Bjóða upp flugvélarsæti

Qantas býður sætin á uppboði á meðal vildarklúbbsmeðlima.
Qantas býður sætin á uppboði á meðal vildarklúbbsmeðlima. AFP

Ástralska flugfélagið Qantas Airlines ætlar að bjóða lúxussæti af fyrsta farrými á uppboði bráðlega. Um er að ræða sæti sem hægt er að leggja alveg niður og sofa í. Sætin eru úr A380-vélum flugfélagsins. 

Sætin fara á uppboð 5. ágúst næstkomandi á vef Qantas og þurfa þeir sem vilja bjóða í sætin að vera búsettir í Ástralíu og vera í vildarklúbbi Qantas. Þá þarf líka að kaupa tvö sæti í einu. 

Sjónvörpin í sætunum virka ekki nema í vélinni en hægt er að kaupa sér millistykki til að spila efni. Lægsta boð hefst í 350.000 vildarpunktum og fer til hæstbjóðanda. 

A380-vélar Qantas eru svokallaðar risaþotur og eru sæti fyrir allt að 853 farþega um borð í þeim. Vélarnar hafa þó ekki verið vinsælar í heimsfaraldrinum og standa nú auðar á flugvelli í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Fyrir heimsfaraldur voru þær ekki svo vinsælar heldur og ákvað framleiðandi vélanna að hætta að framleiða þær árið 2019. 

CNN Travel

mbl.is