Vill fá greitt fyrir að „passa“ börnin þegar eiginkonan fer út

Ljósmynd/Unsplash/Kelli McClintock

Maður nokkur í Bretlandi hefur sett Internetið á hliðina eftir að hann deildi færslu á Reddit. Þar sagðist hann vera orðinn þreyttur á því að þurfa að „passa“ börnin sín á meðan eiginkona hans væri ekki heima, og að hann vilji fá greitt fyrir „byrðina.“

Í færslunni útskýrir maðurinn að eiginkonu hans þyki gaman að horfa á hryllingsmyndir, en það sé áhugamál sem þau hjónin deili ekki. Hins vegar hafi nágranni þeirra sömu ástríðu fyrir hryllingsmyndum og því hafi þau tekið upp á því að fara saman í bíó.

Hann segir þau einnig horfa á myndir saman heima hjá nágrannanum, og að nágranninn sé nú farinn að bjóða eiginkonu hans út að borða. Maðurinn virtist þó ekki kippa sér upp við það og hefur því meiri áhyggjur af álaginu sem hann verður undir vegna „barnapössunarinnar.“

Eðlilegt að fá greitt fyrir að hugsa um eigin börn?

Maðurinn ákvað að viðra þá hugmynd við eiginkonu sína og nágranna að fá greitt fyrir að „passa“ börnin þegar þau færu út. Hann segir konuna ekki hafa tekið vel í það, en nágrannanum hafi hins vegar haft aðra skoðun á hugmyndinni. 

„Nágranninn minn var sammála því að þetta væri of mikið álag fyrir mig og bauðst til að byrja að borga mér venjulegt barnapíugjald í hvert skipti sem hann fer út með konunni minni,“ skrifaði maðurinn. 

„Þetta kallast uppeldi, ekki barnapössun“

Maðurinn hlaut mikla gagnrýni þar sem athugasemdir streymdu inn á færsluna. Notendur gagnrýndu viðhorf hans harðlega og sögðu það að gæta eigin barns kallast uppeldi en ekki barnapössun. 

Þá streymdu athugasemdum um samband eiginkonu hans við nágrannann inn þar sem margir sögðu það nokkuð ljóst að hún væri komin með nýjan elskhuga. Í færslunni segist maðurinn vera feginn að nágranninn bjóði eiginkonunni út að borða því þá þurfi hann ekki að borga fyrir matinn hennar, en það viðhorf virtist einnig reita marga til reiði í ummælunum. 

mbl.is