„Þegar ég erfiða hugsa ég til fjölskyldunnar“

Simona Vareikaité og Sigurjón Ernir Stuluson ásamt dóttur þeirra, Líf …
Simona Vareikaité og Sigurjón Ernir Stuluson ásamt dóttur þeirra, Líf Sigurjónsdóttur. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Fyrir tæplega fjórum árum síðan umturnaðist líf Sigurjóns Ernis Sturlusonar þegar hann tók á móti dóttur sinni, Líf, með sambýliskonu sinni Simonu Vareikaité. Sigurjón segir föðurhlutverkið vera gríðarlega þroskandi, enda hafi það krafist þess að hann legði áherslu á gott hugarfar og væri tilbúinn að læra af mistökum sínum.

Sigurjón er í hópi fremstu utanvegahlaupara hér á landi en hann tók þátt heimsmeistaramótinu í fjallahlaupum í Tælandi fyrr í þessum mánuði. Það er óhætt að segja að líf Sigurjóns hverfist um heilsu, en hann hefur mikla ástríðu fyrir því að aðstoða fólk við að ná árangri, bæði í hóptímastöðvum sínum, UltraForm, en einnig við hlaup jafnt sem næringu. 

Sigurjón er íþróttafræðingur að mennt og hefur alla tíð haft mikinn áhuga á hreyfingu. Hann var aðeins 13 ára gamall þegar hann fór að hafa áhuga á næringu og mataræði og hefur síðan þá verið að stúdera allt sem við kemur heilsu. 

Það má því með sanni segja að Sigurjón sé hafsjór af fróðleik á sviði hreyfingar og mataræðis, en nú leyfir hann lesendum að skyggnast inn í fjölskyldulíf sitt og talar meðal annars um föðurhlutverkið, upplifunina að vera á hliðarlínunni í fæðingu og uppeldi dóttur sinnar. 

Fann ástina í æfingasalnum

Það kemur líklega fæstum á óvart að Sigurjón hafi fundið ástina í æfingasalnum. „Við Simona æfðum saman í Boot Camp í Elliðaárdalnum, en ég sá hana fyrst þar. Svo fyrir tilviljun hittumst við nokkrum mánuðum seinna á skemmtistað niður í bæ og eftir það var ekki aftur snúið,“ segir Sigurjón. 

Sigurjón og Simona kynntust á Boot Camp æfingu.
Sigurjón og Simona kynntust á Boot Camp æfingu. Ljósmynd/Bjarni Baldursson

Í dag búa Sigurjón og Simona ásamt dóttur sinni í Grafarholti, en þau deila óneitanlega miklum áhuga á öllu sem við kemur heilsu. Þau reka saman tvær UltraForm stöðvar, eina í Grafarholti og aðra á Akranesi. 

Forgangsröðunin gjörbreytt

Sigurjón segir meðgöngu Simonu hafa gengið vel. „Það var í raun ekkert til að kvarta undan. Það sem gerði meðgönguna svo góða var hversu vel hún náði að gera það sem hún elskar að gera - að æfa og sinna heilsunni,“ segir Sigurjón. 

Hann lýsir upplifuninni að vera viðstaddur fæðingu dóttur sinnar sem magnaðri lífsreynslu. „Ég gerði mitt besta til að peppa mína konu áfram, nudda hana í hríðum og veita henni alla þá aðstoð sem hún þurfti. Svo tvinnaði ég að sjálfsögðu smá grín og glens inn í þessar annars grafalvarlegu aðstæður,“ segir Sigurjón og hlær. 

Sigurjón segir lífið hafa gjörbreyst eftir að hann varð pabbi. „Eftir að Líf kom í heiminn þá breyttist algjörlega forgangsröðunin og það var í raun alveg í takt við það sem ég hafði hugsað mér. Fyrstu mánuðina eftir að barn kemur í heiminn er það að sjálfsögðu alltaf meira hjá móður en föður þar sem ég get lítið fóðrað barn á sama hátt og móðir. Því var álagið alltaf mun meira á Simonu en nokkurn tímann á mér,“ útskýrir Sigurjón. 

„Við settum í kjölfarið allan fókus á barnið og gerðum okkar besta til að hún fengi allt það sem hún þyrfti. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að til þess að þú getir sinnt öðrum sem best þá þarft þú sjálfur að vera í lagi. Þar kemur líkamleg jafnt sem andleg heilsa sterkt inn,“ bætir hann við. 

Það er alltaf stutt í stuðið hjá feðginunum.
Það er alltaf stutt í stuðið hjá feðginunum. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

„Við lærum ekki öðruvísi en að reyna“

„Það sem hefur klárlega komið mér mest á óvart er það hve þroskandi það er að vera foreldri. Þegar barn kemur í heiminn og þú þarft að færa allan fókus af þér yfir á barnið þá kemur ansi vel í ljós hversu góður þú ert að standa á eigin fótum og vinna í lausnum þegar á reynir,“ segir Sigurjón. 

„Ég tel mig vera ágætan í því og það sem flestir hafa gott af því að heyra er að við lærum ekki öðruvísi en að reyna, og oft þýðir það að við þurfum að gera mistök. Það er enginn fullkomlega tilbúinn í foreldrahlutverkið þegar að því kemur. Það þarf bara að tækla það og oft þarf maður bara að fylgja flæðinu og brosa þó að á móti blási,“ útskýrir hann. 

Sigurjón og Simona eru með marga bolta á lofti, en aðspurður segir hann það ganga vonum framan að samtvinna hlaupin, fyrirtækjarekstur og föðurhlutverkið. „Ég kom Líf strax inn í hreyfiheiminn okkar og hún hefur alist upp í því umhverfi. Frá því hún fæddist höfum við tekið hana með okkur í bílskúrinn okkar, sem er innréttaður sem líkamsrækt, og æft með hana með okkur,“ segir Sigurjón. 

„Við Simona höfum náð að vinna vel saman, en þar sem hún starfar einnig hjá UltraForm þá getum við unnið verkefni saman og skipt með okkur hlutverkum. Þú hefur alltaf tíma fyrir það sem þér þykir mikilvægast og ef hreyfing og mataræði er þar fremst á lista þá er mjög auðvelt að sinna því,“ segir Sigurjón. 

Líf hefur fylgst með foreldrum sínum æfa og huga að …
Líf hefur fylgst með foreldrum sínum æfa og huga að heilsunni frá því hún fæddist. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Mikilvægt að hlusta á líkamann

Þó verkefnin séu mörg og álagið oft mikið gefa Sigurjón og Simona sér alltaf tíma til að slaka á og hlaða batteríin. „Við slökum á í okkar daglegri rútínu, en það er einmitt hlutur sem vantar hjá ansi mörgum. Við erum með hóptímastöð við hliðina á heimili okkar og einnig líkamsræktarstöð í bílskúrnum þar sem við getum fengið útrás þegar við viljum. Við erum einnig með infrarauða saunu og kaldan pott heima hjá okkur sem við notum mjög reglulega,“ útskýrir hann. 

„Ef við erum mjög þreytt þá einfaldlega leggjum við okkur í 15 til 20 mínútur á milli verkefna. Eitt það vitlausasta sem við getum gert er að hlusta ekki á líkamann þegar kemur að hvíld. Ef þú lendir í því að ná ekki góðum nætursvefni, líkt og gerist reglulega ef þú átt ungt barn, þá getur 15 til 20 mínútna lögn gert ansi mikið fyrir orkustigið og andlega- og líkamlega líðan,“ segir Sigurjón. 

„Þetta er einn mesti kosturinn við það að vera sjálfstætt starfandi, þú ræður því hvernig þú byggir daginn þinn upp og hvenær þú vinnur og slakar á yfir daginn,“ segir Sigurjón og bætir við að þau fari einnig reglulega erlendis, þó oftast í keppnisferðir, en njóti þess líka að fara upp í sveit til að skipta um umhverfi og hlaða batteríin í sveitasælunni. 

Miðla heilbrigðu líferni til dóttur sinnar

Sigurjón segist leggja mikið upp úr því að miðla heilbrigðu líferni til dóttur sinnar. „Ég el dóttur mína upp í umhverfi þar sem regluleg hreyfing og hollt mataræði er til staðar í 90 til 95% tilfella. Ég mun halda áfram að kenna henni inn á heilsu og leyfa henni að velja hvaða leið hún vill fara þegar kemur að hreyfingu,“ útskýrir Sigurjón. 

Fjölskyldan afar lukkuleg í UltraForm stöð sinni.
Fjölskyldan afar lukkuleg í UltraForm stöð sinni. Ljósmynd/Bjarni Baldursson

Þegar kemur að mataræðinu leggur hann áherslu á að Líf fái góða næringu og borði mestmegnis alvöru mat, en það gera þau með því að versla inn mat sem kemur frá jörðinni og lágmarka allt sem kemur í pakkningum og inniheldur þá jafnvel mikið af innihaldsefnum. 

Þá eru agi og reglusemi mikilvægur hluti af uppeldinu að mati Sigurjóns. Honum þykir átakanlegt að fylgjast með málfari og lífsstíl margra barna í dag. „Krakkar láta orð frá sér sem flestum fullorðnum einstaklingum myndi ekki detta í hug að segja og eru í mörgum tilfellum að borða mjög unnin og næringarsnauðan mat, orkudrykki og annað drasl sem hefur ekki bara áhrif á þroska þeirra og vöxt heldur ýtir líka undir allskyns líkamlega kvilla,“ segir hann. 

Draumurinn að komast í sveitina

Framundan eru mörg skemmtileg verkefni hjá fjölskyldunni sem mun halda áfram að rækta heilsu sína. „Ég mun halda áfram að hámarka UltraForm stöðvarnar jafnt sem hlaupa- og næringarþjálfun, og samhliða því halda áfram að hækka rána þegar kemur að æfingum og keppnum. Við eigum okkur svo þann draum að setja upp lítið heilsárshús í Hvalfjarðarsveit þar sem við getum vaknað við hliðina á beljum og rollum, jarðtengt alla daga og stokkið í sjóinn eða upp á fjallið eins og við viljum,“ segir Sigurjón.

Hann bætir við að stærstu mistökin til þessa sé hversu langt maðurinn er kominn frá náttúrunni. „Það á við um næringu og hreyfingu jafnt sem tækniþróun undanfarin ár.“

Simona, Líf og Sigurjón kunna vel við sig í sveitinni.
Simona, Líf og Sigurjón kunna vel við sig í sveitinni. Ljósmynd/Gunnhildur Lind
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert