Föst á Balí og veit ekki hvenær hún kemst heim

Sóldís Alda er föst á Balí og veit ekki hvenær …
Sóldís Alda er föst á Balí og veit ekki hvenær hún kemst heim. Ljósmynd/Aðsend

Sóldís Alda Óskarsdóttir er ein af þeim Íslendingum sem fastir eru á Balí í Indónesíu um þessar mundir. Hún veit ekki hvenær eða hvernig hún kemst heim frá Balí en lítið framboð er af flugferðum heim til Íslands. 

Hún segir að þrátt fyrir að vera föst á Balí þá sé hún í ágætismálum. Sóldís lagði upp í bakpokaferðalag um heiminn eins síns liðs 1. mars. Þrátt fyrir að vera ein á ferðalagi er hún búin að kynnast fullt af fólki og á hostelinu með henni eru tveir Bretar, einn Bandaríkjamaður og einn Úkrani.

„Við erum öll föst hérna og erum í rauninni bara eins og lítil fjölskylda, reynum að halda okkur eins mikið og við getum á hostelinu og einangra okkur. Erum búin að setja upp litla rækt á þakinu, þar sem ræktar hér eru lokaðar, höfum verið að nota kókoshnetur sem lóð og erum bara að reyna að gera gott úr þessu öllu. Einhverjir veitingastaðir hafa verið að loka og búið að mælast til þess að fólk sé ekki að fara út nema það þurfi,“ segir Sólrún í viðtali við mbl.is. 

Ljósmynd/Aðsend

Hún var ekki með neitt ákveðið plan þegar hún lagði upp í ferðalagið en hafði hugsað sér að dvelja nokkrar vikur á Balí, fara svo yfir til Víetnam, Taílands, Laos eða Kambódíu. Hún átti svo bókað flug heim frá Bangkok 8. maí. 

Þegar ég var búin að vera um það bil tvær vikur á Balí fór ég að huga að því að bóka næsta flug, til Víetnam. Um það leyti byrjaði hins vegar ástandið í mörgum löndum hér í Asíu að versna, meðal annars í Víetnam, ég sá að það var verið að loka mörgum af vinsælustu túristastöðunum þar, til dæmis Halong Bay. Ég ákvað því að fara ekki þangað – en á þessum tíma virtist ástandið hér á Balí vera betra og maður varð í rauninni ekki var við að neitt væri í gangi svona fyrstu 2 vikurnar sem ég var hér.

Þetta breyttist svo mjög hratt og mörg lönd fóru að loka landmærum sínum á stuttum tíma svo ég ákvað að vera aðeins áfram á Balí, þetta er í þriðja skiptið sem ég kem til Balí svo ég þekki mig vel hérna og er með ágætistengslanet, og bóka þá bara flug heim ef ástandið hér færi að versna – sem svo gerðist. Það var nokkrum eyjum hér fyrir utan Balí, sem eru vinsælir túristastaðir, lokað í kringum 15. mars og allir sendir þaðan, það var uppi orðrómur um að það ætti svo að loka Bali mjög fljótlega í kjölfarið en það hefur ekki enn gerst,“ segir Sóldís.

Aðspurð af hverju hún ákvað að reyna að halda heim á leið fyrr en áætlað var segir Sóldís að henni hafi ekki lengur fundist hún örugg.

„Þó að Balí sé einn af mínum uppáhaldsstöðum þá hefur hún sína galla og heilbrigðiskerfið hér er til dæmis ekki það besta. Andrúmsloftið breyttist líka mjög mikið bara á örfáum dögum – fyrstu vikurnar talaði enginn um þessa veiru og ef ég hefði ekki lesið fréttir hefði ég eflaust ekki vitað að það væri einhver veira að setja heiminn á hliðina, þetta breyttist svo eins og ég sagði mjög snöggt og hostelin fóru frá því að vera full af fólki sem var bara að njóta þess að vera í fríi, í að allir voru annað hvort í símanum eða tölvunni að reyna að ná sambandi við sendiráð, flugfélög eða að reyna að finna flug heim til sín,“ segir Sóldís. 

Ljósmynd/Aðsend

 

Hún bókaði því flug heim til Íslands í gegnum Bangkok. Daginn fyrir áætlaða heimferð voru settar nýjar reglur í Taílandi og þurftu allir erlendir ríkisborgarar að sýna staðfestingu á sjúkratryggingu, læknisvottorð og einnig staðfestingu um að vera ekki smitaður af kórónuveirunni. 

Hún eyddi því hálfum degi í að þræða mismunandi spítala til að fá læknisvottorð og staðfestingu á að hún væri ekki smituð af kórónuveirunni. „En hér á Bali er hins vegar í fyrsta lagi mjög lítið til af pinnum til að taka sýni, svo þeir fáu sem eru til eru að sjálfsögðu notaðir fyrir þá sem sýna einhver einkenni, en ekki fyrir fólk sem virkar alveg heilbrigt og þarf að komast í eitthvert flug.

Hér er heldur ekki aðstaða til að greina sýni svo þau sýni sem eru tekin hér eru send til Jakarta og greind þar svo þó svo að ég hefði geta farið í COVID test þá hefðu niðurstöður aldrei legið fyrir daginn eftir, eða áður en ég fór í flugið. Ég ákvað samt að mæta upp á flugvöll og láta reyna á þetta.

Þegar ég mætti upp á völl voru örugglega svona 300 manns mættir í röð við check-in-borðið, nánast bara fólk frá evrópu sem var á leiðinni heim. Það varð svo hálfgert uppreisnarástand þarna þar sem þeir hleyptu engum um borð sem var ekki með COVID-19-test, það var ekki ein einasta manneskja með það test enda ekki hægt að fá það hér, fólk reyndi að rökræða við starfsfólkið á misrólegum nótum enda vildu allir komast heim til sín, það þýddi hins vegar ekkert og var engum hleypt um borð nema svona fjórum manneskjum sem voru með taílenskt vegabréf,“ segir Sóldís. 

„Ég er örugglega búin að vera í meira sambandi við utanríkisráðuneytið síðustu viku en nokkurn annan, þau eru búin að vera ótrúlega hjálpleg og veit að þau eru að vinna í einhverri lausn á að koma mér, og a.m.k. 30 öðrum Íslendingum sem eru fastir hérna, í flug heim,“ segir Sóldís. Hún hefur sjálf skoðað þau fáu flug sem eru í boði en yfirleitt er millilent í einhverju landi sem er búið að loka landamærum sínum, eins og Singapúr, Hong Kong, Bangkok og Dúbaí.

„Ég vona að ég komist heim núna á næstu viku en miðað við flugframboð er ég hins vegar alveg búin undir að vera hérna eitthvað lengur,“ segir Sóldís. Hægt er að fylgjast með Sóldísi á Instagram og skyggnast inn í líf þeirra sem eru fastir á Balí um þessar mundir. 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert