„Meðgöngurnar eru það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum“

Unnur Elísabet Gunnarsdóttir upplifði óbærilega mánuði á meðgöngu barnanna sinna …
Unnur Elísabet Gunnarsdóttir upplifði óbærilega mánuði á meðgöngu barnanna sinna tveggja, en hún deilir nú reynslu sinni í örverkaleiksýningunni ÉG BÝÐ MIG FRAM. mbl.is/Arnþór Birkisson

Leikstjórinn, danshöfundurinn og leikkonan Unnur Elísabet Gunnarsdóttir upplifði að eigin sögn óbærilega mánuði fyrir 14 árum síðan þegar hún varð ófrísk að fyrsta barninu sínu. Hún komst síðar að því að hún væri með HG (e. hyperemesis gravidarum) heilkenni sem er skilgreint sem alvarlegur sjúkdómur sem getur valdið þyngdartapi, vannæringu, ofþornun og veikleika vegna mikillar ógleði og uppkasta á meðgöngu. 

Sagan endurtók sig svo á síðasta ári þegar Unnur varð ófrísk af yngri syni sínum, en hún segir meðgöngur sínar tvær vera það erfiðasta sem hún hafi gengið í gegnum þar sem hún kastaði upp allt að 25 sinnum á dag í 20 vikur. 

Við fengum að fræðast um heilkennið hjá Unni sem sagði okkur frá meðgöngum sínum, móðurhlutverkinu og nýrri örverkasýningu þar sem hún deilir reynslu sinni af HG. 

Elísabet er búsett í Reykjavík ásamt kærasta sínum, Þorgils Helgasyni, og börnunum sínum tveimur, hinni 14 ára gömlu Emilíu Álfsól Gunnarsdóttur og eins árs gamla Arnmundi Huga Þorgilssyni. Hún er menntaður dansari frá Konunglega sænska ballettskólanum og með leikaramenntun með áherslu á leikstjórn frá Institute of Arts Barcelona. 

„Ég hef unnið í leikhúsi síðan ég var lítil smástelpa, …
„Ég hef unnið í leikhúsi síðan ég var lítil smástelpa, en ég fékk leikhúsbakteríuna mjög snemma. Ég vann með íslenska dansflokknum til fjölda ára og tók þátt í mörgum uppfærslum með Leikfélagi Reykjavíkur. Síðustu ár hefur aðaláherslan hjá mér hins vegar verið að semja mín eigin verk,“ segir Unnur. Ljósmynd/Leifur Wilberg

„Þetta er óbærilegt ástand“

Þegar Unnur varð ófrísk af dóttur sinni fyrir 14 árum síðan upplifði hún fyrst HG heilkennið. „Það sem ég get sagt um HG er að þetta er óbærilegt ástand sem ég myndi ekki vilja óska neinum. Uppköst allan sólarhringinn og þú breytist í óhamingjusamt legudýr sem skiptist á því að liggja í rúminu, á gólfinu og upp á spítala,“ segir Unnur.

„Tíminn líður ekki, og eftir á þá líður þér eins og þú hafir átt að fá medalíu eða viðurkenningu frá Forseta Íslands fyrir að hafa fórnað heilsunni til þess að búa til nýjan samfélagsþegn,“ bætir hún við. 

Unnur segir lítið hafa verið vitað um heilkennið þegar hún varð fyrst ófrísk, en undrar sig þó á því að í dag, 14 árum síðar, séu ekki komnar fleiri lausnir. „Enn í dag er fátt um lausnir, nema þá ógleðilyf sem gera það að verkum að maður sljóvgast en ógleðin hverfur svo sannarlega ekki,“ útskýrir Unnur. 

„Ég komst fyrst að því hvað þetta heilkenni hét þegar Kate Middleton, prinsessan af Wales, var lögð inn á spítala þegar hún var ófrísk af sínu fyrsta barni. Þá var í fyrsta sinn talað um þetta í fjölmiðlum svo ég viti,“ bætir hún við. 

Upplifði aldrei gleði á meðgöngunni

Heilkennið hafði vissulega gríðarleg áhrif á báðar meðgöngur Unnar. „Meðgöngurnar voru það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum. Það að gubba 15 til 25 sinnum á dag í 16 til 20 vikur er óbærilegt. Ég upplifði aldrei gleði sem var rosalega erfitt og mig dreymdi um að fá að vera eins og sumar vinkonur mínar sem blómstruðu á meðgöngunni,“ segir Unnur. 

„Það eru samtök fyrir konur með HG í Bandaríkjunum veit ég, en mamma mín fann allar upplýsingar um heilkennið þar fyrir mig. Síðan er nauðsynlegt að vera með sambönd við lækna til þess að fá hjálp, en oft er ekkert gert fyrir konur í þessu ástandi og viðmiðin eru fáránleg. Konur þurfa að vera gjörsamlega að niðurlútum komnar til þess að þær fái innlögn á spítala,“ segir Unnur. 

Sem betur fer þekkti Unnur lækni og sjúkraliða sem aðstoðuðu hana, en hún segist þó helst hafa viljað fá innlögn á spítala þegar hún var sem verst. „Ég fór bara þrisvar sinnum í viku upp á spítala í vökva- og lyfjagjöf,“ segir hún. 

Eftir barnsburð upplifði Unnur fæðingarþunglyndi, en hún segir það hafa …
Eftir barnsburð upplifði Unnur fæðingarþunglyndi, en hún segir það hafa verið verulega erfitt. „Ég hugsa að þetta langa ógleðitímabil og þessi mikla vanlíðan á meðgöngunni hafi ýtt undir fæðingarþunglyndið,“ segir Unnur. mbl.is/Arnþór Birkisson

Í bráðakeisara á þriðja sólarhring í hríðum

Aðspurð segir Unnur seinni fæðinguna hafa verið mjög erfiða, en hún endaði í bráðakeisara þegar hún var komin á þriðja sólarhring í hríðum. „Ég var send heim af Landspítalanum í þrígang vegna plássleysis, og í þriðja sinn þegar ég neitaði að fara heim aftur þá var ég send á Akranes,“ segir Unnur.

Það er algjörlega fáránlegt að þurfa að lenda í því eftir þessa erfiðu meðgöngu, en ég gæti ekki mælt meira með Akranesi. Það er ótrúlegt fólk sem vinnur þar og ég verð þeim ævinlega þakklát,“ bætir hún við. 

Unnur segir lífið hafa umbreyst gjörsamlega eftir að hún varð móðir. „Ég er ekkert smá stolt unglingamamma, en er ennþá að finna mig í ungbarnamóðurhlutverkinu. Það er svo langt síðan ég gerði þetta síðast. Ég hugsa að svefnleysið sé það sem er erfiðast,“ segir hún. 

Púsl að samtvinna vinnuna og móðurhlutverkið

Í byrjun nóvember frumsýndi Unnur örverkasýninguna ÉG BÝÐ MIG FRAM sem hún leikstýrir. Aðspurð segir hún það vera töluvert púsl að samtvinna vinnuna og móðurhlutverkið. „Það er eins gott að ég eigi svona góðan kærasta sem stendur mér við hlið. Hann er alveg frábær, en án hans ætti ég ekki séns og þá væri ég ekki að setja upp svona stórar sýningar,“ segir Unnur. 

„Í örverkasýningunni býð ég listamönnum úr ólíkum áttum til samstarfs. Útkoman er óvenjuleg leikhúsupplifun, suðupottur nýrra hugmynda og eins konar smáréttaveisla fyrir áhorfendur. Þetta er verulega skemmtileg kvöldstund þar sem hlutir koma sífellt á óvart,“ segir Unnur og bætir við að í sýningunni séu leikverk, dansverk, sirkuslist, myndlist og mikil tónlist. „Allt er þetta tvinnað saman í heildstæða sýningu og áhorfandanum leiðist ekki í sekúndu.“

Þetta er í fjórða sinn sem Unnur setur hátíðina upp, en að þessu sinni segir hún útgangspunkt sýningarinnar vera Nýr heimur. „Í ár fjallar sýningin um ólíka heima og heimsenda, á persónulegum eða hnattrænum skala,“ útskýrir Unnur. 

Fyrsta og þriðja sýning Unnar hlutu tilnefningar til Grímunnar og …
Fyrsta og þriðja sýning Unnar hlutu tilnefningar til Grímunnar og önnur sýningin var valin sýning ársins á Reykjavík Fringe Festival. Ljósmynd/Leifur Wilberg

„Það er ekkert eðlilegt við það að gubba 25 sinnum á dag“

Unnur deilir upplifun sinni af HG heilkenninu í einu af örverkunum. „Þar flyt ég verk með Berglindi Höllu Elíasdóttur, leikkonu, sem fjallar um meðgöngur okkar beggja og hve ólíkar þær voru. Verkið er í senn húmorískt og sárt,“ segir Unnur. 

„Mér finnst skipta miklu máli að þessar raddir fái að heyrast og löngu kominn tími til að eitthvað verði gert til þess að ófrískum konum líði betur á meðgöngunni. Þeim er alltaf sagt að harka bara af sér, en það er ekkert eðlilegt við það að gubba 25 sinnum á dag og geta ekki farið fram úr rúminu í fimm mánuði. Ímyndið ykkur bara hvernig það er að vera með gubbupest í 20 vikur - það eru 140 dagar,“ bætir hún við. 

Mynd úr örverkaleiksýningunni.
Mynd úr örverkaleiksýningunni. Ljósmynd/Leifur Wilberg

Næsta sýning verður 8. desember næstkomandi í Tjarnarbíó, en miðasala er í fullum gangi á tix.is

Ljósmynd/Leifur Wilberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert