Þetta myndi Greipur gera á Austfjörðum

Greipur Gíslason verkefnastjóri kann að meta Austfirði. Þessi mynd er …
Greipur Gíslason verkefnastjóri kann að meta Austfirði. Þessi mynd er tekin á Seyðisfirði.

Greipur Gíslason verkefnastjóri þekkir Austfirðina vel þótt hann sé ættaður frá Vestfjörðum og búi í Reykjavík. Ferðavefurinn fékk að forvitnast um hvað honum þykir bitastæðast á þessu svæði. 

Ef þú værir að fara á Austfirðina, hvað myndir þú gera?

„Austfirðir eru ótrúlegir, svo fallegir og fjöllin mögnuð. Ég ólst upp á Vestfjörðum og fjöllin þar eru rosaleg en samt er ótrúlegur samanburðurinn. Þessir tindar og þetta landslag. Svo það er nærtækast að stunda náttúruskoðun fyrir austan. Nánast hvar sem maður drepur niður fæti er eitthvað að sjá. Þó Lón geti varla talist til Austfjarða þá má alveg telja það með þeim og allt norður í Vopnafjörð sem er heldur ekki einn af Austfjörðunum eru fallegar fjörur, góðar gönguleiðir milli dala, víkna og fjarða. Ég myndi því fara í góða gönguferð, uppúr þokunni og horfa í allar áttir á tinda sem stingast uppúr allt um kring.“

Hvar myndir þú gista?

„Ég get stoltur sagst eiga sterkar rætur í Berufirði og gisti hann því oft. Fyrir nokkru átti ég leið austur síðla hausts og gisti þá í nýuppgerðum fjárhúsunum á Karlsstöðum. Þar var búið að koma haganlega fyrir fullbúnu gistiheimili. Ekki skemmir svo tónleikadagskráin í Havarí.

Ef ég væri ekki í Berufirði myndi ég vilja gista á Öldunni á Seyðisfirði. Svo sjarmerandi hús í þessum fallega bæ.“

Hvaða mat myndir þú borða?

„Það er vel þess virði að keyra dágóðan spöl fyrir máltíð á Randulffssjóhúsi á Eskifirði. Ekki bara er maturinn frábær heldur húsið áhugavert og gutlið í sjónum undir og allt um kring róandi. Manni líður næstum eins og Salka Valka gæti gengið inn.“

Hvert ert best geymda leyndarmál Austfjarða?

„Tja. Það er örugglega betur geymt en svo að ég viti það. En ef ég á að nefna eitthvað þá verð ég að nefna birtuna á Vopnafirði. Hún getur verið ótrúleg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert