Sonurinn lagður í einelti fyrir að klæðast kjólum

Megan Fox og tveir af sonum hennar.
Megan Fox og tveir af sonum hennar. Skjáskot / Daily Mail

Leikkonan og ofurfyrirsætan Megan Fox viðurkennir að finna til vanmáttar vegna eineltis sem sonur hennar, Noah, níu ára, verður fyrir í skólanum. Fox tjáði sig um eineltið á dögunum við breska tímaritið Glamour en hún sagði óbærilega erfitt að vera foreldri barns sem upplifir mikinn sársauka dag hvern. 

„Ég á barn sem þjáist. Ég hef miklar áhyggjur af því. Ég vildi að mannkynið væri ekki svona,“ sagði Fox sem jafnframt viðurkenndi að hafa fundið til reiði og sorgar vegna eineltisins. 

Fox útskýrði að sonur hennar, Noah, hafi byrjað að klæðast kjólum þegar hann var í kringum tveggja ára aldurinn. Í kjölfarið fór hún að lesa sig til og keypti fjöldann allan af bókum sem fjölluðu um þessa hluti.

„Sumar bækurnar fjalla bara um hvernig það er að vera strákur sem langar að klæðast kjólum. Þú getur tjáð þig í gegnum fötin þín, alveg eins og þú vilt,“ sagði Fox. „Það þarf ekki að hafa neitt að gera með kynhneigð þína hvernig þú klæðir þig.“

Fox sagðist vera fullkomlega meðvituð um að geta ekki stjórnað því hvernig aðrir foreldrar ali upp sín börn. Hún segist þó sjálf hafa reynt að ala syni sína upp með þeim hætti að öllum sé frjálst að vera eins og þeir eru.

„Ég er svo stolt af strákunum mínum. Noah er til dæmis magnaður píanóleikari. Hann getur pikkað upp sónötur eftir Mozart á einum klukkutíma. Ég vil frekar að fólk sjái það og hans blíða persónuleika,“ sagði móðirin stolt.

Megan Fox á synina þrjá, Noah, Bodhi og Journey með fyrrverandi eiginmanni sínum, leikaranum Brian Austin Green. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert