Miðaldra kona rústar Fossavatnsgöngunni

Pistlahöfundur ásamt þeim Hrafnhildi Tryggvadóttur og Hildi Guðbjörnsdóttur.
Pistlahöfundur ásamt þeim Hrafnhildi Tryggvadóttur og Hildi Guðbjörnsdóttur. Ljósmynd/Róbert Marshall

 „The holy grail“ í skíðagöngu á Íslandi. Þegar nær dró fór þetta að líta verr og verr út. Hitabylgja á Ísafirði og snjórinn að hverfa. Hvað yrði um gönguna, yrði hún farin, voru stífar æfingar síðan í desember til einskis? Ísfirðingar deyja ekki ráðalausir og þeir breyttu bara planinu. Gangan var stytt í 42 km og í staðinn fyrir einn langan hring yrðu gengnir tveir 21 km hringir. Startinu var breytt og dauðabrekkan datt út sem sem og 7 km lokabrunið. Í staðinn kom fljótandi start sem þýddi að það mátti bara byrja hvenær sem var á bilinu 8-10 um morguninn. Rúsínan í pylsuendanum, ÞAÐ VERÐA ENGIN TÍMAMÖRK. Fyrir konu sem hóf sinn gönguskíðaferil fyrir 5 mánuðum var þetta eins og lottóvinningur. Engin tímamörk, ég var búin að kvíða þeim ansi mikið. Hversu glatað að vera búin að ganga 35 km og lenda svo á reipi þar sem þú náðir ekki að klára þetta á 5 klst. Dauðabrekkan var búin að vefjast heilmikið fyrir mér og svo 7 km brun í lokin, var bara ekkert viss um hvernig ég myndi tækla það. Það mátti nefnilega ekki taka af sér skíðin og labba niður enda yrði ég mögulega ansi lengi að tölta þessa 7 km þegar lærin væru komin í steik eftir að hafa gengið 43 km og orðin rosalega rosalega, rosalega þreytt. Ég þuldi möntruna mína oft á dag, ekki hugsa, bara gera og ég vissi að þetta myndi allt reddast. Ég vissi bara ekki að almættið myndir redda mér. Það er kannski rétt að taka það fram að það voru alls ekkert allir svona ánægðir með þessar breytingar. Eins og þeir sem voru að keppa að verðlaunasæti og voru búnir að æfa aðeins lengur en ég eða í svona 20-30 ár.

Landvættahópur Ferðafélags Íslands saman komin.
Landvættahópur Ferðafélags Íslands saman komin. Ljósmynd/Aðsend

Eftir að hafa verið fullheitt í síðustu 2 keppnum, Bláfjallagöngunni og Fljótamótinu, þá ákvað ég að fjárfesta í nýjum galla fyrir Fossavatnsgönguna. Við vorum nokkrar Landvættapíur úr Landvættaprógrammi Ferðafélags Íslands sem gistum á Hótel Sigló og eftir Fljótamótið skelltum við okkur í heita pottinn á hótelinu. Þar rákumst við á Halldór, eiganda Fjallakofans og fórum yfir gallavandræði okkar. Hann tjáði okkur að það væri von á nýrri sendingu af gönguskíðagöllum fljótlega eftir páska. Ég kíkti í Fjallakofann vikuna fyrir mót. Þá var komin ný sending og ég fékk sérfræðing Fjallakofans til að aðstoða mig. Eftir stutt spjall kom í ljós að þetta var Sævar Birgisson, einn af okkar bestu gönguskíðamönnum. Búinn að fara margoft á Olympíuleikana og margfaldur Íslandsmeistari og að norðan eins og ég. Reyndar frá Ólafsfirði og Skagafirði en ég ákvað að líta framhjá því smáatriði. Við norðanmenn stöndum saman. Svo var hann líka samkeppandi minn úr Fljótunum. Eftir að hafa skoðað hvað kom til greina prófaði ég einn galla. Þá kom upp kuldakvíðinn minn upp. Veistu mér finnst þetta rosalega þunnur galli. Þetta er akkúrat þykktin sem við keppum í á Olympíuleikunum, já ok, en ég er aðeins lengur en þú í brautinni. Það má vel vera sagði Sævar, en við fáum þá líka meiri vindkælingu á móti. Ég mátaði gallann og hann smellpassaði. Fyrir konu sem var tæp 100 kg fyrir 2 árum, eða korteri eins og mér finnst stundum, þá er ótrúlega gaman að passa allt í einu í föt í medium og small. Mér fannst því mikilvægt að hafa heildarlúkkið í lagi og bað því um húfu og gleraugu í stíl. Því það má sko bæta upp skort á hraða og tækni með góðu heildarlúkki. Bætti reyndar við, ég er í vandræðum með þessar húfur, þær myndast alltaf svo illa. Hvað með eyrnaband, sagði þá Olympíufarinn, jú prófum það. Ég vissi ekki hvert hann ætlaði þegar ég setti á mig eyrnabandið. Þú átt ekki að setja það svona á þig og sýndi mér réttu leiðina. Ó, það var ekkert vandræðalegt að átta sig á því að í 50 ár hef ég notað eyrnaband vitlaust, ekki skrýtið þó að þau hafi líka myndast svona illa. Ekki tók betra við þegar ég setti á mig gleraugun. Nei, þau eiga að fara yfir eyrnabandið, ha, yfir, detta þau þá ekki af. Nei, alls ekki, það eru ALLIR með þau svona. Já, ok, allir nema ég.

Pistlahöfundur að lokinni Fossavatnsgöngu.
Pistlahöfundur að lokinni Fossavatnsgöngu. Ljósmynd/Hrafnhildur Tryggvadóttir

Ég keypti síðan ullarundirföt undir gallann, þrátt fyrir að Sævar hefði reynt að sannfæra mig um að ég þyrfti þess ekki. Þegar ég var að borga á kassanum, þá sagði Halldór. Það er ekkert mál að skila ef þú notar ekki eitthvað af þessu. Ég sá leiðtoga landvættanna Róbert Marshall og Kjartan Long fyrir mér, Ásdís, það er betra að vera kalt í startinu en stikna í keppninni. Það var ekki fyrr en ég sá Brynhildi Ólafsdóttir yfirleiðtoga okkar Landvættanna fyrir mér segja, hvað sem þið gerið þá prófið þið EKKERT nýtt í keppninni að ég ákvað að undirullarfötin yrðu skilin eftir. Ég hafði nefnilega aldrei gengið í ullarundirfötum og ekki átt svoleiðis síðan var ég svona 5 ára þannig að ég vissi ekkert hvernig mér myndi líða í þeim.

Þar sem við Sævar erum samkeppendur og í raun keppinautar, bara ekki í sama aldursflokki, ákvað ég að skoða tímana hans aðeins og fara í smá samanburðarrannsóknir á okkur.

Hann vann Fljótamótið á 1.20,29, ég kom rétt á eftir honum á 3.16.20

Hann var 19.28 mínútur að ganga 5 KM, ég var 48.01 km eða næstum því jafnlengi að hann var að taka 15 KM. Hins vegar þegar við berum saman aldur og æfingaferil þá kem ég miklu betur út. Hann er búinn að ganga á gönguskíðum í tæpa 3 áratugi, ég rétt rúmlega 3 mánuði. Ég á inni tugprósentabætingu þannig að þegar við mætumst næst í Fljótamótinu þá mun ég hafa bætt mig um 20-30%, hann verður ennþá bara á sama tíma eða svipuðum og síðast. Það eru reyndar mjög litlar líkur á því að ég verði mikið aftar á næsta Fljótamóti þar sem ég var 3ja síðustu af þeim sem kom í mark og það verða pottþétt einhverjir nýbyrjaðir á skíðum sem ég get stólað á að taki þessi sæti.

Þegar við skoðum tölfræðina betur, þá er Sævar búinn að æfa í 444 mánuði, ég er í 4. Þegar við deilum tímanum okkar í æfingamánuði kemur í ljós að hans hraðastuðull er 0,18 per æfingamánuð en minn er 0,02. Þannig að miðað við þessa dæmigerðu höfðatöluútreikninga kem ég bara rosalega vel út. Þegar ég hafði reiknað þetta út, þá fór ég nú bara full sjálfstrausts í Fossavatnið. Ég meina, ég á miklu meira inni en Olympíufararnir. Það er alltaf góðs viti.

Brynhildur sendi okkur reglulega pósta um hvað þarf að gera og passa. Það var mikil áhersla lögð á að klippa táneglurnar, líklega af einhverri biturri reynslu hjá einhverjum. Mitt vandamál er að eftir að ég byrjaði að æfa þá hef ég aldrei haft svona ljótar táneglur. Þær eru marðar, brotnar og hreinlega í klessu. Þannig að með þjóðhagslega hagsmuni í huga þá hafa þær alltaf verið lakkaðar eftir að minn íþróttaferill hófst. Ég hef bara sætt mig við að annað hvort verð ég með fallegar tær eða í formi. Það er víst ekki hægt að velja bæði. Kvöldið fyrir mót, fattaði ég að táneglurnar voru sannarlega klipptar, en þær voru ólakkaðar. Ekki prufa neitt nýtt mantran hennar Brynhildar í kollinum þannig að eitt það síðasta sem ég gerði var að lakka neglurnar. Ég hafði sko aldrei gengið með ólakkaðar táneglur og ætlaði ekki að prófa það fyrst í Fossavatnsgöngunni. Hún lagði líka mikla áherslu á að undirbúa okkur vel, vera með verkjatöflur svona til öryggis. Þegar ég var að pakka niður um kvöldið sá ég að hafði tekið með magabólgupillur og frunsumeðal en ekkert parkódín. Um kvöldið kom líka í ljós að hárspreyið mitt var hárfroða, en þetta voru allt smáatriði sem var hægt að redda.

Þegar kemur að undirbúningi á ég til að verða pínu stressuð. Sumir eru búnir að liggja yfir brautinni, skoða brekkur upp og niður og reikna út á hvaða meðalhraða þú þarft að ganga til að ná þessum tíma. Ég treysti mér ekki í það. Ég hef bara ekki reynsluna í þessa útreikningana og þeir stressa mig mjög mikið. Hvað ef ég geng of hægt miðað við eitthvað plan og verð stressuð og keyri mig út til að ná í eitthvað sem ég veit ekki hvort að sé raunhæft. Mitt plan fyrir Fossavatnið var því mjög einfalt. Fara í gallann, setja á mig skíðin, fara í rásmarkið, leggja af stað og lifa af.

Mikið stuð og stemmning. Fv. Guðlaug Steinsdóttir, Lilja Margrét Olsen, …
Mikið stuð og stemmning. Fv. Guðlaug Steinsdóttir, Lilja Margrét Olsen, Sóley Elíasdóttir, Karen Þórólfsdóttir, Margrét Jónsdóttir Njarðvík, Guðrún Harpa Bjarndadóttir og Hrönn Marinósdóttir að lokinni keppni. Ljósmynd/Erlendur Pálsson

Svo rann upp 4. maí. Það var margt sem vann með mér. Þetta var 4. maí eða MAY THE FORTH BE WITH YOU. Þarna sá ég fyrir mér að ég fengi auka orku frá Yoda vini mínum. Mitt númer var 300, alveg eins og í myndinni um Spartverjanna. Ég var að fara að rústa þessari Fossavatnsgöngu.

Ég svaf illa um nóttina, ég er alltaf stressuð fyrir mót. Ég vaknaði þreytt, illt í kálfunum og maganum. Ég setti á mig númerið og fann stresshnútinn í maganum aukast verulega. Veðrið var ömurlegt, það var kalt, hvasst og þoka. Fallega Fossavatnsgangan var að breytast í martröð. Við fengum okkur morgunmat og fórum upp að rútu sem keyrði alla að mótsstað. Mér féllust eiginlega hendur. Þarna var ég bæði í Primaloft úlpu og utanyfirbuxum og ég var að frjósa. Afhverju skildi ég ullarnærfötin eftir heima? Ég á eftir að frjósa í hel, verða úti á heiðinni. Rakst á Sævar samkeppanda minn og nefndi þetta við hann. Það var sama svarið og hjá öllum hinum. Ásdís, það er betra að vera kalt í startinu en stikna í 42 km. Við Hilda vinkona, sem er búin að vera mín stoð og stytta í gegnum gönguskíðaæfingarnar rifum okkur úr hlífðarfatnaðinum og skelltum okkur í rásmarkið. Fyrstu kílómetrarnir voru pínu erfiðir, það var vindur, það var fok í andlitið en svo bara allt í einu snarbreyttist veðrið og það varð algjörlega fullkomið. Ekki of heitt, ekki of kalt, bara alveg mátulegt. Gangan sjálf varð svo miklu betri en ég þorði að vona. Mér leið vel fyrstu 40 km. Brautin var mjög skemmtileg og umhverfið stórbrotið. Brekkurnar sem höfðu verið mín mesta ógn urðu vinkonur mínar. Það var auðvelt að labba upp þær og ég náði fullkomnu bruni niður hverja og einustu. Í seinni hringnum var ég farin að taka framúr fólki í bruni. Í mínum viltustu draumum hefði ég aldrei getað ímyndað mér að þegar ég steig í fyrsta skipti á gönguskíði þann 6. desember 2018 og lét brekkurnar næstum því buga mig að þær yrðu vinkonur mínar. Að ég myndi njóta þess að bruna niður brekkur. Það var á því augnabliki sem ég saknaði þess að fá ekki að takast á við síðustu 7 km brunið í Fossavatnsgöngunni. Það verður bara gert 2020. Stór hluti af því hversu vel mér leið var að ég var í fyrsta skipti í hárréttum galla. Mér varð aldrei of heitt eða kalt, mér leið bara fullkomnlega allan tímann. Ég stoppaði á hverri orkustöð og fékk mér orku. Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert á ævinni.

Síðustu kílómetrarnir voru þó ansi erfiðir. Mig grunaði helst að Ísfirðingar hefðu ruglast í mælingum. Það var rosalega stutt á milli merkinga þegar ég sá 15,16 og 17 km en þegar það voru bara 3 km eftir, þá gekk ég og gekk og gekk og aldrei kom skiltið. Undir lokin leið mér eins og ég væri á ísbjarnarveiðum á Svalbarða. Sporið var farið að hverfa, rennslið undir skíðunum orðið mjög takmarkað þannig að skíðin voru meira eins og risastórar þrúgur heldur en gönguskíði. Ég var orðin þreytt og bakpokinn var farinn að taka verulega í, ég ímyndaði mér svona svipað og að vera með þunga byssu á bakinu, eina sem vantaði voru bara ísbirnirnir.

Ég átti voðalega lítið eftir þegar ég kom í mark, María Magnúsdóttir verðandi Landvættur tók framúr mér á síðustu metrunum. Ég hefði ekki getað náð henni þó líf mitt lægi við. Orkan var búin, hún kláraðist á 40 km. Þegar ég lít til baka þá er ég að springa úr stolti. Ég gat þetta og naut þess í ofanálag. Ég er komin á þann stað að ég elska að hreyfa mig. Það lengsta sem ég hafði gengið áður en ég fór í Fossavatnsgönguna voru 25 km þannig að þegar því var náð þá var hvert skref það lengsta sem ég hafði gengið á ævinni. Í göngunni fann ég fullt af nýjum vöðvum sem hvorki ég né líkami minn vissum að við ættum en þetta voru fagnaðarfundir.

Mitt markmið var að ganga á 6.10, og verða ekki í neðstu 50 sætunum. Ég varð í 529 sæti af 605 eða 76 neðsta sæti á tímanum 5.42,10. Þetta segir bara að það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Að koma í mark og fá verðlaunapeninginn um hálsins er ólýsanleg tilfinning. Að klára gönguna sem ég er búin að æfa fyrir í nokkra mánuði og alltaf verið pínu stressuð að ég gæti ekki klárað, það er ekki hægt að lýsa þessari upplifun. Þessi tilfinning að þú gast þetta, að þú getur svo miklu meira en þú heldur og það eina sem þarf að gera er bara að fara af stað.

Eftir gönguna skelltum við okkur á kaffihlaðborð Ísfirðinga. Miðað við brennsluna í göngunni þá hefði ég getað étið 30 hnallþórur og samt átt nóg eftir. Um kvöldið var síðan matur og ball og það kom mér skemmtilega á óvart að geta farið í háa hæla eftir gönguna.

Hvað er næst á dagskrá. Er skíðagönguferlinum lokið? Síður en svo, þetta er sú íþrótt sem ég hef fundið mig langbest í. Næsta tímabil fer í massívar tækniæfingar til að bæta hraðann og taka svo 50 km Fossavatnsgöngu á næsta ári sem og 2 skíðagöngur í World Loppet Goldmaster, enda er ég ekki nema 9 göngum frá því að klára það. Þetta eru sem sagt 10 viðurkenndar skíðagöngur sem þarf að ganga í 2 heimsálfum. Eins og máltækið segir, hálfnað er verk þá hafið er.

Einnig er ég að skoða að láta flytja mig upp um flokk. Það voru bara 2 konur í aldrinum 66+ ára flokknum og því hefði ég nelgt inn 3ja sætið. Að auki var hvorug íslensk þannig að ég hefði unnið íslenska flokkinn. Það er bara spurning um að finna út úr því.

Ef það væri ekki fyrir Landvættaprógrammið þá væri ég ekki komið í þetta form sem ég er í. Ef það væri ekki fyrir alla sem koma að því, bæði fararstjórar og forsvarsmenn sem og samlandvætti þá gæti ég ekki klárað allt sem ég hef klárað. Þetta er einstakur félagsskapur og ég er svo þakklátt fyrir að hafa þorað að taka stökkið og hent mér í djúpu laugina. Fyrir Fossavatnið fengum við öll bláa hettupeysu merkta Landvættum. Þetta er fyrsta íþróttaliðspeysan mín. Það er sko alveg hægt að byrja að æfa með liði eftir 50 ára.

Hvað þarf til að verða Landvættur? Það eru ákveðnar grunnkröfur. Ein af þeim er að geta hlaupið 10 km á 90 mínútum þegar þú byrjar. Það er í raun ótrúlega lítið mál. Í lok apríl 2018 gat ég ekki hlaupið og sótti mér hlaupaapp sem heitir 10 km. Í ágúst 2018 gat ég hlaupið 10 km á rúmum klst. Síðan er bara að njóta að stækka þægindarammann sem og ferðalagsins og félagsskaparins. Þetta snýst nefnilega ótrúlega mikið um félagsskapinn. Það voru ófáir sem ráðlögðu mér að fara ekki í Landvættina. Ég væri bara ekki í formi fyrir svona átök. Við eigum bara einn líkama, ofþjálfun er hættuleg og þetta tæki bara alltof mikinn tíma. Þetta voru allt aðilar sem meintu vel, því ég hef oft lagt af stað í vegferð og klúðrað því og gefist upp. Ég var sannarlega á báðum áttum hvort að ég ætti að fara. Það var ekki fyrr en ég hringdi í Örnu Torfadóttur kunningjakonu mína sem hafði klárað Landvættinn í fyrra að ég sannfærðist að ég gæti þetta. Hún sagði, þetta er vinna og tími en þú getur þetta ef þú vilt þetta.

6 ráð fyrir verðandi íþróttahetjur.

1. Það er enginn sem veit hvað þú getur nema þú. Ef þú færð „góð“ ráð um að sleppa einhverju þá má hunsa þau

2. Þetta er eitt skref í einu. Þetta er langhlaup ekki spretthlaup

3. Hvíld er líka æfing. Ef þú ert þreytt/ur eftir æfingu þá má sleppa næstu. Planið er aldrei meitlað í stein.

4. Settu þér markmið, og finndu svo út hvernig á að ná þeim

5. Það má klikka og byrja aftur eins oft og þarf.

6. Góður fatnaður er gulls ígildi. Þetta lærði ég í Fossavatnsgöngunni.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með Ásdísi Ósk má fylgja henni á Instagram: asdisoskvals

mbl.is