vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa á meðan dóttir þeirra væri í þeirra umsjá. 

Í byrjun síðasta árs sótti Kardashian um forræði yfir dóttur sinni og sakaði barnsmóður sína um að misnota áfengi og eiturlyf. Hann krafðist þess að Chyna færi í lyfjapróf áður en hún hitti dóttur þeirra. Lögmaður Chyna vísaði ásökunum Kardashians á bug.

mbl.is