„Lykillinn að lífinu er smjör og rjómi“

Ljósmynd/Aðsend

Hannes Þórður Þorvaldsson lyfjafræðingur er tveggja barna faðir í Kópavoginum hann býður sig fram í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins um helgina í Kraganum. Hanner er einnig með diplómur í viðskiptafræði og nútímalistdansi, auk 3.stigs í dægursöng. Við slógum á þráðinn til Hannesar og fengum hann í létt pabbaspjall.

Hverjir eru í fjölskyldunni?

„Við erum 42 á heimilinu. Ég, Sandra Hólm Gestsdóttir og börnin okkar tvö; Aðalbjörg Ynja Hólm (6 ára) og Þórarinn Davíð Hólm (2 ára), auk nokkurra tuga Gúbbífiska og mömmu þeirra – ef einhvern vantar má alveg endilega hafa samband, búrið ber þá ekki mikið lengur. Getið fundið mig á Facebook. Átti ég nokkuð líka að telja allar plönturnar?“ Segir Hannes.

Hvað hefur komið þér mest á óvart við föðurhlutverkið?

„Ég hafði nú séð talsvert af barnauppeldi í minni nánustu fjölskyldu áður en kom að þessu hjá okkur Söndru. Þrátt fyrir að vera örverpið framan af átti ég ígildi litlu systur því Gabríela Jóna, systurdóttir mín, ólst upp á sama heimili og nú á ég líka tvö yngri systkini og 9 systkinabörn, en við höfum öll verið náin í gegnum tíðina. Og hver veit hvað gerist næst? Ætli það sé samt ekki hvað maður kann þetta miklu betur og getur endalaust rifið sig upp til að bregðast við þegar maður hefur eignast sín eigin.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvaða uppeldisráð myndir þú gefa tilvonandi feðrum?

„Það er ekkert að óttast, þetta kemur allt ef maður bara er ekkert að stressa sig og það er aldrei skömm af því að spyrja ráða. Svo þegar barnið er komið í heiminn mundu að örva það og ögra; gefðu mikla snertingu og talaðu vitrænt við það frá fyrsta degi. Söngur er lækning við öllu og bænir, þulur og ljóð eru líka vanmetin snilld í nútímanum, allt sem hægt er að kyrja hálfum hljóðum. heyrðu já og halda á þeim lóðréttum ef eiga erfitt með að sofna, en annars líka á maganum fram eftir upphandleggnum yfir daginn. Já og nei, best ég spari bara plássið og vísi á Pabbatips á Facebook.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er morgunrútínan ykkar?

„Snús, snús og svo knús frá börnunum þegar þau vakna og fara að krefjast athygli. Þá fer allt á fleygiferð; með morgunkorni, bleyjuskiptum, töskutiltekt og að taka sig til fyrir daginn eins og tími vinnst til. Sandra fær forgang á alla aðstöðu því hún byrjar að kenna svo snemma, en ég get svo oftast komið heim aftur, eftir að hafa komið krökkunum í skóla, til að fínpússa mig og átta mig á deginum áður en þarf að fara að vinna.“

Hvað er í kvöldmatinn á þriðjudögum?

„Vá, já, þegar stórt er spurt. Á þriðjudögum er sjaldnast eitthvað mikið planað eða eldað því Ynja er á fótboltaæfingum til hálf 7, en síðast þegar við Þórarinn sóttum hana fór ég samt með þau út að borða í Garðabæ í IKEA, sem var fljótlegt og skemmtilegt.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig færðu börnin til að borða soðna ýsu?

„Borða ekki öll börn soðna Ýsu? Annars er lykillinn að lífinu smjör og rjómi, svo nóg af smjöri! Kannski stappa með kartöflum og þá auðvitað tómatsósa ofaná ef allt annað bregst, hún klikkar aldrei. Svo er gott að hafa grænsalat með, þau borða það líka ef það er gert upp á danska mátann – með sykri og rjóma!“

Ef þú mættir koma með leynigest í matarboð, hvern myndir þú taka með þér?

„Pál Óskar, í glimmergallanum sem nær alveg yfir andlitið. Svo myndi hann taka af sér hettuna og syngja Gordjöss – það kæmi alltaf rækilega á óvart og væri mikið stuð! Hef séð það í stórafmæli, þar sem hann sló í gegn en það væri enn betra í matarboði, þar sem hann myndi svo setjast með fólkinu í framhaldið, því hann er svo skemmtilegur og yndæll.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvað fær þig til að hlæja?

„Áður fyrr var það eiginlega bara allt. En ætli það séu ekki helst börnin, í seinni tíð, þegar þau taka upp á einhverju sniðugu. Og auðvitað eigin brandarar! Já og einstaka aulahúmors kvikmyndir, þegar maður er rétt stefndur – ég á samt erfitt með að sjá fólk meiða sig mikið eða hluti skemmast, svo samt síst þær senur.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig verður sumarið hjá fjölskyldunni?

„Sumur eru sjaldnast ákveðin mjög langt fram í tímann hjá mér, sem er ekki alltaf vinsælt. En ég held að það sé bara að verða komin nokkuð þétt dagskrá, allavega hjá Ynju. Engin ferðalög enn ákveðin, en hún fær heimsókn góðrar frænku frá Svíþjóð í júlí, þegar við náum öll að vera á sama tíma í fríi í nokkrar vikur. Ætli við ferðumst samt ekki, bara innanlands. Ég held þetta verði bara alveg ágætt – sumarið verður fínt!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert