Þriðja barnið komið í heiminn eftir meint framhjáhald

Behati Prinsloo og Adam Levine hafa nú tekið á móti …
Behati Prinsloo og Adam Levine hafa nú tekið á móti sínu þriðja barni saman. AFP

Fyrrverandi Victoria's Secret-fyrirsætan Behati Prinsloo og söngvarinn Adam Levine tóku nýverið á móti sínu þriðja barni saman. Hjónin voru áberandi í fjölmiðlum í september síðastliðnum, en stuttu eftir að fréttir bárust af því að þau ættu von á sínu þriðja barni stigu fimm konur fram og sögðu frá meintu framhjáhaldi Levine. 

Fyrirsætan Summer Stroh var fyrsta konan sem steig fram, en hún opnaði sig á samfélagsmiðlinum TikTok og sagðist hafa átt í áralöngu ástarsambandi svið söngvarann. Stuttu síðar stigu fleiri konur fram og sögðu frá óviðeigandi hegðun söngvarans.

Viðurkenndi dómgreindarleysi en ekki framhjáhald

Prinsloo og Levine kynntust árið 2012 og giftu sig árið 2014. Fyrir eiga þau tvær dætur, þær Dusty Rosa og Gio Grace.

Alls voru fimm konur sem stigu fram og sökuðu Levine um afar óviðeigandi hegðun og samskipti, en Levine neitaði því alfarið að hafa haldið framhjá eiginkonu sinni. Söngvarinn viðurkenndi þó að hafa sýnt dómgreindarleysi í samskiptum sínum við konurnar.

mbl.is