Jenna Huld hljóp á milli staða á Cinque Terre

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni ætlar fljótlega aftur til …
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni ætlar fljótlega aftur til Cinque Terre á Ítalíu. Hún er lengst til vinstri á myndinni.

Húðlæknirinn Jenna Huld Eysteinsdóttir er nýkomin heim frá Cinque Terre á Ítalíu þar sem hún hljóp á milli fjallaþorpa. Hún er endurnærð eftir ferðina og segir að frí sem sameina hreyfingu og slökun séu langbestu fríin. Næst þegar hún fer til Cinque Terre ætlar hún að taka kærastann sinn með. 

Jenna Huld byrjaði að stunda útihlaup 2011 þegar hún var í sérnámi í Gautaborg. 

„Þá var það mjög góð vinkona mín, hún Dögg Hauksdóttir kvensjúkdómalæknir, sem dreif mig af stað og hef ég alla tíð síðan verið henni mjög þakklát fyrir það. Ég var engin hlaupamanneskja í grunnin, bara tekið þátt í víðavangshlaupum þegar ég var barn og mundi bara eftir vanlíðan og blóðbragði í munninum tengt hlaupum. Ég var því svolítið treg til þegar Dögg stakk upp á þessu en við höfðum markmið, stefndum á að hlaupa miðnæturhlaupið í Gautaborg seinna um sumarið og þá fannst mér þetta einhvern veginn líta betur út þar sem við stefndum á eitthvað, vorum ekki bara að hlaupa til að hlaupa. Mér fannst þetta mjög erfitt í byrjun og hélt einhvern veginn að þetta væri alls ekki fyrir mig en þegar ég komst yfir þennan 3-4 vikna múr þá fór ég að upplifa vellíðunina eftir hlaupin og hve streitulosandi þau eru og góð fyrir hugann líka,“ segir Jenna aðspurð um hvernig þetta hafi allt saman byrjað. 

Í nokkur ár hefur Jenna Huld hlaupið með Náttúruhlaupum og tekið þátt í nokkrum viðburðum á þeirra vegum eins og til dæmis Fimmvörðuháls hlaupinu. 

Hér sést hvað sjórinn er fallegur á litinn.
Hér sést hvað sjórinn er fallegur á litinn.

„Þegar ég sá svo þessa ferð til Cinque Terre og Portofino skagann á Ítalíu auglýsta hjá þeim síðastliðið haust varð strax spennt þar sem mig hefur lengi langað að skoða þetta svæði. Ég ákvað því að skrá mig og var líka svo heppin að mágkona mín ákvað að skella sér líka,“ segir hún en ferðin var skipulög frá A-Ö. 

„Ég þurfti ekkert að spá í neinu, bara mæta til Mílanó á rétta hótelið. Fararstjórarnir í ferðinni, Ingvar Hjartarson og Þóra Bríet Pétursdóttir, voru búnir að hugsa fyrir öllu og voru hreint frábær í alla staði. Það var kærkomin hvíld að mæta í svona skipulagða ferð og fylgja bara fyrirmælum fararstjóranna, möglunarlaust. Þau töldu hópinn nokkrum sinnum á dag og pössuðu að enginn týndist, bæði í skógunum og í lestunum. Okkur fullorðna fólkinu fannst þetta mjög þægilegt að upplifa okkur aftur sem skólakrakka,“ segir hún. 

Hópurinn hljóp í fimm daga og voru dagarnir miserfiðir.
Hópurinn hljóp í fimm daga og voru dagarnir miserfiðir.

Hvernig upplifun er að fara í svona ferð?

„Upplifunin var geggjuð. Yndislegt samferðarfólk og náttúrufegurðin á þessu svæði hreint frábær. Ég get ekki mælt nógu mikið með þessari ferð. Mér finnst svona ferðir út í náttúrunni, þar sem ég sameina hreyfingu og afslöppun, langskemmtilegastar og gefa mér langmest. Upplifunin er svo mikil á hverjum degi að manni líður eins og maður hafi verið margar vikur í burtu, ekki bara nokkra daga. Ítalía er svo falleg, maturinn góður og fólkið vinsamlegt. Hef reynt að stíla fríin mín undanfarin ár inn á Ítalíu og verð aldrei fyrir vonbrigðum. Svona hleður maður batteríin.“

Hvernig æfðir þú þig fyrir ferðalagið?

„Ég reyndi að hlaupa tvo stutt hlaup í miðri viku og svo eitt langt um helgar, þá eitthvað um 10-12 km. Ég hljóp þá oft með vínrauða hópnum í Náttúruhlaupum. Þau eru með bæði æfingahlaup í miðri viku og svo langt upplifunarhlaup á laugardagsmorgnum. Fór svo í lundahlaupið, Puffin Run, í Vestmannaeyjum í byrjun maí til að koma mér vel í gang en það er 20 km hlaup með ágætis hækkunum inn á milli. Einnig hef ég verið að styrkja mig, mætt í ræktina tvisvar til þrisvar í viku í vetur og lyft lóðum hjá honum Gauja í Sporthúsinu. Ég finn að það hefur gert heilmikið fyrir mig og bætt mig í hlaupunum. Allt telur!“

Það þarf að gæta þess að teygja vel á vöðvunum …
Það þarf að gæta þess að teygja vel á vöðvunum þegar hlaupið er mikið í fimm daga í röð.

Hvað varstu að borða á hlaupaferðinni?

„Við tókum með okkur mikið af kolvetnum yfir daginn, þá helst M&M hnetur og hlaup ásamt orkubörum. Oft tek ég inn orkugel þegar ég tek lengri hlaup en finnst ég fá fljótt leið á þeim og þá er gott að maula M&M hnetur eða fá sér nammihlaup í staðinn. Á kvöldin vorum við svo bara að njóta, fengum okkur auðvitað mikið ítalskar pizzur og pasta á kvöldin og yfirleitt renndi ég því niður með ísköldum bjór. Það var mikil kolvetnishleðsla á kvöldin,“ segir hún og hlær. 

Aðspurð að því hvernig hún hafi pakkað fyrir ferðina segist hún hafa tekið með sér tvö pör af hlaupaskóm og gætti þess að hafa föt fyrir hvern dag. 

„Þetta voru fimm hlaupadagar þannig ég pakkaði niður fimm hlaupabolum, stuttermabolum ekki hlýrabolum til að skýla mér betur gegn sólinni, og fimm stuttbuxum/hjólabuxum. Einnig pakkaði ég niður tveimur hlaupapokum til skiptanna og hlaupastöfum sem munar mjög mikið að hafa þegar gengið er upp svona skarpar hækkanir og hlaupið svo niður brattar og grýttar brekkur. Svo voru það sumarkjólar og sandalar fyrir kvöldin. Ég tók tvö pör með mér og sá ekki eftir því. Það er mikill raki á Ítalíu og fötin og skórnir lengi að þorna. Ég reyndi að kæla fæturna í sjónum eftir hvern hlaupadag og þá blotnuðu skórnir yfirleitt alltaf. Þá var gott að eiga þurra skó til skiptanna daginn eftir.“

Ferðin var skipulögð af Náttúruhlaupum og segir Jenna Huld að …
Ferðin var skipulögð af Náttúruhlaupum og segir Jenna Huld að það hafi verið mikill lúxus að þurfa ekki að spá í neinu.

Hvað stóð upp úr?

„Það sem stóð upp úr var þessi náttúrufegurð sem er á þessu svæði, einstakir bæjir í þjóðgarðinum Cinque Terre og svo þessi frábæri félagsskapur í ferðinni. Í svona skipulagðri ferð veistu aldrei hvernig hópurinn raðast saman og var það því óvænt ánægja að hitta allt þetta glaða og orkumikla folk sem var í ferðinni og eignast nýja vini.“

Hafðir þú komið til Cinque Terre áður?

„Nei þetta var í fyrsta skiptið en alls ekki það síðasta. Það er mjög rómantískt þarna og ég er staðráðin í að draga kærastann á þessar slóðir næst.“

Fegurðin er engri lík á svæðinu.
Fegurðin er engri lík á svæðinu.

Hópurinn gisti í Monterosso sem er vestasti bærinn af þessum fimm sem eru í Cinque Terre.

„Það var mjög þægilegt að vera alltaf á sama staðnum. Lestarsamgöngur það góðar á þessu svæði að það var mjög auðvelt að ferðast á milli bæjanna. Við hlupum tvo daga beint frá hótelinu og tókum þá lestina til baka í lok dagsins, en hina dagana byrjuðum við á því að taka lestina til aðliggjandi bæja og hlupum þaðan. Snilldin líka við þessa ferð er að þú gast valið þér erfiðleikastigið auðveldlega þar sem þú gast alltaf tekið lestina tilbaka í öllum stoppum. Einn daginn voru margir sem fóru 10 km, nokkrir 17 km og svo 23 km.“ 

Hvernig verður sumarið hjá þér? Ertu búin að skipuleggja næstu ferð?

„Ég er á leið til Mallorca í fjölskylduferð núna í júní og ætla svo að njóta restinni af sumrinu hér heima á Íslandi. Láta veðrið ráða hvert ég fer. Er svo að skipuleggja næstu hreyfiferð og er mjög heit fyrir svissnesku ölpunum í þetta sinn. Fór í fyrra í ítölsku Dólómítana og árið þar áður kringum Mount Everest og fannst það frábærar ferðir. Til í að skoða þetta svæði enn meira.  Verð svo að segja að ég er mjög heit fyrir annarri hlaupaferð með Náttúruhlaupum þar sem þessi heppnaðist svo vel þannig ætli ég skoði ekki hvað þeir eru með í boði á næstunni.“

Fegurð Cinque Terre-svæðisins er mikil.
Fegurð Cinque Terre-svæðisins er mikil.
mbl.is