Gerði gys að danstöktum pabba síns

Feðginin Harper og David Beckham.
Feðginin Harper og David Beckham. Skjáskot/instagram

Örverpi Beckham-hjónanna, Harper, virtist skemmta sér vel á tónleikum með tónlistarmanninum The Weeknd um liðna helgi. Miðað við myndskeið sem pabbi hennar, fyrrverandi fótboltamaðurinn David Beckham, deildi á Instagram söng hún með hverju einasta lagi sem The Weeknd tók á tónleikunum og kunni hvert einasta orð í textunum.

Harper er sögð mikil pabbastelpa og verja þau feðginin miklum tíma saman. Þar sem þau eru samankomin virðist aldrei vera leiðinlegt en á myndskeiðunum má heyra hlátur þeirra beggja þegar David tók upp á því að dansa og Harper gerði óspart grín að „pabbadansinum“.

„Ég veit að ég er búinn að setja inn eitt myndband af litlu stelpunni okkar en hún er bara svo sæt þannig að ég varð að birta annað af henni hæðast að pabbadansinum. Hún er svo sæt,“ skrifaði stoltur fjölskyldufaðirinn við myndskeið sem sýnir Harper syngja hástöfum og herma eftir danstöktum föður síns. Fréttamiðillinn Daily Mail greindi frá.

Beckham-fjölskyldan hefur eytt síðustu vikum í Miami í Bandaríkjunum en tónleikar The Weeknd fóru fram í Hard Rock-höllinni þar í borg um helgina. 

mbl.is