Tvísýnt um opnun jólamarkaða í Þýsklandi

Jólamarkaðir í Berlín eru flestir hverjir opnir.
Jólamarkaðir í Berlín eru flestir hverjir opnir. AFP

Jólamarkaðurinn á Gendarmentorgi í höfuðborg Þýskalands, Berlín, var opnaður í gær. Markaðurinn er einn af fáum sem verða opnir þessi jólin vegna fjórðu bylgju kórónuveirunnar sem nú geisar í landinu.

Enginn jólamarkaður í Þýskalandi var opinn á síðasta ári vegna veirunnar og verða sumir stórir markaðir ekki opnaðir heldur fyrir jólin í ár. Þjóðverjar eru þekktir fyrir sína fallegu og stóru jólamarkaði og sækja margir landið heim meðal annars í þeim tilgangi að fara á jólamarkað. 

Í Saxlandi og Bæjaralandi var ákveðið að opna jólamarkaðina ekki. Þar er staðan á faraldrinum hvað verst og hertar samkomutakmarkanir voru kynntar í Bæjaralandi fyrir helgi. Þar mega nú aðeins fimm frá tveimur heimilum koma saman. 

Ekki allt lokað

Þótt jólamarkaðurinn á Gendarmenmarkt sé opinn eru ekki allir jólamarkaðir í Berlín opnir. Charlottenberghallarmarkaðurinn verður ekki opnaður fyrir jólin en sú ákvörðun var tekin um miðjan október. 

Í Aachen í Norðurrín-Vestfalíu er jólamarkaður borgarinnar opinn. Um hann gildir svokölluð 2G-regla sem Þjóðverjar hafa komið sér upp. Í henni felst að fólk þarf að sýna bólusetningarvottorð eða vottorð um að hafa náð sér af Covid-19-sjúkdómnum. Slík regla er einnig í gildi á Gendarmenmarkt-jólamarkaðnum. 

Lokun jólamarkaðanna er þungt högg fyrir viðskiptamenn sem byggja afkomu sína að stórum hluta á mörkuðum. Verslunarmaður sem ætlaði að taka þátt í Christkindlmarkt í München sagði fréttamiðlinum DW að hann hefði verið í óðaönn að gera allt tilbúið þegar fréttirnar bárust. 

„Þegar fréttirnar bárust um að markaðnum hefði verið aflýst stóðum við öll saman á markaðstorginu og báðum. Jafnvel stóru strákarnir á lyfturunum voru með tár á hvarmi, því flest höfum við ekki hugmynd um hvernig við eigum að sjá fyrir fjölskyldum okkar,“ sagði verslunarmaðurinn Christian Schöttl.

2G reglan er í gildi á flestum jólamörkuðum.
2G reglan er í gildi á flestum jólamörkuðum. AFP
mbl.is