Travolta-feðgar kynna nýjan fjölskyldumeðlim

John Travolta og sonur hans Ben.
John Travolta og sonur hans Ben. Skjáskot/Instagram

Leikarinn John Travolta birti mynd af tíu ára gömlum syni sínum Ben á Instagram en Ben birtist ekki oft á samfélagsmiðlum. Grease-stjarnan gerði undantekningu með myndbirtingunni og var ástæðan nýr fjölskyldumeðlimur. 

„Kristall, nýi kötturinn hans Bens,“ skrifaði hinn 67 ára gamli Travolta við myndina. Hinn tíu ára gamli Ben brosir sínu breiðasta með köttinn í fanginu. Feðgarnir eru greinilega með sama brosið. 

Síðasta ár var erfitt í lífi Travolta en eiginkona hans og móðir Bens, leikkonan Kelly Preston, lést eftir glímu við brjóstakrabbamein í júlí. Travolta á einnig hina tvítugu Ellu en sonur hans og Preston, Jett, lést árið 2009, þá 16 ára gamall. Kötturinn kemur ekki í stað Preston en líklega felst smá huggun í að kúra með loðna köttinn í fanginu. 

mbl.is