Garðabær er uppáhaldsstaðurinn á Íslandi

Guðni segir mikilvægt að ferðast um Ísland í sumar.
Guðni segir mikilvægt að ferðast um Ísland í sumar. mbl.is/Arnar Birkisson

Guðni Gunnarsson, stofnandi og upphafsmaður Rope Yoga og GlóMotion-hugmyndafræðinnar, er á því að fólk sé að lifa um efni fram þegar kemur að lífinu almennt. Hann hvetur alla til að skoða ferðalög inn á við en einnig í nærumhverfinu. Hann ferðaðist talsvert í sumar þótt ferðalögin hans hafi ekki verið langt frá heimilinu. 

Eru ferðalög innanlands góður kostur að þínu mati?

„Ferðalög á Íslandi eru mjög góður kostur að mínu mati, sérstaklega á tímum umbreytinga og áskorana. Ísland er stórkostlegt land á allan máta og ég tel mikilvægt að við upplifum þá mögnuðu uppbyggingu sem hefur átt sér stað í ferðamannaþjónustunni. Mig grunar að flest okkar hafi ekki uppgötvað hana fyrr en í sumar.

Þó að við séum flest sammála um að innviðir þurfi á styrkingu að halda og sé tímabær þá fyllist ég lotningu þegar ég sé og upplifi þá uppbyggingu sem nú þegar hefur átt sér stað. Þar á ég við hótel, önnur gistirými, afþreyingu, fræðslu og sérstaklega þá matarmenningu sem við Íslendingar höfum þróað svo eitthvað sé nefnt. Það virðist nánast sama hvert er farið; alls staðar eru kræsingar á heimsmælikvarða í boði. Við þurfum ekki að ferðast til annarra landa í leit að afþreyingu eða fjölbreytni því hér er allt til alls og miklu meira en það. Þá er ég ekki að mæla á móti því að við kynnum okkur menningu og arfleið annarra þjóða en það er kominn tími til að upplifa þessa dýrmætu perlu, Ísland í öllum sínum skrúða.“

Hverjir eru uppáhaldsstaðirnir þínir?

„Garðabær er það fyrsta sem kemur upp í hugann. Við Guðlaug konan mín vorum í nokkurs konar fríi í júlí og notuðum þann tíma vel til hvíldar og styrkingar. Við höfum stórkostlega sundlaug ásamt fyrirmyndarþjónustu bæði í verslun og matargerð í Garðabæ sem og næsta umhverfi sem við nýttum okkur vel. Við höfðum reyndar ákveðið að leyfa veðrinu að ráða því hvert á land við færum en vorum svo nærð og ánægð með þá aðstöðu sem við höfum í okkar nánasta umhverfi til gönguferða og annarrar útiveru að minna var um ferðalög. En við heimsóttum reyndar tvisvar Snæfellsnes og dvöldum í viku í Stykkishólmi í nokkurs konar æfingabúðum, þar sem útivera, æfingar og hreinsandi mataræði var í fyrirrúmi. Þá fórum við einnig í styttri ferðir um Suðurlandið. Sama hvert var komið, þá var allt til fyrirmyndar og fegurð lands og manna hjartnæm.“

Hverju mælirðu með að fólk hugi að í sumarfríinu?

„Ég mæli helst með því að breyta um umhverfi og komast í snertingu við náttúruna hvar sem fólk er til að vera til staðar, hlaða, endurnæra og hvíla, þá sértaklega hugarfar og viðhorf. Fyrir mig er mikilvægast að fara út úr venjulegum ferlum í nýtt rými, annan hugsanahátt eða menningu. Ég er meira fyrir sumarfrí þar sem ég er virkur í að sem dæmi æfa, synda og hreyfa mig í jafnvægi við hvíld og afþreyingu og vel mér fríi þar sem ég stunda sama lífsstíl og ég stunda reglulega en í öðru umhverfi. Skíði eru sem dæmi í miklu uppáhaldi hjá mér ásamt vatnaíþróttum eins og stöðubretti, kajak og smærri bátum. Það sem ég tel þó mikilvægast er jarðtenging, snerting við móður jörð sem hjálpar okkur að losa uppsafnaða spennu og gleyma daglegu amstri þannig að maður mæti aftur á vettvang starfs síns endurnýjaður og áhugasamur. Ísland er paradís fyrir þessa hleðslu og endurnæringu þar sem ósnortin náttúran í öllum sínum fjölbreytileika bíður upp á óendanlega möguleika í afþreyingu, örvun, næringu og hvíld.“

Guðni íhugar mikið tilgang lífsins.
Guðni íhugar mikið tilgang lífsins. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hvað hefur komið þér á óvart tengt sumrinu?

„Að maður þurfi ekki að fara til að koma. Það að vilja sig núna, þar sem maður er, er alltaf verðug áskorun og oft hefur maður verið upptekinn af því að fara og gera eitthvað í stað þess að vera og njóta. Það er heilmikil orka, tími og fjármunir sem fara í að fara eitthvað, vera á ferðinni og oft leitum við langt yfir skammt. Oft erum við fjarverandi eða viðutan í stað þess að vera og njóta. Ég nefndi að áðan að við hefðum verið í nokkurskonar fríi. Við Guðlaug tókum ákvörðum um að halda áfram með hugleiðslur á morgnana sem við byrjuðum á í upphafi Covid-faraldursins. Við byrjuðum á að senda út hugleiðslur á hverjum morgni en fórum í þrisvar sinnum í viku þegar að fyrsta opnun átti sér stað. Ég fann hins vegar að þessi þjónusta nærði mig og hvíldi á ýmsum sviðum. Í raun meira en mér hafði dottið í hug. Það að gefa er að þiggja og er nærandi fyrir sálina. Þessi þjónusta gaf mér mikið og samfélagið sem skapaðist í kringum hugleiðslurnar er mér dýrmætt.“

Gerðir þú eitthvað í sumar sem þú ætlar ekki að gera aftur?

„Það kemur ekkert sérstakt upp í hugann því ég eins og aðrir geri það sem ég geri af því að ég vel það. Mínar gjörðir í sumar voru margar nærandi og því ætla ég að halda áfram. Svo svarið við spurningunni er nei en ég gæti farið aðrar leiðir og gert sömu hlutina öðruvísi.“

Skiptir miklu máli að ná heilsunni góðri í fríinu?

„Ég tel að við berum ábyrgð á eigin velferð og heilsu okkar en spurningin er talsvert hlaðin, hún gefur í skyn að maður hafi misst heilsu, sé ekki hraustur eða sé laskaður. Sumarfrí er vissulega tækifæri til að endurnýja og endurnæra líkamann og tilvist, tæma hugann, fylla hjartað af andagift og hvíla sig með því að breyta um áherslur og umhverfi. Hvers vegna erum við svona löskuð? Er möguleiki að við séum að lifa um efni fram, andlega, tilfinningalega, líkamlega og fjárhagslega og ef svo er, þá er sumarfríið góður tími til að rifja upp hvað gefur lífinu gildi, hvað það er sem hvetur okkur til dáða, hver tilgangurinn okkar er. Það er alveg ljóst að við þurfum að hirða okkur allt árið í kring, næra okkur af kostgæfni, hugleiða og hreyfa okkur af skynsemi til að viðhalda orku, úthaldi og áræðni. Vissulega getur sumarfríið verið vettvangur sjálfsskoðunar þar sem það rifjast upp fyrir manni hvað það er sem skiptir máli í þessu lífi eins og t.d. samvera við fjölskyldu, vini og félaga. Að sumarfríið sé notað til uppgjörs og áætlunargerðar þar sem maður skilgreini hvað maður vill og hvernig maður vill lifa og gefa af sér.“

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Veturinn leggst mjög vel í mig. Ég veit að það eru og verða margar áskoranir á vegi okkar í vetur. Ég kýs að horfa á þetta björtum augum og sjá í þessu tækifæri. Við þurfum öll að breyta um hugarfar og hegðun gagnvart okkur sjálfum og jörðinni sem er forsenda okkar tilvistar. Tækifærið er að skilja að við stöndum frammi fyrir breyttri tilvist, að það verður ekkert eins aftur. Spurningin er hins vegar hvort við ætlum að veita því athygli sem við viljum sjá og þannig skapa bjarta framtíð fyrir komandi kynslóðir eða hvort við ætlum að stinga höfðinu í sandinn og veita því athygli sem við viljum ekki. Við breytum engu með áframhaldandi ótta og ásökunum í okkar garð eða annarra. Hingað erum við komin. Spurningin er: Hvert viljum við fara héðan og hvað viljum við gera, skapa núna? Manneskjan er tækifærið. Við breytum ekki jörðinni nema að breyta okkur. Við getum ekki hafnað okkur til heilsu eða velsældar. Við getum hins vegar auðveldlega viljað okkur og elskað því þannig gerast kraftaverk. Við verðum kraftaverk.

Mitt framlag í þessa umræðu er að vekja athygli á tækifærunum sem í henni liggja og leggja mitt af mörkum til lausnar og velsældar.“

Við þurfum að vilja okkur sjálf alltaf að mati Guðna. …
Við þurfum að vilja okkur sjálf alltaf að mati Guðna. Það er kannski kjarninn í öllum ferðalögum. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert