Lottó vinsælla en bingó á Ítalíu

Berglind ásamt dóttur sinni.
Berglind ásamt dóttur sinni. Ljósmynd/Aðsend

Berglind Magnúsdóttir er búsett á Ítalíu ásamt fjölskyldu sinni. Þar reka Berglind og unnusti hennar hótelið Abbazia San Faust­ino sem staðsett er í Umbria-héraði, skammt fyrir utan Toscana. Berglind segir lífið á Ítalíu ansi notalegt. Þar sé bæði hlýtt og sólríkt og andrúmsloftið afslappað. Á tímum sem þessum segist Berglind hugsa extra mikið heim með vegna Söngvakeppninnar sem nú er í fullum gangi en hún starfaði lengi bakvið tjöldin þar sem hún setti handbragð sitt á atriðin í keppninni. Þá segir hún Ítalina vera mikla spilaþjóð, þeir eigi það til að grípa í handspil þegar rými til þess gefst en hún segir þá ekki síður freista þess að vinna í lottó. 

Berglind starfaði sem sminka hjá RÚV áður en hún flutti til Ítalíu. Segir hún stemninguna í kringum Söngvakeppnina alltaf hafa verið skemmtilega á Íslandi en í fjöldamörg ár sminkaði hún og greiddi þátttakendum keppninnar áður en þeir stigu á stokk.

„Ég vann hjá RÚV í 14 ár og hef nánast tekið þátt í að sminka fyrir Söngvakeppnina öll þau ár. Missti kannski af einu skipti þegar ég eignaðist dóttur mína,“ segir Berglind. „Þetta er alltaf jafn skemmtilegt og ég var svo heppin að fá að sjá um atriðið hennar Gretu og fór með henni út til Svíþjóðar þegar hún keppti í Eurovision árið 2016,“ segir hún. „Ég viðurkenni það að ég hugsa alveg til stelpnanna, förðunarfræðinganna sem eru þarna á bak við,“ segir Berglind og saknar þess að geta tekið þátt í fjörinu og haft áhrif á útlit þátttakendanna. „Þetta er mikil keyrsla en alltaf ótrúlega gaman. Núna nýt ég þess bara að horfa á keppnina með fjögurra ára gamalli dóttur minni sem elskar Eurovision og er fljót að pikka upp lögin og syngja þau hástöfum,“ segir Berglind.   

Berglind Magnúsdóttir nýtur sólarinnar á Ítalíu.
Berglind Magnúsdóttir nýtur sólarinnar á Ítalíu. Ljósmynd/Aðsend

Berglind segir að Ítalir séu ekki jafn Eurovisionsjúkir og Íslendingar. Áhugi þeirra sé mun meiri á forkeppninni heldur er sjálfri Eurovisionhátíðinni. „Í fyrra vorum við fjölskyldan límd við skjáinn en Ítalirnir voru ekkert mikið að spá í þessu. Þeir tala yfirleitt mjög lítið um Eurovision,“ segir hún. „Ekki þangað til að þeir sigruðu keppnina. Þá varð maður var við umfjöllun og þeir voru mjög stoltir af Måneskin. En annars hefðu þeir sennilega ekkert verið að fjalla um Eurovision. Ekki undir neinum öðrum kringumstæðum,“ útskýrir hún. 

„Forkeppnin þeirra heitir Sanremo og þeir eru miklu uppteknari af henni heldur en Eurovisionkeppninni sjálfri. Hún er líka alveg rosalega flott. Hún er í rauninni bara eins og aðalkvöldið á Eurovision, það er það mikið í hana látið. Öllu til tjaldað,“ segir Berglind. „Það horfa allir á Sanremo. Þegar sú keppni er í gangi þá er varla bíll á götunum sko,“ segir hún. „Það er svo bara aukaatriði að sá sem vinnur Sanremo taki þátt í Eurovision,“ segir hún jafnframt og hlær.

Lottómiðar vinsælir á Ítalíu

Síðastliðin tvö ár hefur Berglind og fjölskylda búið á Ítalíu og líkar þeim það vel. Aðspurð segist Berglind ekki hafa rekist á neinn Bingó Bjössa frá því hún fluttist búferlum frá Íslandi til Ítalíu. Þá viti hún heldur ekki til þess að bingóspilasalur, í líkingu við Vinabæ, sé starfræktur þar í landi. „Ég hef ekki orðið vör við það. Hins vegar eru Ítalir miklir lottóspilarar og kaupa sér oft skafmiða og svona,“ segir hún. „Það eru mjög margar litlar sjoppur úti á götuhornum hérna sem selja lottó- og skafmiða, og það eru oft raðir fyrir utan svona sjoppur. Allir að kaupa sér lottómiða,“ segir Berglind og er ekkert að grínast með lottógleði Ítalina sem reyna oft að freista gæfunnar og vonast eftir að detta í lukkupottinn.

„Það er eflaust spilað bingó hérna líka en ég hef ekki verið neitt sérstaklega vör við það líkt og með lottóið,“ segir hún og veltir því jafnvel fyrir sér að skipuleggja og bjóða upp á bingókvöld á hótelinu San Faustino einn góðan veðurdag. 

„Það gæti verið gaman að fá Sigga Gunnars bingóstjóra hingað út til að stjórna bingóinu,“ segir hún í kímni og hlær. 

Ef þú værir fengin til að semja Eurovisionlag sem ætti að fjalla um bingó, hvað myndirðu skíra lagið? 

„Ég hugsa að ég myndi skíra það eftir uppáhalds bingótölunni minni sem er B2,“ segir hin hressa og skemmtilega Berglind.

Bingó, Eurovision og Ítalía í eina sæng í kvöld

Bingó fjölskyldufjörið hér á mbl.is heldur áfram en næstsíðasti bingóþáttur vetrarins verður í beinni útsendingu kl. 19.00 í kvöld, fimmtudaginn 10. mars. Bingóstjórinn Siggi Gunnars er í Eurovisionstuði þessa dagana og er kominn til Ítalíu í huganum. Því verður heilaga þrennan við lýði í kvöld; Bingó, Eurovision og Ítalía. Ekki missa af fjörinu!

Allar nánari upplýsingar um bingóið má nálgast með því að smella hér. 

Siggi Gunnars er alltaf í stuði fyrir BINGÓ og Eurovision.
Siggi Gunnars er alltaf í stuði fyrir BINGÓ og Eurovision. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert