Yngri sonurinn fæddist sama dag níu árum seinna

Barnabókahöfundurinn Agnes Marinósdóttir er mamma tveggja drengja.
Barnabókahöfundurinn Agnes Marinósdóttir er mamma tveggja drengja. Ljósmynd/Aðsend

Yngri sonur Agnesar Marinósdóttur, barnabókahöfundar og hönnuðar, kom óvænt í heiminn á níu ára afmælisdegi eldri sonar hennar. Agnes er lítið fyrir að skipuleggja og elskar hvernig lífið kemur einhvern veginn til hennar. Þannig komu drengirnir hennar til hennar og á sama hátt urðu barnabækur hennar og Hönnu Sifjar Hermannsdóttur til.

„Lífið breytist að sjálfsögðu mikið þegar maður eignast börn. Ég var frekar upptekin við það að finna sjálfa mig og vera til og svo koma þessar fallegu verur sem kenna manni eitthvað nýtt og ég er enn að læra. Það var að sjálfsögðu oft erfitt en með öllu erfiðu kemur eitthvað frábært og betra,“ segir Agnes sem er ótrúlega þakklát fyrir að vera móðir drengjanna sinna. 

„Ég er allskonar mamma, en það sem þeir vita alltaf er að ég er kletturinn og ástin. Ég hef alltaf virðingu að leiðarljósi og að þeir virði mig. Ég er ekki súperströng og ég vil frekar hlusta á þá en að skammast. Ég fer á fótboltamótin, ég klæði mig í búninga á hrekkjavöku, fíflast mikið með þeim, við erum miklir vinir.“

Agnes er vinur sona sinna.
Agnes er vinur sona sinna. Ljósmynd/Aðsend

Gaf syni sínum bróður í afmælisgjöf

Agnes fann mikinn mun á meðgöngunum og fæðingunum tveimur. Fyrri meðgangan var góð en henni leið eins og hún væri sjóveik í þrjá mánuði á seinni meðgöngunni. Eins og gefur að skilja var hún orðin reyndari í seinna skiptið. 

„Ég vissi eiginlega ekkert hvað ég var að fara út í en það gekk víst vel og allt í blóma nema að þetta var hellað vont eins og allar konur vita sem hafa fætt barn,“ segir Agnes um þegar frumburðurinn kom í heiminn á náttúrulegan hátt. 

„Ég var búin að ákveða að fá mænudeyfingu enda átti ég að vita betur,“ segir Agnes um seinni fæðinguna. „Sem betur fer fékk ég hana en það tókst næstum ekki af því að svæfingalæknirinn var upptekinn en ég þakka honum fyrir í dag. Takk þú! Þannig að ég heyrði bara hríðarnar í tæki sem var hliðina á mér. Það var mjög furðulegt en allt önnur upplifun. Svo fæddi ég litla minn og allt gekk vel. Eldri strákurinn fæddist sama dag níu árum áður á sama tíma og var heima með afmælisveislu. Ég kom heim fjórum tímum eftir fæðingu með lítinn kút í afmælisgjöf.

Eldri sonur Agnesar fékk lítinn bróður í afmælisgjöf.
Eldri sonur Agnesar fékk lítinn bróður í afmælisgjöf. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er eiginlega ótrúlegt, ég ætlaði ekkert mikið að fjölga mér,“ segir Agnes og hlær þegar hún er spurð hvort hún hafi ætlað sér að eignast annað barn. „Ég planaði ekkert af þessu, var aldrei þessi týpa að spá að eignast eitt barn eða svo það næsta. Lífið bara gerist og ég elska það þannig. En svo fær maður svona gjafir í lífinu og mér finnst það hálf kómískt, ég er alltaf að furða mig á því hvað er mikil ást í lífinu.“

Hvernig var tilfinningin að átta sig á að þeir ættu sama afmælisdag? 

„Þetta kom á óvart enda þegar ég vakti eldri strákinn þessa nótt og var að fara með hann til afa og ömmu var það eina sem hann sagði: „Æi ekki á afmælisdeginum mínum.“ En síðan síðan þá hefur hann elskað það. Eldri strákurinn minn kom nefnilega á 43. viku þannig að hann lét bíða eftir sér en litli minn var settur 5. júní og hann kom á undan þannig að þetta átti einhvern veginn svo mikið að gerast.“

Agnes segist vera ótrúlega heppin með strákana sína. „Þeir eru fyndnir, hlýir og góðir drengir. Ég er ótrúlega heppin að fá þessa tvo lánaða til að vera samferða mér í lífinu.“

Öll börn elska prump

Agnes og Hanna Sif hafa skrifað saman bækurnar Perla prakkari og prumpublaðran og Ég elska mig. Þær Agnes og Hanna Sif sem einnig er móðir kynntust þegar þær voru að vinna saman á veitingastað og smullu strax saman að sögn Agnesar. Þær héldu áfram vinskapnum eftir að Hanna Sif hætti. Í fyrstu voru ritstörf ekki á dagskrá. 

Agnes Marinósdóttir og Hanna Sif Hermannsdóttir.
Agnes Marinósdóttir og Hanna Sif Hermannsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Af hverju getum við ekki gert svona eins og aðrir?“ sagði Agnes við Hönnu Sif einn daginn. „Við höfum lesið endalaust með börnunum okkur allskonar bækur. Ég persónulega var alltaf að búa til allskonar sögur með börnunum mínum enda hef ég alltaf verið mjög hugmyndarrík og viljað fara smá „off script“. Þannig að einn daginn fórum við á bókasafn með börnin og fórum í smá rannsóknarleiðangra fyrir okkur og okkur datt þessi saga í hug með Perlu. Við vildum gera eitthvað fyndið sem væri gaman að lesa með börnunum og okkur fannst einhvern veginn allir krakkar elska eitthvað sem tengist prumpi.“

Geta bækur bæði verið fyndnar og með boðskap?

„Já auðvitað. Það er fyndið og gaman að hafa húmor fyrir sjálfum sér og að taka ekki öllu of alvarlega. Það er mjög flottur boðskapur í því.“

Agnes segir mikið af góður úrvali af barnabókum og íslenskir rithöfundar flottir. Henni finnst skemmtilegt þegar fólk hefur áhuga á að taka hugmyndir á næsta stig og framkvæma. Agnes og Hanna Sif eru greinilega í þeim hópi, strax búnar að senda frá sér nokkrar bækur. 

Perla Prakkari og prumpublaðran er eftir Agnesi og Hönnu Sif.
Perla Prakkari og prumpublaðran er eftir Agnesi og Hönnu Sif. Ljósmynd/Aðsend
Vinkonurnar Agnes og Hanna Sif skrifuðu líka Ég elska mig.
Vinkonurnar Agnes og Hanna Sif skrifuðu líka Ég elska mig. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert