Erna trúlofaði sig á strönd í Mexíkó

Erna Viktoría Jansdóttir flugfreyja elskar að ferðast.
Erna Viktoría Jansdóttir flugfreyja elskar að ferðast. Ljósmynd/Aðsend

Erna Viktoría Jansdóttir flugfreyja er mikill heimsborgari. Hún fer oft til Kaupmannahafnar þar sem hún ólst upp en hún elskar líka æsinginn og fjölbreytnina í New York. Ein eftirlætisferðaminning hennar er frá Mexíkó þar sem hún og eiginmaður hennar, Kristján Jóhannesson, trúlofuðu sig. 

„Ég er mjög opin fyrir öllu. Mér finnst frábært að uppgötva nýja staði og siði hverju sinni en finnst líka æðislegt að fara á staði sem ég þekki vel og þar af leiðandi hægt er að slaka bara vel á og njóta. Engin pressa endilega að sjá og gera og þjóta út um allt,“ segir Erna þegar hún lýsir því hvernig ferðalögum hún er hrifin af. 

Erna hefur starfað sem flugfreyja hjá Icealandair í um sjö ár. 

„Þetta var alltaf draumurinn frá því að ég var lítil og ekkert annað flugfélag kom til greina en Icelandair. Ég er fædd og uppalin í Kaupmannahöfn og flaug oft til Íslands í heimsókn ein. Það var alltaf tekið svo vel á móti manni í vélinni og freyjurnar alltaf svo vinalegar og pössuðu vel upp á mann. Ég leit upp til þeirra. Mér þykir starfið mjög skemmtilegt, það er mjög fjölbreytt og enginn dagur er eins. Einnig hentar vaktavinnan mér líka vel,“ segir Erna sem stundar nám í Miðlun og almannatengslum við Háskólann á Bifröst og á tvö börn og hund. 

Erna og Kristján í indversku brúðkaupi í Los Angeles.
Erna og Kristján í indversku brúðkaupi í Los Angeles. Ljósmynd/Aðsend

Hafa ferðavenjur þínar breyst í heimsfaraldrinum? 

„Já, ferðaplönin manns fóru auðvitað á „hold“ í smá stund en ég fann ákveðna kyrrð í öllu þessu skrýtna ástandi. Ég fór að meta landið okkar mun betur og þá sérstaklega nærumhverfi höfuðborgarsvæðisins, ég fann meðal annars ótal nýjar göngu- og hlaupaleiðir. Bústaðaferðir urðu fleiri, ég var dugleg að fara í fjallgöngur með vinkonum og byrjaði að fara út að hlaupa. Ég áttaði mig á því á að það er miklu skemmtilegra að hlaupa úti en inni á hlaupabrettinu. Ég tók svo tvisvar hringinn í kringum landið og naut þess í botn. Ísland er svo frábært og fallegt land með svo mikla orku.“

Erna fór tvisvar hringinn í heimsfaraldrinum.
Erna fór tvisvar hringinn í heimsfaraldrinum. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsstað á Ísland? 

„Sumarbústaðurinn hjá tengdaforeldrum mínum sem er staðsettur rétt fyrir utan Selfoss er minn griðastaður. Það er enginn annar bústaður nálægt og landið er stórt og ævintýralegt. Mig langar svo rosalega að fara til Ísafjarðar og nágrenni næsta sumar. Ég á eftir að skoða og upplifa Vestfirðina enn betur.“

Erna dvelur reglulega í sumarbústað tengdarforeldra sinna rétt hjá Selfossi.
Erna dvelur reglulega í sumarbústað tengdarforeldra sinna rétt hjá Selfossi. Ljósmynd/Aðsend

Hver er eftirminnilegasta ferð sem þú hefur farið í?

„Klárlega þegar ég og maðurinn minn fórum í indverskt brúðkaup á ströndinni í LA árið 2019. Þvílík upplifun, ég tel mig mjög lánsama að hafa fengið að upplifa það. Þriggja daga gleði og við kynntumst fullt af nýju og skemmtilegu fólki alls staðar að úr heiminum. Það var gaman að fá að taka þátt í allt öðruvísi brúðkaupsvenjum en maður er vanur hérna heima. Við hjónin gerðum svo aðeins meira úr ferðinni, leigðum bíl og fórum í „road trip“. Við komum við á nokkrum stöðum í leiðinni og gistum og enduðum svo ferðina í Vegas.

Mexíkó á líka sérstakan stað í hjarta mínu enda trúlofuðum við Kristján okkur á ströndinni í CanCun.“

Erna og Kristján trúlofuðu sig í Mexíkó.
Erna og Kristján trúlofuðu sig í Mexíkó. Ljósmynd/Aðsend

Hvar hefur þú fengið besta matinn erlendis?

„Grænmetismaturinn í indverska brúðkaupinu sem boðin var upp á í hádeginu daginn sem vígslan fór fram stendur klárlega upp úr. Einn besti matur sem ég hef smakkað. Einnig klikkaði sjaldan maturinn sem við pöntuðum okkar þegar við vinkonurnar vorum í Marrakesh í þrítugsferðinni okkar. Ég hlakka til að fara þangað aftur sem fyrst. Sú ferð var líka bara svo mikil snilld frá upphafi til enda.“

Erna og vinkonur fóru til Marokkó þegar þær urðu þrítuguar.
Erna og vinkonur fóru til Marokkó þegar þær urðu þrítuguar. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsstað í útlöndum? 

„Ég elska æsinginn sem fylgir New York. Það er svo mikið af fólki og alltaf hægt að gera eitthvað, ævintýri sem bíður á næsta götuhorni. Það eru svo mörg mismunandi hverfi, þannig það er ekkert mál að komast í burtu í meiri kyrrð, setja tónlist í eyrun og gleyma sér. Kaupmannahöfn stendur samt alltaf upp úr og ég elska að fara þangað og bara njóta. Tala dönsku og heimsækja kunnuglega staði úr æsku.“

Hvað skiptir máli til þess að líða vel í flugi?

„Ég er mjög dugleg að hreyfa mig og borða hollt. Fer snemma upp í rúm og reyni að ná góðum nætursvefni. Bý mér alltaf til nesti og drekk góðan grænan djús á morgnana. Þannig set ég tóninn fyrir daginn. Finnst gott að vakna aðeins fyrr og eiga meiri tíma og þurfa ekki endilega að flýta mér. Svo tek ég alltaf með engifer og sítrónu sem ég hef djúsað og blanda við grænt te duft og set út í vatn. Drekk nóg af því og verð þá ekki útþaninn né þrútin eftir flug. Þegar ég er sjálf farþegi horfi ég á bíómyndir og vel að vera utan þjónustusvæðis um stund.“

Erna fer reglulega í gegnum Leifsstöð í vinnunni en hér …
Erna fer reglulega í gegnum Leifsstöð í vinnunni en hér er hún með fjölskyldunni, Kristjáni, Elísabetu Írenu og Jóhannesi Ingva. Ljósmynd/Aðsend

Ætlar þú að ferðast í vetur? 

„Það eru nokkur ferðaplön á döfinni en miðað við hvernig ástandið er verð ég að sjá til. Tek einn dag í einu. Ég náði þó að hoppa til Parísar í október sem var fyrsta fríið til útlanda lengi. Ég lifi á þeirri ferð og það var ótrúlega gott að komast aðeins út. París er líka bara svo falleg og rómantísk. Einnig fékk ég frábært veður sem er ekkert endilega sjálfsagt á þessum árstíma.

Svo skrapp ég til Köben með strákinn minn í desember. Ég kom honum á óvart, sótti hann í skólann og beint upp á völl. Ég held að hann hafi sjaldan verið eins glaður og hissa. Bara ég og hann tvö saman í nokkra daga að njóta. Það var svo dýrmætt að eiga svona gæðastund saman.“

Hvert dreymir þig um að fara? 

„Mig dreymir eins og er um Balí. Það er planið að fara þangað í haust og vera í burtu í lengri tíma og bara njóta. En ætli tíminn verður ekki að leiða það í ljós hvort það verði á þessu ári eða næsta.“

París er rómantísk og falleg að mati Ernu.
París er rómantísk og falleg að mati Ernu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert