Afslöppuð þegar örverpið fæddist

Eyrún Eggertsdóttir er þriggja barna móðir. Hér er hún með …
Eyrún Eggertsdóttir er þriggja barna móðir. Hér er hún með dóttur sína Freyju. Ljósmynd/Aðsend

Eyrún Eggertsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Róró og hönnuður dúkkunnar Lúllu, á þrjú börn á mismunandi skólastigum með manni sínum Þorsteini Otta Jónssyni. Það var auðveldast að eignast þriðja barnið sem er fjögurra ára en mestu viðbrigðin að eignast frumburðinn sem er orðinn 14 ára. 

„Ég varð móðir 25 ára og það átti strax vel við mig. Ég hef alltaf verið í miklum tengslum við mína fjölskyldu og unnið mikið við umönnun þannig að mér fannst frábært að fá að eyða tíma í að annast mín eigin börn og byggja upp fjölskylduhefðir. Mér finnst líka svo margt skemmtilegt sem að börnum finnst skemmtilegt – ég elska að fara í sund, á bókasafnið, föndra og vakna snemma um helgar og fara á íþróttamót. Ég hef meiri áhyggjur af hvað ég geri af mér þegar þau stækka,“ segir Eyrún um móðurhlutverkið. 

Trúir á skýran ramma

Eyrún elskar að taka þátt í því sem börnin hennar gera.

„Strákarnir mínir vilja nú meina að ég sé of mikið að taka þátt og allt of ströng en ég svara bara að þeir séu heppnir með það. Ég vil nú meina að ég sé frekar afslöppuð, finnst fínt að vera aðeins í flæðinu en trúi líka á skýran ramma.

Ég hef ekki fylgt einni stefnu í uppeldinu en reyni að hafa að leiðarljósi að auka vellíðan og draga úr stressi. Þegar þau voru yngri las ég um tengslamyndunaruppeldi (e. attachment parenting) og sá að ég var að mörgu leyti að stunda það án þess þó að hafa kynnt mér það sérstaklega. Það gengur út á mikla nærveru, hafa börn lengi uppí, á brjósti og bera þau utan á sér. Þetta var eitthvað sem ég gerði af því að ég var að leitast eftir því að finna okkar jafnvægi og hvernig mér og þeim liði sem best. Ég trúi því að hver fjölskylda verði að finna þar sína leið og uppeldisstefnur eiga ekki að vera of stífar. Meira máli skiptir að fjölskyldur finni eigin leiðir sem fellur að þeirra persónugerð og aðstæðum og skapa ekki streitu.“

Eyrúnu tekur virkan þátt í áhugamálum barna sinna.
Eyrúnu tekur virkan þátt í áhugamálum barna sinna. Ljósmynd/Aðsend

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

„Hjálpa þeim að rækta sína styrkleika og læra að verða sjálfbjarga og hugsa um aðra. Að minna þau á að við séum alltaf til staðar, að við elskum þau sama hvað og þau eigi að vera sínir eigin bestu vinir.“

Var afslöppuð þegar yngsta barnið fæddist

Eyrún og Þorsteinn Otti eiga synina Jökul Otta 14 ára og Bjart Otta sem er 12 ára. Örverpið Freyja Rún er á fimmt ári. Eyrúnu fannst að mörgu leyti auðveldast að eignast yngsta barnið. 

„Það er nokkuð langt á milli miðjubarnsins og yngsta, eða sjö ár, svo að strákarnir voru orðnir nokkuð sjálfbjarga þannig að það var þægilegt. Einnig var ég bara miklu afslappaðri. Ég mundi ekkert endilega hvernig ég hafði gert hlutina síðast en ég vissi að allt hefði þetta einhvern veginn gengið upp. Það skiptir líka svo miklu máli á hvaða stað maður er á í lífinu, með þriðja barn vorum við komin í okkar eigin íbúð, við vorum með meiri stöðugleiki í vinnu og tekjum og bæði búin með nám. Þá var meira svigrúm til að njóta.

Ég elska öll barnaverkefnin. Ég hef verði heppin með mínar meðgöngur og fæðingar, brjóstagjöf og heilsu barnanna. Mest málið við að eignast börn finnst mér frekar að halda vinnunni og öllu öðru gangandi á sama tíma. Ég og vinkona mín höfum stundum grínast með það að ef við vinnum stóra vinninginn í lottóinu þá eignumst við fjórða barnið eða það er að segja reynum að sannfæra mennina okkar um það.“

Erfiðast að eignast fyrsta barnið

Hvernig er að ala upp ungling á sama tíma og barn á leikskóla?

„Það getur verið svolítið flókið að finna uppá hlutum til að gera öll saman þar sem áhugamálin eru ekki beint þau sömu. Við foreldrarnir erum dugleg að skipta krökkunum á milli okkar þessa dagana. Ég og litla daman erum duglegar að fara í heimsóknir og kaffihús á meðan þeir fara saman á leiki og horfa á ofurhetjumyndir. Þá fá allir að njóta sín að gera það sem þeim finnst skemmtileg og sleppa við það sem þeim finnst minna skemmtilegt.“

Er mikill munur að eiga eitt barn og þrjú?

„Mesti munurinn er að fara frá því að eiga ekkert barn og eignast svo barn. Ég fann minnst fyrir því að bæta við þriðja. En þegar ég átti bara eitt barn þá fannst mér það heljarinnar mikið mál en ef ég er með eitt barn núna þá finnst mér það bara þvílík rólegheit. Ætli það sé ekki eitt af því sem þau gefa manni, að vera afslappaðri og njóta augnabliksins.“

Fjölskyldan reynir að eiga gæðastundir með öllum börnunum.
Fjölskyldan reynir að eiga gæðastundir með öllum börnunum. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig reyni þið að eiga gæðastundir saman þegar það eru margir á heimili og mikið að gera? 

„Lengi vel vorum við með bíókvöld heima á föstudögum þar sem við horfðum öll saman á fjölskyldumynd. Við erum með stóran svefnsófa í stofunni sem er aldrei notaður til að sofa í heldur til að allir geti legið og haft það notalegt og horft saman á sjónvarp. Þá eldum við oft partýmat, bara heimagerðan skyndibitamat eins og pizzu, pylsur eða hamborgara og svo fá allir popp og nammi. Við foreldrarnir völdum oft gamlar klassískar myndir. Ég verð að viðurkenna að það er orðið erfiðara að fá unglinginn til að taka þátt og eyða föstudagskvöldum í horfa á myndir sem að passa fyrir fimm ára.

Annars eru strákarnir báðir að æfa körfubolta og Steini er að þjálfa svo að körfubolti spilar stóran sess hjá okkar fjölskyldu og mikill tími fer í leiki, æfingar og ferðir. Við erum meðal annars að skipuleggja þrjár utanlandsferðir á þessu ári í kringum körfuboltann. Freyja er staðráðin í að byrja að æfa á næsta haust þannig að karfan er eiginlega orðin aðal fjölskylduáhugamálið.“

Sefur sjálf með Lúllu á ferðalögum

Hvað er besta ráðið sem þú hefur fengið í móðurhlutverkinu?

„Að fylgja hjartanu og innsæinu. Að gera það sem að maður telur að passi best fyrir sig og sína fjölskyldu. Það þarf ekki að vera að sama formúlan virki fyrir alla. Við prentum „Always Follow your heart“ á lokið á öllum Lúllu dúkku og Lúllu uglu kössunum.“

Ýngsta barnið Freyja með Lúllu dúkkuna.
Ýngsta barnið Freyja með Lúllu dúkkuna. Ljósmynd/Aðsend

Eyrún rekur fyrirtækið Róró en hún er hönnuður hinna dúkkunnar Lúllu sem mörg börn og foreldra þekkja vel. Eyrún segir að allir á heimilinu hafi prófað að sofa með dúkkuna þó svo að Freyja, yngsta barnið hennar, sé sú eina sem hafi sofið með dúkkuna í núverandi mynd. 

„Lúlla var ekki tilbúin í núverandi mynd nema fyrir Freyju og hún hefur fylgt henni í gegnum súrt og sætt. Það fer eftir aldri og aðstæðum hvernig fólk er að nota Lúlluna en Freyja tók hana meðal annars með sér þegar hún byrjaði í dagvistun, þegar hún fór í pössun, í bílinn og ferðalagið. Svo hefur hún hana auðvitað hjá sér þegar hún er að sofna og kúrir með henni á nóttunni. Ég tek reyndar Lúllu alltaf með mér í vinnuferðir og sef betur með hana sjálf því ég er vön að sofa með rúmið fullt af börnum,“ segir þriggja barna móðirin Eyrún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert