Héldu sig til hlés frá öðrum Everest-förum

Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sigurðsson stefna á topp …
Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sigurðsson stefna á topp Everest í maí. Ljósmynd/Aðsend

Fjallgöngumennirnir Heimir Fann­ar Hall­gríms­son og Sig­urður Bjarni Sveins­son búa sig nú und­ir að klífa Ev­erest til styrktar Umhyggju. Árný Ingvarsdóttir hjá Umhyggju talaði við félagana fyrir nokkrum dögum og þá voru þeir stálslegnir en óttast er að nýbylgja af kórónuveirufaraldrinum sé að breiðast út meðal Everest-fara. 

„Ég heyrði í Sigga fyrir nokkrum dögum og þá voru þeir stálslegnir en héldu sig þó aðeins til hlés að mér skildist frá hinum vegna fréttanna af smiti í grunnbúðunum,“ segir Árný sem veit ekki betur en þeir stefni ótrauðir á toppinn.

Heimir og Sigurður hafa verið í hæðaraðlögun og gist bæði í búðum eitt og tvö. Þeir eru duglegir að greina frá ferðalagi sínu á hæsta tind heims á samfélagsmiðlum og sögðu frá því í gær að þeir hefðu farið í upp í tæplega sjö þúsund metra hæð til þess að venja líkamann við enn minna súrefni. 

Uppfært klukkan 12:20: Blaðamaður náði sambandi við Sigurð og Heimi rétt eftir hádegi: 

„Við höfum einangrað okkur frá öðrum búðum og erum stálhraustir og tilbúnir að takast á við tindinn þegar veðurgluggi opnast. Núna erum við bara í hvíld í grunnbúðum og höfum ekki viljað færa okkur neðar í dalnum í meira súrefni út af hættu við að hitta aðra í neðri þorpum Khumbu-dalsins. Við metum hvern dag sem líður en hugsanlega munum við taka alla okkar hvíld í grunnbúðum þar sem heilsan hefur verið góð og áhættan mikil að færa sig neðar. Stefnan er að reyna toppa fyrir 20. maí nk. ef veðurfar opnar á þá áætlun. Við erum spenntir og tilbúnir í verkefnið og á meðan vinnum við efni fyrir söfnun Umhyggju - félags langveikra barna.“

mbl.is