Erfitt að kynnast nýjum líkama og læra að elska hann

Tinna Óðinsdóttir og yngri sonur hennar, Huginn Svan.
Tinna Óðinsdóttir og yngri sonur hennar, Huginn Svan. Ljósmynd/Aðsend.

Tinna Óðinsdóttir er fyrrverandi landsliðskona í fimleikum og á að baki fjölda verðlauna fyrir frábæran árangur í íþróttinni. Í dag er hún búsett á Akureyri ásamt kærasta sínum, Stefáni Inga Jóhannssyni, og eiga þau saman tvo drengi, Óðin Svan og Hugin Svan. Tinna setti mikla pressu á sjálfa sig eftir meðgöngurnar að koma sér aftur í sitt fyrra form, en henni hefur þótt erfitt að kynnast nýjum líkama og læra að elska hann.

Tinna stundar nám í lögreglu- og löggæslufræði við Háskólann á Akureyri og starfar hjá lögreglunni, en um þessar mundir er hún í fæðingarorlofi með yngri strákinn sinn, Hugin, sem er tveggja mánaða. Tinna segir lífið hafa breyst mikið þegar hún varð mamma. 

Óðinn, Stefán, Tinna og Huginn.
Óðinn, Stefán, Tinna og Huginn. Ljósmynd/Aðsend.

„Ég áttaði mig á því hvaða tilgang lífið hefur fyrir mig. Mér finnst eins og ég nái að njóta mín svo mikið betur í öllu eftir að ég varð mamma, sama hvort það er með börnunum mínum eða án þeirra. 

Aukið sjálfstraust í móðurhlutverkinu

Móðurhlutverkið er það besta en á sama tíma erfiðasta sem ég hef gert. Það er svo hollt og gott fyrir okkur að læra að hugsa um aðra en okkur sjálf og það fannst mér ég ekki læra fyrr en ég varð mamma,“ segir Tinna, en hún eignaðist sitt fyrsta barn, Óðin, fyrir tveimur árum. Hún segir móðurhlutverkið hafa komið sér skemmtilega á óvart. „Það sem kom mér hvað mest á óvart er hvað hversdagsleikinn getur verið geggjaður með fjölskyldunni minni, og hvað mér finnst ég hafa öðlast mikið sjálfstraust í þessu hlutverki sem á mjög vel við mig,“ segir Tinna. 

Tinna og Óðinn í góðum gír.
Tinna og Óðinn í góðum gír. Ljósmynd/Aðsend

Upplýsingum um líkamsbreytingar ábótavant

Tinna segir báðar meðgöngur hafa gengið vel, en henni fannst þó aðeins erfiðara að vera ólétt í annað skiptið. „Það var líklega vegna þess að ég var með tveggja ára barn og því aðeins minna svigrúm fyrir hvíld.“ Hún segir ekkert hafa komið sér á óvart varðandi meðgöngurnar sjálfar og segist hafa upplifað mikið utanumhald og upplýsingar fyrir óléttar konur. „Því sem mér finnst hins vegar ábótavant eru upplýsingar um allt sem á sér stað eftir meðgöngu, allar þessar líkamsbreytingar og svoleiðis.“

Tinna á æfingu á fyrri meðgöngunni.
Tinna á æfingu á fyrri meðgöngunni. Ljósmynd/Aðsend

Setti mikla pressu á að komast fljótt aftur í form

Tinnu hefur þótt erfitt að kynnast nýjum líkama og læra að elska hann. „Mér finnst lítið talað um þetta og því finnst mér mjög mikilvægt að opna umræðuna um allar líkamsbreytingarnar sem eiga sér stað, bæði á og eftir meðgöngu. Persónulega hef ég alltaf verið í mjög góðu líkamlegu formi og ég setti gífurlega pressu á sjálfa mig að koma mér aftur í mitt fyrra form sem allra fyrst eftir meðgöngu. Þetta er enn að há mér, en ég geri allt sem ég get til þess að elska líkama minn nákvæmlega eins og hann er hverju sinni,“ segir Tinna. 

Tinna ófrísk af eldri syni sínum.
Tinna ófrísk af eldri syni sínum. Ljósmynd/Aðsend.

Báðar fæðingar gengu vel hjá Tinnu, en hún segir þær þó hafa tekið sinn tíma. „Fyrri fæðingin gekk mjög vel og upplifun mín af henni ekkert nema góð. Seinni fæðingin gekk svo enn betur, mér leið svolítið eins og ég hefði bara ekkert gert annað en að fæða börn þegar ég átti seinni strákinn minn,“ segir Tinna. Hún getur fátt hugsað sér skemmtilegra og magnaðra en að fæða barn og er þakklát fyrir góða reynslu af fæðingum. 

Mæðginin Tinna og Óðinn.
Mæðginin Tinna og Óðinn. Ljósmynd/Aðsend.

Aðspurð segir Tinna það hafa verið allt öðruvísi að eignast seinni strákinn. „Ég vissi meira út í hvað ég væri að fara þegar ég átti mitt annað barn. Eldri strákurinn minn var líka aðeins meira krefjandi sem ungbarn en yngri strákurinn, allavega enn sem komið er.“ Hún telur það spila inn í að hún sé orðin mun slakari sem móðir og er viss um að börnin finni fyrir því. 

Tinna og Huginn.
Tinna og Huginn. Ljósmynd/Aðsend

„Mamma veit alltaf best“

Tinna segir heimlislífið hafa breyst aðeins þegar Huginn kom í heiminn. „Maður er vissulega maður-á-mann hérna heima og það getur verið pakki stundum. Þetta er samt mun auðveldara en ég átti von á. Við Stefán erum mjög gott teymi og þetta nýja fjölskyldulíf gengur rosalega vel.“

Feðgarnir Stefán, Óðinn og Huginn.
Feðgarnir Stefán, Óðinn og Huginn. Ljósmynd/Aðsend.

Hún segir þau Stefán verða sífellt betri í að fást við hluti sem koma upp, bæði tengda sambandinu og börnunum. „Við höfum líka oft rætt hvað maður er fljótur að aðlagast. Ef okkur hefði verið hent út í þessar aðstæður fyrir þremur árum hefðum við líklega fengið algjört sjokk og ábyggilega ekki getað höndlað allt eins og við gerum í dag.

Ljósmynd/Aðsend

Ég held að það sé engin leið til að undirbúa sig fyrir móðurhlutverkið. Þegar ég lít til baka þá var ég engan veginn tilbúin að eignast börn þegar ég varð ólétt að Óðni. Ég gat vissulega ekkert annað gert en að henda mér í djúpu laugina og reynt að halda mér á floti í þessu öllu saman,“ segir Tinna, og bætir við að hún hafi þroskast gífurlega síðustu ár og lært heilan helling. 

Tinna segir að besta ráðið fyrir foreldra sé að fylgja innsæinu. „Það er mjög klisjukennt, en mamma veit alltaf best.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert