Bar-Inn á Tenerife lokað

Inga Ragna Skúladóttir hefur rekið Bar-Inn á Tenerife síðan 2019. …
Inga Ragna Skúladóttir hefur rekið Bar-Inn á Tenerife síðan 2019. Nú hefur hún selt reksturinn. Ljósmynd/Guðrún Vala Elísdóttir

Hinn íslenski Bar-Inn í Los Cristianos á Tenerife lokar dyrum sínum annað kvöld. Eigandi barsins, Inga Ragna Skúladóttir, segir í samtali við mbl.is að ástæðan sé skortur á ferðamönnum. 

„Ég er búin að borga með rekstrinum frá því að útgöngubannið var sett á og það eru því miður takmörk fyrir því hvað hægt er að blæða peningum,“ segir Inga. 

Bar-Inn hefur verið vinsæll meðal Íslendinga á Tenerife. Ingibjörg seldi rekstur barsins og því mun áfram verða bar þar sem Bar-inn var. Hann verður þó ekki í eigu Íslendinga. 

„Allt mitt sparifé er uppurið og þess vegna varð ég að selja. Ég viðurkenni að ég hefði viljað komast hjá því og halda áfram, en ég átti bara ekki meiri pening til að henda í hítina meðan ég beið eftir að ástandið batnaði,“ segir Inga. 

Inga opnaði Bar-Inn ásamt eiginmanni sínum Guðmundi Guðbjartssyni árið 2019. Guðmundur lést í ársbyrjun 2020 og hefur því Inga staðið í rekstrinum ein síðan þá. 

mbl.is