Segir fæðingarþunglyndi allt of falið

Amanda Seyfried segir fæðingarþunglyndi mjög falið.
Amanda Seyfried segir fæðingarþunglyndi mjög falið. mbl

Leikkonan Amanda Seyfried segist hafa fengið mikla innsýn inn í líf þeirra sem glíma við fæðingarþunglyndi eftir að hafa leikið í kvikmyndinni A Mouthful of Air. Hún segir fæðingarþunglyndi mjög falið og lítið talað um vandamálið. 

„Það er hægt að finna staði til að fá hjálp og tala um það, en það er dýrt. Og það veldur því að fólk sækir sér ekki þessa þjónustu, það gerir hana óaðgengilega,“ sagði Seyfried í viðtali við Page Six.

Hún bendir á að fæðingarþunglyndi sé einnig svo falið, hún hafi þó reynt að gera sitt besta til að segja söguna á raunverulegan hátt. „Allar myndir eins og þessar eru mikilvægar, og í þessari mynd segjum við söguna á samúðarfullan hátt, frá sjónarhorni persónunnar sem ég leik, þess vegna tók ég þetta hlutverk,“ sagði Seyfried. 

Seyfried sjálf á tvö börn með eiginmanni sínum Thomas Sadoski; dótturina Ninu sem er fjögurra ára og son sem kom í heiminn á síðasta ári. Þau hafa ekki opinberað nafn sonarins.

mbl.is