„Já, við erum bara tvær“

Kolbrún Kristín er afar virk með Nínu í frítíma þeirra …
Kolbrún Kristín er afar virk með Nínu í frítíma þeirra mæðgna. Haraldur Jónasson/Hari

Á afar blæbrigðaríkum baráttudegi verkalýðsins mælti blaðakona sér mót við Kolbrúnu Kristínu Karlsdóttur, verkefnastjóra vefþróunar hjá Rafrænni þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar, og Nínu dóttur hennar. Dagurinn stærir sig af öllum tegundum veðurs; það skiptist á að vera skýjað, logn, rigning, sól, hvasst, snjór og slydda. Svolítið eins og sumar fjölskyldur, endalausar breytingar og fjölbreytni. Íslensk orðabók Menningarsjóðs segir fjölskyldu einfaldlega vera „foreldrar og börn þeirra“. Vísindavefur HÍ ber þó meira skynbragð á nútímann og segir fyrirbærið fjölskyldu vera „hóp einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem þeir deila saman tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum. Meðlimirnir eru oftast fullorðnar manneskjur af báðum kynjum eða einstaklingur, ásamt barni eða börnum (þeirra). Þau eru skuldbundin hvert öðru í siðferðilegri, gagnkvæmri hollustu“.

Kolbrún Kristín og Nína tilheyra minnstu mögulegu fjölskyldueiningunni, sem er eitt foreldri og eitt barn. Hún segir það að tilheyra lítilli fjölskyldu hafa kosti og galla, eins og allt, en hún upplifi ekki að það vanti neinn. Hins vegar fær hún þau skilaboð oft úr umhverfinu að einhverja vanti. Síðastliðið sumar til dæmis fór litla fjölskyldan í sumarfrí suður á bóginn. Þá var gjarna spurt á veitingastöðum og víðar; „Hvenær koma hinir?“ eða „eruð þið bara tvær??”

„Já“ svaraði Kolbrún alltaf, „við erum tvær“. Hún segist einnig fá þessi viðbrögð hérlendis en þetta hafi verið enn meira áberandi í fríinu á Grikklandi.

Duglegar að sækja sér félagsskap

Aðspurð hvort þetta pirri hana, að fá þessi skilaboð reglulega að einhvern vanti segir hún svo ekki vera. Sér finnist sjálfri engan vanta og að þær tvær séu fín fjölskylda. „Við sækjum okkur bara aukafólk þegar á þarf að halda. Við erum alveg duglegar að mæta stundum í kvöldmat hjá öðru fólki til dæmis og heimsækja fólk ef ég hef þörf fyrir að tala við fleiri en Nínu. Ég fór bústað nýlega með vinkonu minni sem er líka einstæð móðir því það er líka notalegt að hafa einhvern fullorðin að tala við á kvöldin, deila með reynslu, upplifunum og svona. Í sumar fer ég með annarri vinkonu minni til útlanda sem er nýfráskilin og á eitt barn. Mér finnst bara frábært að hafa þetta val,“ segir Kolbrún.

Hinsvegar telur Kolbrún að hugmyndin um fjölskyldur mætti ef til vill vera opnari. Þurfa til dæmis fjölskyldumeðlimir endilega að búa undir sama þaki? Ömmur og afar foreldra eru oft miklir þátttakendur í lífum barna sinna og barnabarna. Einnig systkini foreldranna, sér í lagi ef þau eru sjálf barnlaus. „Við höfum tilhneigingu til að hugsa of ferkantað um það hvað fyrirbærið fjölskylda sé. Við Nína sækjum mikið í okkar nærfjölskyldu, kannski meira en stærri fjölskyldur, af því við erum bara tvær en það fólk er líka hluti af okkur sem fjölskyldu. Bara á annan hátt,“ segir Kolbrún.

Hún er afar virk með dóttur sinni í frítíma þeirra mæðgna. Þær fara mikið á alls kyns viðburði fyrir bæði börn og fullorðna, kaffihús, róló og hitt og þetta. Sumu deilir hún á samfélagsmiðlum og þeir sem þekkja hana þar hafa veitt þessum dugnaði hennar eftirtekt.

„Ég vil miklu frekar gera hluti með henni og skapa góðar minningar heldur en gefa henni marga hluti. Og kannski pósta ég myndum af sumu af því sem við bröllum saman á Instagram til að einmitt deila með fleirum og fá endurgjöf. Af því við erum bara tvær.“

Langt ferli fékk góðan endi

Nína kom ekki fljúgandi í fangið á Kolbrúnu og þess vegna er hún ef til vill enn betur meðvituð en margir foreldrar um hvílíkt kraftaverk hvert barn er og hve tíminn er dýrmætur með henni. Hún segist hafa verið orðin 33 ára árið 2009 og ekki í sambúð þegar hún ákvað að hún vildi eignast barn upp á eigin spýtur. Hún hóf það ferli hjá Art Medica en þá hafi komið í ljós að hún er ein fjölmargra kvenna sem þjáist af endometríósu, einnig kallað legslímuflakk, sem oft er sársaukafullur sjúkdómur sem orsakast af því að frumur úr innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í kviðarholinu og fara ekki úr úr úr líkamanum við blæðingar eins og undir venjulegur kringumstæðum. Þessi sjúkdómur getur valdið ófrjósemi eða verulegum vandkvæðum hjá konum að verða óléttar. Kolbrún segist hafa fundið fyrir einkennum þegar hún var yngri en fann að öðru leyti ekki mikið fyrir þessu ástandi. Til þess hins vegar að geta orðið ólétt varð hún að fara í tvo uppskurði sem hún og gerði. Í fyrstu ætlaði hún að eignast barnið með góðum vin sem var tilbúinn að gefa sæði en leyfa Kolbrúnu að eignast barnið á eigin forsendum. Það gekk hins vegar ekki því eftir tvær tilraunir til tæknifrjóvgunar hafði hún ekki orðið ólétt. Hinsvegar kynntist hún núverandi barnföður sínum í miðju þessu ferli og hóf samband með honum. Hann var til í að taka þátt í þessu ævintýri með henni og á endanum varð glasafrjóvgun leiðin til að kalla Nínu í heiminn. Allt ferlið hjá Kolbrúnu að eignast barn tók um fimm ár, og var síbreytilegt eins og veðrið þennan dag sem hún rifjar þessa sögu upp með blaðakonu Fjölskyldunnar; oft erfitt og krefjandi en líka mikil birta og sól inná milli, og ekki erfitt að skilja að Nína er alveg sérstakur gimsteinn í augum móður sinnar.


Kolbrún segir að hún hafi verið heppin því fyrsta glasafrjóvgunarmeðferðin hafi gengið vel og hún orðið þunguð. Meðferðin sé erfið og hún ánægð að hafa ekki þurft að fara aftur. Aukið líkindamat á Downs heilkenni hafi þó valdið henni hugarangri og hún ákveðið að fara í fylgjusýnistöku til að fá sem nákvæmar upplýsingar um stöðuna. „Ég vildi fyrst og fremst vera tilbúin ef hún reyndist vera með Downs heilkenni en var alveg ákveðin að ég myndi alltaf halda barninu,“ segir Kolbrún.

Kolbrún Kristín Karlsdóttir og dóttir hennar kl 17 á rólóvelli …
Kolbrún Kristín Karlsdóttir og dóttir hennar kl 17 á rólóvelli við Stakkholt Haraldur Jónasson/Hari

Sem betur fer reyndist allt vera í lagi sem var að sjálfsögðu gríðarlegur léttir, loksins þegar Kolbrúnu hafði tekist að verða ólétt, en þessi staða að hægt sé að rannsaka nákvæmlega hvort Downs heilkennið sé til staðar og aðra þætti í sambandi við fóstrið finnst Kolbrúnu vera umhugsunarverð. Hvað ef einhvern tíma verður til dæmis hægt að skima fyrir einhverfu, viljum við það?“ Hún segir að eftir þessa reynslu finnist henni mikilvægt að dæma enga konu út frá þeim ákvörðunum sem hún tekur varðandi eigin meðgöngu. Aðstæður fólks séu afar ólíkar og virða beri val kvenna.

Dagurinn í dag er núna

Mæðgurnar eru tvær í dag en hlutirnir geta vissulega breyst, rétt eins og veðrið. Kolbrún segist vera opin fyrir sambandi og sambúð ef rétti maðurinn kemur í leitirnar og því gæti fjöldi fjölskyldumeðlima breyst í framtíðinni. Ef það gerist er ólíklegt að þjónar á veitingastöðum suður í höfum spyrji hvort þau séu bara þrjú, það er nokkuð ljóst.
Kannski og kannski ekki, kemur í ljós og skiptir ekki öllu máli. Dagurinn í dag er núna og þær mæðgur eru á leiðinni í kröfugöngu í slyddunni, sem reyndar breyttist í sólskin fáum mínútum síðar.

Þeir sem vilja fylgjast með ævintýrum mæðgnanna í dagsins önn á Instagram geta fylgst með hér: instagram.com/kollakk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert