Hvað er málið með Taylor og Kanye?

Taylor Swift á sviðinu í nótt.
Taylor Swift á sviðinu í nótt. AFP

Bestu óvinirnir Kanye West og Taylor Swift rötuðu enn einu sinni í fréttirnar í dag, í þetta sinn vegna ummæla Swift í þakkarræðu hennar á Grammy verðlaununum.

Talið er að ummælin beinist að Kanye en Taylor nefndi rapparann þó ekki á nafn berum orðum. Stundum getur reynst erfitt að lesa á milli línanna í opinberum samskiptum stjarnanna en margt af því sem farið hefur Swift og West á milli er uppi á borðum fyrir allra augum.

„I‘mma let you finish“

Þetta hófst allt árið 2009. Taylor Swift steig á svið á VMA verðlaunahátíð MTV sjónvarpsstöðvarinnar og tók á móti verðlaunum fyrir tónlistarmyndband sitt við lagið „You Belong With Me“ sem valið var besta tónlistarmyndband kventónlistarmanns. Hún skartaði viðeigandi undrunarsvip þegar hún þakkaði fyrir sig og sagði „Mig hefur alltaf dreymt um að vinna svona einn daginn en ég hélt aldrei að það myndi gerast.“

Hún komst ekki mikið lengra því skyndilega var Kanye West kominn á svið og sagði hina nú ódauðlegu setningu „I‘mma let you finish“.

„Ég ætla að leyfa þér að klára,“ sagði Kanye við Taylor áður en hann sneri sér að skaranum. „En Beyoncé átti eitt besta tónlistarmyndband allra tíma.“

Myndavélarnar fönguðu andlit Beyoncé sem leit ört í kringum sig með vantrúa bros á andlitinu, og á vörum hennar mátti greina upphrópunina „Oh my god“. Kanye rétti Taylor aftur hljóðnemann og fór af sviðinu en skaðinn var skeður og gleðin horfin. Taylor stóð eftir, eins og illa gerður hlutur með verðlaunagripinn og hljóðnemann í fanginu og sagði ekki annað orð.

Seinna á sömu hátíð hafði Britney Spears og lagið „Womanizer“ einnig sigurinn af Beyoncé í flokknum Besta popp myndband en Kanye mótmælti því ekki, hugsanlega vegna þess að honum var vísað á dyr.

Merkilegt nokk hafði Kanye nokkuð til síns máls. Umrætt myndband Beyoncé var nefnilega við stórsmellinn „Single Ladies“ en fá tónlistarmyndbönd hafa sett mark sitt á tónlistarsöguna til jafns við svarthvíta samfelludans Bey. Sögulega séð fá svartar tónlistarkonur ekki nálægt því þá virðingu sem þær eiga skilda á verðlaunahátíðum vestan hafs en hefði Kanye haft aðeins meiri þolinmæði hefði hann séð Beyoncé taka á móti verðlaunum fyrir myndband ársins seinna á sömu hátíð.

Beyoncé bauð Taylor Swift á svið með sér til að bæta upp fyrir gjörðir Kanye. Sjálfur baðst hann afsökunar í bloggfærslu stuttu síðar þar sem hann sagði hana afar hæfileikaríka og það hefði verið rangt af sér að stela af henni sviðsljósinu. Hann ítrekaði þó þá afstöðu sína að „Single Ladies“ væri besta myndband áratugarins.

Má þess geta að Kanye endurtók næstum því leikinn þegar honum þótti Beyoncé snupruð um verðlaunin fyrir plötu ársins á Grammy verðlaununum í fyrra.

kanye west grammys thegrammys beck imma let you finish

Gætum ennþá stundað kynlíf

Lengi eftir þetta þótti anda köldu á milli þeirra Taylor og Kanye en þau grófu exina formlega þegar hún afhenti honum heiðursverðlaun VMA hátíðarinnar í ágúst í fyrra. „I‘mma let you finish – En Kanye West átti einn besta feril allra tíma,“ sagði Taylor áður en Kanye steig á svið og tók við verðlaununum glaður í bragði.

Þarna hefði málið getað verið dautt en þeir sem trúðu því að værðin myndi endast þekkja greinilega ekki til Kanye.

Þann 11. febrúar síðastliðinn gaf hann nefnilega út lagið „Famous“ sem inniheldur eftirfarandi textabrot.

„I feel like me and Taylor Swift might still have sex / I made that bitch famous.“

Þarna vísar Kanye til fyrstu kynna sinna við söngkonuna árið 2009 og gefur í skyn að hann eigi möguleika á að stunda með henni kynlíf. Textabrotið er afar niðrandi enda gæti það ekki aðeins flokkast sem kynferðislegt áreiti heldur gefur það jafnframt í skyn að Taylor hafi ekki komist áfram á eigin verðleikum. Það sem meira er þá gefur það í skyn að Taylor standi þannig í þakkarskuld við Kanye, skuld sem hún gæti greitt með kynlífi.

Kanye West er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum …
Kanye West er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum eða fyrir almenna kurteisi. AFP

Kanye hefur síðar sagt í viðtölum að hann hafi rætt um lagið við Taylor í símtali þar sem hún lagði blessun sína yfir það og sagt það fyndið. Í yfirlýsingu úr herbúðum hennar segir hinsvegar að hann hafi ekki kallað eftir hennar samþykki í símtalinu heldur beðið hana um að deila laginu á Twitter.

„Hún hafnaði því og varaði hann við því að gefa út lag með skilaboðum svo fullum af kvenfyrirlitningu,“ segir í yfirlýsingunni þar sem einnig kom fram að Taylor hefði aldrei fengið að heyra umrætt textabrot fyrr en lagið var komið út.

„Ég dissaði ekki Taylor Swift og ég hef aldrei dissað hana...“ skrifaði Kanye á Twitter þann 12. febrúar, eftir að fyrrnefnd yfirlýsing birtist. „(...) ég ætla ekki einu sinni að eigna mér heiðurinn að hugmyndinni... hún er raunar eitthvað sem  Taylor datt í hug. Hún var að borða með einum vini okkar sem ég mun ekki nefna á nafn og hún sagði honum ég get ekki verið reið við Kanye því hann gerði mig fræga!“

Stelpu-styrkur fyrir ímyndina

Að verða fyrir athugasemdum á við þær sem Kanye setur fram í textabrotinu getur verið afar óþægilegt. Margir líta þó á slíkt sem lítið mál, eitthvað sem maður á bara að hrista af sér, en það segir kannski meira um hversu algengar óviðeigandi kynferðislegar athugasemdir eru fremur en um alvarleika málsins.

Að því sögðu, þá var ljóst frá því textinn kom út að Taylor gæti notað hann sem enn eina stoðina í ímyndarsköpun sinni. Og það varð úr.

„Sem fyrsta kon­an til þess að vinna tvenn Grammy verðlaun fyr­ir plötu árs­ins lang­ar mig að segja öll­um ung­um kon­um þarna úti að þið munið rek­ast á fólk sem reyn­ir annað hvort að draga úr af­rek­um ykk­ar, eða eigna sér heiður­inn af þeim,“ sagði Swift í ræðu sinni í nótt.

„Ef þið hins­veg­ar ein­beitið ykk­ur af vinn­unni og leyfið fólki ekki að koma ykk­ur af spor­inu munuð þið átta ykk­ur á að það voruð þið, og fólkið sem elsk­ar ykk­ur, sem kom ykk­ur á áfangastað.“

taylor swift happy smile

Árið 2013 vermdi Taylor reglulega á lista yfir „Hataðasta fræga fólkið“. Hún og hennar teymi hafa nýtt síðustu tvö árin vel til að snúa þeirri ímynd við og með úthugsuðum nýjum vinahópi fullum af ungstirnum hefur Taylor hætt að vera „pirrandi“ og orðið „traust vinkona“. 

Með ræðu sinni í gærkvöldi miðaði hún inn á annan gæðastimpil, „sterk kona“. Hvort hann haldist á eftir að koma í ljós, en í það minnsta er ólíklegt að þar við sitji án þess að Kanye láti aftur í sér heyra.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson