12 kíló farin í sólinni

Pálmi Guðmundsson nýtur lífsins í Los Cristianos en dvölin úti …
Pálmi Guðmundsson nýtur lífsins í Los Cristianos en dvölin úti á Tenerife hefur haft mjög jákvæð áhrif á heilsu hans. Ljósmynd/Pálmi Guðmundsson

Ljósmyndarinn Pálmi Guðmundsson flutti til Tenerife fyrir hálfu ári síðan. Hann kann vel við sig á eyjunni en óvæntur fylgifiskur dvalarinnar er betri heilsa. Lund og líkami hefur aldrei verið léttari né blóðþrýstingurinn betri.


„Áður en ég flutti út hreyfði ég mig mjög lítið og fór allt á bíl. Eftir að ég flutti hingað út, geng ég á hverjum einasta degi að meðaltali um 3 km. á dag. Ég hef misst 12 kíló og blóðþrýstingurinn hefur aldrei verið lægri, sem er mikil breyting frá því sem áður var, þar sem ég hef verið að berjast við of háan blóðþrýsting. Auk þess hefur þolið aukist talsvert og liðverkir hafa snarminnkað og mér líður miklu betur, bæði líkamlega og andlega,“ segir Pálmi þegar hann er inntur eftir áhrifunum sem dvölin úti hefur haft á hann.

Útsýnið af svölunum hjá Pálma í Los Cristianos.
Útsýnið af svölunum hjá Pálma í Los Cristianos. Ljósmyndi/Pálmi Guðmundsson

Sól, gönguferðir og vatnsdrykkja

Pálmi segir þessar breytingar eiginlega bara hafa gerst af sjálfu sér, hann hafi ekki farið í neitt meðvitað átak en hann viðurkennir þó að áhugi hans á hollara líferni hafi ágerst eftir að hann flutti út. Þakkar hann sambland af sól, hita, hreyfingu og aukinni vatnsdrykkju árangurinn.
„Ég er ekki á bíl og fer því fótgangandi hér um allt en nota strætó fyrir lengri ferðir. Ég reyni að fara í lengri gönguferðir a.m.k. einu sinni í viku og svo nokkrar styttri ferðir. Lengsta gönguferðin á árinu var rúmlega 8 km, en þetta er engar þrælagöngur, mest á jafnsléttu. Ég drekk mikið af vatni sem ég gerði ekki áður. Ég reyni að forðast sykur og önnur kolvetni. Ég hef tekið út allt brauð, en leyfi mér þó stöku sinnum að fá mér eitthvað gott með kaffinu. Svo borða ég nokkuð mikið af ávöxtum, enda eru þeir svo ferskir hér.“

Flutti einn út og þekkti engan

Pálmi hefur komið nálægt ýmsu um dagana. Hann hefur lengst af starfað við ljósmyndun, meðal annars staðið fyrir vinsælum ljósmyndanámskeiðum. Eins rak hann Stúdíó Bimbó á Akureyri og var einnig plötusnúður í Sjallanum. En hvernig kom það til að hann flutti til Tenerife? „Það eru nokkrar ástæður fyrir þessari stóru ákvörðun minni. Ég hef ljósmyndað mikið gegnum tíðina og sumarið sunnanlands 2017 og 2018 var alveg hundleiðinlegt til myndatöku, veðrið var ekki upp á marga fiska. Námskeiðahald var á undanhaldi og ég vildi breyta til og prófa eitthvað nýtt og komast í sól og hita. Það tók aðeins 20 daga frá því að ég tók ákvörðum að flytja þar til að ég var kominn í leiguíbúð á Tenerife. Þetta var svolítið skrítið fyrstu vikuna, ég einn á nýjum stað, þar sem ég þekkti engan.“

Pálmi býr í bænum Los Cristianos. Hann heldur úti sérsíðu …
Pálmi býr í bænum Los Cristianos. Hann heldur úti sérsíðu á Facebook þar sem hann birtir myndir frá bænum. Síðan heitir Los Cristianos Ljósmynd/Pálmi Guðmundsson

Los Cristianos eins og Akureyri

Pálmi býr í bænum Los Cristianos á suðurhluta eyjunnar og hefur kynnst mörgum á svæðinu, bæði Íslendingum sem þar búa sem og innfæddum.
„Hér búa um 22 þúsund manns. Bærinn minnir mig aðeins á Akureyri; með göngugötu í miðbænum og þar fyrir neðan er höfnin, þar sem sjá má skemmtibáta og flutningaskip. Þar er líka frábær sólarströnd. Ég sé alls ekki eftir því að hafa flutt. Veðráttan er frábær. Á þessu hálfa ári frá því að ég flutti hefur aðeins rignt í 3-4 daga. Hitinn hefur farið aðeins yfir 30 gráðurnar og niður í 16 gráður á nóttunni í desember. En langoftast er þetta 23 – 29 stig sem mér finnst alveg frábært. Svo er oftast smá vindur sem hjálpar til að kæla aðeins í mestu hitunum.“
- Hvernig er týpískur dagur hjá þér?  
„Það eru engir tveir dagar eins. Ég fæ mér þó alltaf einn bolla af góðu Starbuck kaffi á svölunum í morgunsárið, skoða fréttir frá Íslandi, fer aðeins á Facebook og skoða tölvupóstinn. Þá er komið að morgunmatnum sem samanstendur eggjum, beikoni og ávöxtum. Svo er misjafnt hvað tekur við næst. Oft þarf ég að svara tölvupóstum, vinna við fjarnámskeið í ljósmyndun og við aðrar vefsíður. Annars rölti ég oft á eitthvað kaffihús í miðbænum og fæ mér einn cappucchino. Stundum skrepp ég í verslun til að kaupa nauðsynjavörur, eða sest á bekk og fylgist með mannlífinu sem er ansi fjölbreytt, enda koma hingað um ein milljón ferðamanna til Los Cristianos. Svo kemur fyrir að ég skelli mér á ströndina og ligg þar í kannski 3-4 tíma. Seinnipartinn geri ég kláran kvöldverð eða fer á veitingahús, sem nóg er af bæði hér í miðbænum og víða í Los Cristianos. Eftir kvöldmat vinn ég aðeins í tölvunni og þá oftast í sambandi við ljósmyndir. Ég horfi lítið á sjónvarp en læt tónlist oft rúlla í bakgrunni þegar ég er að vinna. Hér á Tenerife eru nokkrir íslenskir barir og t.d. á Nostalgígu er boðið upp á fisk á mánudögum og lambakjöt á föstudögum, sem maður reynir að mæta á. Einnig komum við þar saman vikulega á fimmtudögum til að taka í spil, því það er nauðsynlegt að hitta íslendinga til að spjalla. Auk þess hringi ég reglulega heim í ættingja mína og vini.“

Sólsetrið á Tenerife er fallegt og hefur Pálmi tekið ófáar …
Sólsetrið á Tenerife er fallegt og hefur Pálmi tekið ófáar myndir af því. Ljósmynd/Pálmi Guðmundsson

Fallegt myndefni á Tenerife

Myndavélin er aldrei langt undan hjá Pálma en hann hefur verið afar duglegur við að fanga mannlífið í Los Cristianos, mynda sólarlagið og annað fallegt sem fyrir augu ber á eyjunni. "Ég fer í ljósmyndaferðir í hverri viku og nota strætó þó nokkuð sem er mjög ódýrt," segir Pálmi sem er mjög sáttur með lífið í sólinni.  „Ég fer vikulega í apótekið, en þar er fullkominn mælibúnaður sem mælir þyngd, hæð, blóðþrýsting og púls. Þetta fæ ég svo útprentað og get borið saman við síðustu miða. Ég fagna þegar ég sé að kílóum fer fækkandi.“
- Ertu með einhver heilsutengd markmið fyrir árið 2020?
„Ég ætla að hreyfa mig enn meira, mæta í þessa flottu líkamsræktarstöð sem er hér í nágrenninu, stunda sólböðin oftar og láta mér líða vel. Hugsa bæði um líkama og sál.“

Frá höfuðborginni Santa Cruz. Pálmi er ekki á bíl en …
Frá höfuðborginni Santa Cruz. Pálmi er ekki á bíl en fer þess í stað allra sinna ferða gangandi og notar strætó í lengri ferðir. Ljósmynd/Pálmi Guðmundsson
Pálmi gengur að meðaltali 3 km á dag. Daglegar gönguferðir …
Pálmi gengur að meðaltali 3 km á dag. Daglegar gönguferðir og mikil vatnsdrykkja hafa gert það að verkum að blóðþrýstingur Pálma hefur lækkað og hann er orðinn mun léttari á sér. Ljósmynd/Pálmi Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert