Hvernig stjörnurnar komust til Evrópu

Brad Pitt var í Frakklandi.
Brad Pitt var í Frakklandi. AFP

Beyoncé fagnaði á dögunum 39 ára afmæli sínu um borð í lúxussnekkju við strendur Króatíu. Owen Wilson og Magic Johnson hafa einnig verið í fríi í Króatíu. Margir hafa velt vöngum yfir því hvernig þessar bandarísku stjörnur hafa komist til Evrópu en landamæri Evrópu hafa verið lokuð gagnvart Bandaríkjamönnum vegna kórónuveirufaraldursins síðan í mars. 

Ferðatakmarkanir Evrópusambandsins eru til leiðsagnar aðildarríkjum þess og svo virðist sem Króatía hafi aðeins mildari afstöðu til bandarískra ferðamanna en önnur lönd. Þar er aðeins krafist neikvæðs Covid-prófs við komuna til landsins. Króatía varð því vinsæll áfangastaður í sumar og um fjórar milljónir túrista komu þangað í júlí og ágúst en af þeim voru aðeins um 20 þúsund Bandaríkjamenn. Í kjölfarið jókst þó smit og önnur lönd fóru að vara við ferðalögum til Króatíu.

Þá hefur Brad Pitt verið á ferðalagi í Frakklandi með nýrri kærustu sinni, Nicole Poturalski. Poturalski er þýsk þannig að hún hefur getað ferðast um Evrópu án vandkvæða. Pitt er hins vegar talinn hafa fengið undanþágu vegna mikilvægra starfa en hann á Chateau Miraval og framleiðir rósakampavín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert