Gerði rándýr mistök á fyrsta degi í starfi

Flugþjónninn opnaði óvart neyðarútgang.
Flugþjónninn opnaði óvart neyðarútgang. Ljósmynd/Twitter

Flugþjónn nokkur hjá British Airways gerði vandræðaleg og rándýr mistök á fyrsta degi í starfi sínu. Atvikið átti sér stað föstudaginn 13. janúar en mistökin kostuðu flugfélagið um 50 þúsund sterlingspund eða um 8,8 milljónir króna. 

Flugþjónninn opnaði óvart neyðarútgang en í kjölfarið opnaðist uppblásin rennibraut út úr vélinni. 

Þetta gerðist í flugi BA75, sem var á leið frá Heathrow í Bretlandi til Lagos. Gerðist þetta á flugbrautinni og seinkaði fluginu um fjórar klukkustundir. 

Vegna þess að neyðarútgangurinn opnaðist og rennibrautin opnaðist sömuleiðis þurfti að skipta um hana. Því þurfti að skipta um vél fyrir flugtak á meðan unnið var að viðgerðum. 

mbl.is