38 ára og sjóðheit í höfuðstöðu á St. Barts

Fyrirsætan Izabel Goulart í jógaæfingum við sundlaugarbakkann.
Fyrirsætan Izabel Goulart í jógaæfingum við sundlaugarbakkann. Samsett mynd

Fyrrverandi Victoria's Secret-fyrirsætan Izabel Goulart byrjaði árið sannarlega með stæl á sundlaugarbakkanum í St Barts. Hún birti nýverið myndskeið af sér þar sem hún gerði jógaæfingar í höfuðstöðu við sundlaugina um leið og hún sleikti sólina. 

Fyrirsætan, sem er 38 ára gömul, er þekkt fyrir að huga vel að heilsu sinni. Af Instagram-færslu hennar að dæma virðist hún ætla að fara inn í nýja árið full af metnaði. 

Trúir ekki á megrun né kúra

Goulart setur hreyfingu og líkamsrækt alltaf í forgang, en hreyfing hefur alla tíð verið stór partur af lífi hennar. Hún segir hreyfingu hafa hjálpað sér að takast á við streitu og ótta, en þegar kemur að hreyfingu leggur hún áherslu á fjölbreytni. 

Fyrirsætan hefur gaman að útivist og stundar ýmist hlaup, jóga og aðra þjálfun utandyra. Þá skiptist hún á að fara í pílates, kikkbox og aðra þjálfun, bæði með og án lóða, innandyra. 

Goulart hugar einnig vel að næringu sinni, en hún segist ekki trúa á megrun né kúra. Í samtali við Vogue sagðist hún elda mikið sjálf heima og reyni þá að gera allt frá grunni með góðu hráefni. Hún heldur mataræði sínu einföldu og leggur áherslu á að næra líkama sinn vel og rétt. 

mbl.is